10.2.2017 | 19:33
Það var víst heldur aldrei stéttamunur á Íslandi.
Í 17. júní ræðu á Austurvelli fyrir þremur árum sagði þáverandi forsætisráðherra að það væri eitt af einkennum íslensks þjóðfélags, að alla tíð hefðí ekki verið hér sá stéttamunur sem verið hefði í öðrum löndum.
Það er nefnilega það.
Amma mín fékk ekki kosningarétt fyrr en hún var á fertugsaldri.
Afi minn var vinnumaður austur í Skaftafellssýslu fram undir þrítugt og var í raun í vistarbandi.
Hann var látinn fara gangandi að austan um hávetur og bjarga sér yfir allar óbrúuðu árnar á leiðinni vestur í Garð á Suðurnesjum, þar sem hann stundaði hættulegt og vosbúðarfullt útræði fram í maí. Þá fór hann fótgangandi austur á ný til að afhenda húsbóndanum launin fyrir vertíðina og vann vinnumannsstörfin áfram fram eftir árinu þar til næsta vertíðarganga hans hófst.
Í staðinn fékk hann mat og húsaskjól.
Lengst af veldistíma Dana hér á landi áttu innan við 10% bændanna allar jarðirnar en almennt voru bændur leiguliðar.
Þetta var að sjálfsögðu íslensk útgáfa af lénsveldistímanum í Evrópu, þar sem ríkjandi stéttir á Íslandi, stórbændur, embættismenn og útgerðarmenn, réðu meira en nokkur aðall í Evrópu gerði. Hvergi í Evrópu réði einvaldskonungur jafn litlu og Danakonungur á Íslandi.
Hinn íslenski aðall stóð þversum sem afturhald fyrir breytingum, eyðilagði meðal annars framfaratillögur svonefndrar Landsnefndar konungs upp úr 1770 og kom eftir mætti í veg fyrir þéttbýlismyndun við sjávarsíðuna.
Hinir fjölmörgu öreigar og sveitarómagar á Íslandi höfðu hvorki kosningarétt né kjörgengi fyrr en þriðjungur 20. aldarinnar var liðinn.
Amma mín var reidd á hesti sjö ára gömul frá Hólmi í Landbroti austur yfir Skeiðarársand til Svínafells í Öræfum og kú leidd til baka. Þetta voru slétt "verslunarviðskipti" og þetta var nú allt stéttleysið og jafnréttið.
Og nú er því haldið fram að kynbundinn launamunur sé ekki til á Íslandi.
Kanntu annan?
Segir ummæli ráðherra ótæk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Íslendingum var talið í trú um að stéttamuni hafi verið útrýmt þegar þéringar lögðust niður. Og margir trúðu því. Stéttaskipting, stéttamunur verður alltaf þar sem mkill ójöfnuð er.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 10.2.2017 kl. 19:52
17. júní ræður eru ekki annað en draumórar. Þeim er ætlað að blása okkur eldmóð í brjóst og stolt. Við erum jöfnust, fremst, gáfuðust og fallegust í landi sem er einstakt og allir aðrir ágirnast. Ótrúlega margir trúa svo þvælunni löngu eftir 17. júní. Dómsmálaráðherra okkar lifir víst hinn eilífa 17. júní og „aðrar mögulegar staðreyndir“ (e. alternative facts) Orwells eru hennar raunveruleiki.
Hábeinn (IP-tala skráð) 10.2.2017 kl. 22:00
Margar konur í mínu umhverfi eru með mun hærri laun en ég.
Það er vegna þess að kýs að vinna starf sem ég hef áhuga á að vinna þó ég gæti verið að fást við eitthvað sem myndi kannski borga betur.
Þannig hefur "kynbundinn" launamunur minn nákvæmlega ekkert með kynferði að gera heldur mitt eigið val um hvernig ég lifi lífinu.
Að rökræða eitthvað sem er ekki til er tilgangslítið.
Guðmundur Ásgeirsson, 10.2.2017 kl. 22:26
Þjóðhátíðarræða Sigurðar Inga Jóhannssonar var ljósárum frá ræðu forvera hans, hófstillt, raunsæ og efnismikil.
Ómar Ragnarsson, 11.2.2017 kl. 00:36
„....og kú leidd til baka."
Ja hjarna. Þarna varð þér fótaskortur á tungunni:-)
Rutseg (IP-tala skráð) 11.2.2017 kl. 01:11
Ómar er duglegur við að gera athugasemdir við málfar annarra manna en er svo ekkert betri sjálfur, eins og mýmörg dæmi sanna.
Þorsteinn Briem, 11.2.2017 kl. 02:26
En þótt Ómari kunni að verða fótaskortur á tungunni þá er hann vel að sér í mannasiðum, öfugt við erkidóna sem hér ríða húsum.
Þorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 11.2.2017 kl. 10:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.