Einstaka ökumaður tilbúinn til "að láta vaða"? Já, því miður.

Ef tveir menn í umferðinni, bílstjóri og hjólreiðamaður, stefna í árekstur, er það eins ójafn leikur og hugsast getur.  Báðir aðilar geta að sjálfsögðu gert mistök, en ævinlega er það svo að hjólreiðamaður eða gangandi maður eru berskjaldaðir og eins gott að þeir viti af stöðu sinni og geri ráð fyrir hinu versta. 

Í námskeiðum fyrir akstur vélhjóla er 1. bororðið að vélhjólamaður geri ævinlega ráð fyrir því að enginn sjái hann í umferðinni, og að hann reikni með því að hvaða bílstjóri, sem er, geti hugsað sér að neyta þess aflsmunar, sem er fólginn í því að vera vel varinn inni í öruggum bíl, sem stefnt er gegn gersamlega óvörðum manni á tíu sinnum léttara farartæki. 

Eftir að ég byrjaði að nota tvö hjól, rafreiðhjól og vespu-vélhjól, hef ég tvívegis upplifað það að bílstjórar voru ákveðnir í því að neyta yfirburða sinna, jafnvel þótt það kostaði gangandi mann, hjólreiðamann eða vélhjólamann lífið eða stórfelld meiðsli. 

Svona tilfelli eru að vísu alger undantekningartilfelli í umferðinni, en af því að eitt slys, sem hlýst af svona hegðun, er einu slysi of mikið, verða gangandi og hjólandi að gera ráð fyrir því að hvaða bílstjóri, sem er, eigi svona til.  

Í fyrra skiptið var ég á rafreiðhjólinu samhliða gangandi vegfarenda, afsakið, vegfaranda, og báðir vorum við í þann veginn að fara út á gangbraut, sem lá á móti grænu ljósi. 

Kom þá stór jeppi á öskrandi ferð og virtist ætla að halda áfram á fullri ferð og aka á fullu yfir gangbrautina, hvað sem það kostaði, jafnvel þótt ég og hinn gangandi yrðum báðir fyrir honum og að hann sæi okkur greinilega.

Bæði ég og gangandi maðurinn vorum komnir rúman metra inn á gangbrautina, þegar við sáum okkar óvænna, snarstönsuðum og kipptum okkur til baka eins hratt og hægt var til að sleppa undan bílnum, sem brunaði áfram og rétt straukst fram hjá okkur svo að við fundum þytinn af honum.

Í hitt skiptið beið ég á vespu-vélhjólinu við rautt umferðarljós á gatnamótum. Framundan hinum megin við gatnamótin var þrenging á götunni.

Aftan að mér ók þá stór jeppi og stansaði að baki mér. Þegar græna ljósið kviknaði fór ég af stað á sama augnabliki og gaf nógu vel í til að sem minnst töf yrði á því að umferðin kæmist sem greiðlegast og hraðast yfir gatnamótin. 

En jeppinn fyrir aftan mig hóf í sömu andrá mikið flaut og lá bílstjórinn á flautunni meðan hann gaf hinni stóru vél jeppans hraustlega inn og þröngvaði jeppanum meðfram mér til þess að geta strax orðið fyrstur. 

Hann lét það ekki nægja, heldur beygði bílnum svellkaldur upp að mér svo að ég yrði að nauðhemla frekar en að klemmast á milli bíls hans og gangstéttarinnar hægra megin við okkur. 

Að sjálfsögðu klosshemlaði ég til þess að lenda ekki undir þessum stóra bíl. Maður kippir ekki 130 kílóa vélhjóla eins og ekkert sé upp á háa gangstétt. 

Hann brunaði framúr með flautuna á fullu og ég sá hugsanlega ástæðu fyrir þessu: Þetta var nýr jeppi sem er auglýstur "með 407 hestafla vél - í fararbroddi."

P.S. Ef ég bíð fremstur við ljós er ég farinn að kíkja á það sem bílstjórinn fyrir aftan mig er að gera. Í fyrradag grúfði slíkur bílstjóri sig yfir snjallsímann í kjöltu sér og hafði mikið að gera við þá iðju sína. Þá vissi ég fyrir víst, að engin hætta væri á að hann ryki af stað með flauti og látum, heldur þvert á móti, að frekar myndu þeir, sem væru fyrir aftan hann bölva honum fyrir að tefja alla bílaröðina fyrir aftan með seinagangi sínum. 

 


mbl.is „Hættið að drepa hjólreiðamenn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Í fyrra skiptið var ég á rafreiðhjólinu samhliða gangandi vegfarenda og báðir vorum við í þann veginn að fara út á gangbraut, sem lá á móti grænu ljósi."

Algeng villa að skrifa "vegfarenda" í stað "vegfaranda" þegar um eintölu er að ræða, sjálfsagt vegna þess að "vegfarandi" er "vegfarendur" í fleirtölu.

Þorsteinn Briem, 12.2.2017 kl. 01:13

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk, Steini minn. Þetta var innsláttarvilla, sem ég mun leiðrétta nú þegar. 

Ómar Ragnarsson, 12.2.2017 kl. 17:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband