Fyrirkomulagið varðandi ráðherraábyrgð er ekki eins í öllum löndum. Sums staðar er samábyrgð ráðherra mikil varðandi frumvörp hvers annars, en annars staðar lausari í reipunum.
Hér á landi hafa ráðherrar oft fengið að valsa ansi frjálslega um í þessu efni og aðrir ráðherrar þá svarið af sér ábyrgð. Þegar þetta er gert sitt á hvað eykur það á ráðríki ráðherra, því að það myndast nokkurs konar samtrygging: Ef þú klórar mér á bakinu skal ég klóra þer.
Þetta getur gert framkvæmdavaldið býsna ágengt svo að hallist á við aðra valdþætti og gagnrýnt hefur verið að þetta auki líkurnar á svonefndum hrossakaupum.
Í starfi stjórnlagaráðs var fengist við það viðfangsefni að skýra þessa ábyrgð á þann hátt, að ef ráðherra hreyfði engum andmælum við frumvarpi annars ráðherra, teldist hann samábyrgur honum, og ef engin andmæli væru í ríkisstjórn, bæri öll ríkisstjórnin sameiginlega ábyrgð á frumvarpinu.
Ráðherrar gæti aðeins losað sig undan samábyrgð með sérstakri bókun þess efnis.
Í ríkisstjórnum með tæpan meirihluta getur skipt máli hvernig staðið er að svona atriðum í stjórn landsins.
Síðustu fjögur ár sín á valdastóli hafði Viðreisnarstjórnin aðeins eins atkvæðis meirihluta og mátti því illa við því að einhver ráðherra "hlypi út undan sér".
Öll þrettán ár stjórnarinnar ríkti eindæma trúnaður innan hennar, enda var margfalt auðveldara þá en nú að halda ágreiningi og trúnaðarumræðum leyndum.
Aðeins einu sinni brást samheldnin hjá Viðreisnarstjórninni þegar einn ráðherranna, Eggert G. Þorsteinsson, studdi ekki stjórnarfrumvarp.
Þótti það sæta miklum tíðindum þótt stjórnin héldi samt velli.
Það ætti að vera til bóta að skýrar reglur séu í stjórnarskrá um ábyrgð ráðherra gagnvart bæði eigin frumvörpum og frumvörpum annarra ráðherra.
Bera ábyrgð á stjórnarfrumvörpum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ráðherrar fara með æðstu miðstjórn innan stjórnsýslunnar og fara í reynd með það framkvæmdavald sem forseta Íslands er formlega veitt í stjórnarskránni.
Þeir bera ábyrgð á öllum stjórnsýsluathöfnum í þeirra eigin ráðuneytum samkvæmt stjórnarskránni og lögum um ráðherraábyrgð nr. 4/1963.
Ríkisstjórnin tekur hins vegar sameiginlegar ákvarðanir á ráðherrafundum.
Lög um ráðherraábyrgð nr. 4/1963:
"5. gr. Sé um að ræða embættisathöfn í ríkisráði eða á ráðherrafundi, sbr. 16. og 17. gr. stjórnarskrárinnar, bera allir viðstaddir ráðherrar, sem með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt hafa stuðlað að þeirri athöfn, ábyrgð á henni."
Forseti Íslands sækir vald sitt beint til þjóðarinnar en samkvæmt stjórnarskránni er hann ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum og lætur ráðherra framkvæma vald sitt.
Samkvæmt þingræðisreglunni getur meirihluti þingmanna hvenær sem er lýst vantrausti á ríkisstjórnina eða einstaka ráðherra.
Hafi slík vantrauststillaga verið samþykkt er viðkomandi ráðherra, eða ráðherrum, skylt að biðjast lausnar og þá veitir forseti Íslands þeim lausn frá embætti.
Alþingi getur með þingsályktun kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra og Landsdómur dæmir um þau mál.
Þorsteinn Briem, 14.2.2017 kl. 16:01
Frumvarp er bara frumvarp, uppástunga sem hefur ekkert lagagildi. Ábyrgð á einhverju sem ekkert gildi hefur er tilgangslaus. Þó það hljómi vel þá er það eins og svo margt í tillögum stjórnlagaráðs, terta gerð úr mold og steinum - ekkert nema útlitið.
Hábeinn (IP-tala skráð) 14.2.2017 kl. 16:15
varla er það skilda en þó ættu menn að géta lesið stjórnarsátmálan og greit athvæði samhvæmt honum eða eru þíngmenn ekki læsir á hvað þeir skrifa undir í upphafi það er annað ef ekki er minst á hluti í stjórnarsáttmálanum eru ekki eins bundnir
kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 14.2.2017 kl. 17:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.