22.2.2017 | 13:08
Góð ákvörðun Trumps.
Margir harðsnúnir og valdafíknir valdamenn hyllast til að velja sér jábræður og undirgefna samstarfsmenn og ráðgjafa.
Þegar athygli er vakin á þvi´hvað slæmir ráðgjafar geta gert mikinn usla, ekki aðeins með skaðlegum ráðleggingum og ákvörðunum, heldur einnig með því að skorta hæfni, gleymist það, að hver ráðamaður fær þá ráðgjafa og samstarfsmenn sem hann á skilið og hefur valið sér sjálfur.
Ráðamaðurinn valdi oft jafnvel slaka menn frekar en hæfa til þess að geta gert þá óörugga með sig og háða foringjanum.
Sem betur fer hefur Donald Trump loksins valið mjög hæfan mann í afar mikilvægt embætti þjóðaröryggisráðgjafa. Ekki síst er þetta ánægjuefni vegna þess, að einstrengingslegar hugmyndir Trumps og sýn hans á þjóðaröryggi Bandaríkjamanna hafa verið helsta áhyggjuefnið varðandi það að hann skuli nú gegna embætti "valdamesta manns heims".
Valið minnir á það þegar Richard M. Nixon valdi Henry Kissinger sem helsta áhrifamann í utanríkismálum Bandaríkjanna. Enginn veit að vísu hve mikið mark Trump muni taka á H.R. McMaster, en val hans vekur þó von, einkum vegna þess hve þjóðaröryggismálin og sýnin á þau munu vega þungt næstu árin vestra.
McMaster er meistari herkænskunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ekkert veit ég um heilsufar Donalds Trump en hann er nú ekki lengur neinn unglingur.
Það mætti þvi ímynda sér að þegar mesti hamurinn er farinn af honum, kannski eftir nokkra mánuði, þá muni hann frekar draga sig í hlé og gefa aðstoðarmönnum sínum og ráðherrum lausari tauminn.
Það er því mikilvægt hvaða menn hann velur sér til ráðgjafar.
En þetta kemur nú í ljós með tímanum.
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 22.2.2017 kl. 14:21
Eins og keisarinn alveg ber,
orða mikið gjálfur,
allt hjá honum illa fer,
ef hann ræður sjálfur.
Þorsteinn Briem, 22.2.2017 kl. 16:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.