9.3.2017 | 07:40
1963 og 2007 eru ennþá hér.
Fyrir rúmri hálfri öld námu ný trúarbrögð land á Íslandi, áltrúin. Nær öll gjaldeyrisöflun landins hafðu þar á undan verið á vegum sjávarútvegsins, allt vegakerfi landsins ófullkomnir malarvegir og enginn stóriðnaður stundaður, heldur að mestu lítil iðnfyrirtæki sem áttu tilveru sína undir tollamúrum.
Þá sáu forsvarsmenn svissneska álfyrirtækisins Alusuisse landið úr lofti á leið yfir hafið með Loftleiðaflugvél og buðu Íslendingum upp á að innleiða stórvirkjanir í vatnsafli í stað smávirkjana, og nota orkuna fyrir stóriðju, sem er dálítið skondin þýðing á "heavy instustrie" sem frekar ætti að kalla þungaiðnað.
Íslendingar stukku á bláeyga eingyðistrú, trúna á álguðinn og töfraorðið "orkufrekur iðnaður." Það varð að trúarsetningu að selja sem allra mesta orku fyrir sem allra lægst verð.
Tilkoma álversins í Straumsvík og Búrfellsvirkjunar og lækkun tolla með inngöngu í EFTA voru nauðsynleg skref á sínum tíma til þess að skjóta fleiri stoðum undir sveiflukennda gjaldeyrisöflun okkar, en á móti kom það sem síðan hefur verið skoðað betur, sóknin í að setja öll egg okkar varðandi notkun orku landsins í eina körfu, því að nú eru 80% af orkunni notuð af stóriðjunni og búið að gera stóriðjuna að svipuðu fyrirbæri og sjávarútvegurinn var forðum varðandi einhæfni á mikilvægu sviði efnahagslífsins.
Álverið í Straumvík var upphaflega með 33 þúsund tonna árlegri framleiðslu og þótti risavaxið á íslenskan mælikvarða. Nú þykja meira en tíu sinnum stærri álver, 360 þúsund tonna, vera það minnsta, sem áltrúin komist af með og búið að keýra á alls sjö möguleika á slíkum firnum þegar fyrirhugað álver við Skagaströnd er talið með.
Munurinn á þungaiðnaðinum og sjávarútveginum og ferðaþjónustunni var hins vegar sá, að íslenskir hagfræðingar höfðu reiknað út, að virðisauki stóriðjunnar og ábati Íslendinga hafði verið fjarri því að vera jafnoki sjávarútvegs og ferðaþjónustu, enda renna tekjurnar úr landi og það meira að segja tekjuskattfrjálst hjá Alcoa.
2007 munaði örfáum atkvæðum í Hafnarfirði að álverið í Straumsvík yrði stækkað stórlega og gert að algeru risaálveri eins og álverið á Reyðarfirði.
Um svipað leyti voru teknar skóflustungur að öðru risaálveri í Helguvík og með þessu tvennu, auk risaálvers á Bakka við Húsavík og í Þorlákshöfn, átti að leggja grunn að því að allri orku landsins og náttúruverðmætum yrði fórnað á altari álguðsins.
Í Hafnarfirði var "ný tækni í mengunarvörnum" og höfuðatriði áltrúarinnar lofsungin og því hótað að leggja álverið niður ef kröfum álguðsins yrði hafnað.
1965 var eitt höfuðatriði lofsöngsins að stórfelldur afleiddur framleiðsluiðnaður myndi spretta upp þegar við Íslendingar myndum kaupa sjálfir álið og vinna úr því.
Ekkert varð af því, enda gegn lögmálunum um hagkvæmni stærðarinnar, sem veldur því að alla tíð hefur álið verið flutt óunnið úr landi.
Ellefu árum síðar er enn að birtast nakinn sannleikurinn að ekkert hefur birst varðandi mengunarvarnartæknina, og þegar hugað er að því að álverið, að mestu óbreytt er orðið til trafala í þróun byggðarinnar, má nærri geta hvernig ástandið væri ef það hefði verið stækkað eins hrikalega og til stóð árið 2007.
![]() |
Átti að minnka en er óbreytt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta tal um stærð þynningarsvæða er villandi.
Engin takmörk eru við því hversu mikið álverin mega menga og ekkert eftirlit er með mengunarefnum í útblæstrinum. Bíleigendur kannast hinsvegar við að styrkur mengunarefna í útblæstri bíla er mældur í árlegri aðalskoðun.
Einu mengunarkröfurnar sem gerðar eru til þessara verksmiðja er að mengun fari ekki yfir ákveðin mörk, -utan sk þynningarsvæðis.
Líklega er eðlilegra að kalla þynningarsvæðið mengað svæði.
Ef "þynningarsvæði hefur ekki minnkað" er einfaldlega verið að segja að mengaður útblástur hefur ekki minkað og enn er styrkur mengunarinnar yfir mörkum á núverandi þynningaqrsvæði.
Ef starfsemin væri mengunarlaus þyrfti ekkert "þynningarsvæði".
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 10.3.2017 kl. 11:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.