23.3.2017 | 09:29
Hve mikil áhrif munu nýjustu atburðir hafa?
Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu sölunnar á Arionbanka þessa dagana og þá næstu og áhrifum hennar á íslenska stjórnmálaástandið.
Fyrstu viðbrögð forsætisráðherra voru að fagna sölunni með þeim orðum að hún sýndi að nú hefðu góðir útlendingar mikið traust á Íslandi og fjárfestingum hér á landi. Þetta væri alveg nýtt fyrirbrigði og mikið fagnaðarefni.
En síðan hafa hrannast upp spurningar og auk þess hringja ýmsar bjöllur varðandi samanburð á þessari sölu og sölu ríkisbankanna upp úr síðustu aldamótum og samanburð á hinum "dásamlegu" fjárfestingum útlendinga í íslenska hagkerfinu í aðdraganda hrunsins.
Þá voru kaup erlendra vogunarsjóða og fleiri fjárfesta á íslenskum krónum lengi vel talið sérstakt fagnaðarefni, af því það sýndi "traust útlendinga á íslenska hagkerfinu."
Þeir sem vöruðu við þessu og bentu á hættu á fyrirbrigði, sem líkja mætti við "snjóhengju" sem hengi yfir okkar litla hagkerfi voru kallaðir úrtölumenn og nöldrarar lengi vel.
En síðan kom í ljós að aðvörunarorðin áttu svo sannarlega við rök að styðjast, þegar hin risavaxna sápukúla bankakerfisins og efnahagslífsins alls sprakk og við tók níu ára haftatímabil við að eyða snjóhengjunni í þeim mæli að óhætt væri afnema höftin.
Á árunum í byrjun aldarinnar var gumað af háu gengi krónunnar og þeirri dýrð, sem einka(vina)væðing bankanna hefði fært okkur.
Þegar ég minntist á tvennt í bloggpistli, annars vegar þá ætlun ráðamanna 2002 að eignarhald bankanna yrði dreift í anda Eyjólfs Konráðs Jónssonar, og hins vegar það að Þjóðhagsstofnun var lögð niður, var skrifað heilt Reykjavíkurbréf um það hve þessi skrif mín væru mikið bull og hve mikill ómerkingur ég væri.
Rökin voru þau í Reykjavíkurbréfinu að það hefði verið kennitöluflakk sem hefði haft áhrif og að Þorsteinn Pálsson hefði sem forsætisráðherra 1988 látið skoða hvort leggja ætti Þjóðhagsstofnun niður! Niðurstaðan varð þá sú að ekkert varð úr því!
Þetta tvennt sagði höfundur Reykjavíkurbréfsins að sýndi að ráðamenn um síðustu aldamót hefðu ekki borið neina ábyrgð á þvi sem þá gerðist.
Nú stingur upp kollinum í sölu Arionbanka svipað fyrirbæri, "kennitöluflakk" og sérkennilegt eignarhald sem endar í þekktu skattaskjóli í Karabíska hafinu, 9,99% eignarhlutir og krosstengsl sem hringja bjöllum varðandi það að þarna séu eigendur bankans að selja sjálfum sér ráðandi hlut í bankanum með tuga milljarða gróða miðað við það skilyrði, sem upphaflega var sett um að selja á hámarks verði til óskyldra aðila.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og fleiri hafa lýst því hvernig hægt er að líta á þessa gerninga alla.
Og nú sér maður það sagt á prenti að ráðamenn þjóðarinnar um þessar mundir geti ekkert við þessu gert, ekki frekar en ráðamenn um síðustu aldamót réðu neinu um sölu bankanna eða afnám Þjóðhagsstofnunar.
Dæmigerð viðbrögð íslenskra stjórnmálamanna, þar sem ríkjandi lagaumhverfi, sem þeir hafa sjálfir búið til, sé eitthvað sem detti eins og af himnum ofan án þess að nokkur fái rönd við reist eða beri neina ábyrgð.
Fróðlegt er að vita hvort hrun fylgis tveggja litlu stjórnarflokkanna stafar af vandræðaganginum í þessu máli, af því að kjósendur þeirra hafi orðið fyrir vonbrigðum með frammistöðu þeirra.
Enn meira umhugsunarefni er það að Sjálfstæðisflokkurinn skuli nú stórauka fylgi sitt.
En það er svo sem ekkert nýtt í sögu þess flokks. Hann sótti fram í kosningunum 2007 með slagorðinu "traust efnahagsstjórn" þótt árið áður hefði munað hársbreidd að bankakerfið hryndi og að aðeins rúmt ár liði frá kosningunum þar til hin "tausta efnahagsstjórn" færði með sér mesta efnahagshrun í sögu lýðveldisins.
Fylgi Bjartrar framtíðar og Viðreisnar hrynur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Einkavæðing bankanna var einkavæðing sem fór fram árið 2002 með sölu á ríkisreknum bönkum, Landsbankanum og Búnaðarbankanum, í hendur einkaaðila.
Einkavæðingin var alla tíð nokkuð umdeild og varð enn umdeildari eftir bankahrunið 2008.
Bent hefur verið á að ef öðruvísi hefði verið farið að hefði þenslan í hagkerfinu ekki orðið jafn mikil á jafn skömmum tíma.
Einnig hefur verið gagnrýnt að ekki var fylgt upprunalegri settri stefnu um að bankarnir skyldu verða í dreifðri eignaraðild.
Steingrímur Ari Arason sagði sig úr einkavæðingarnefnd Landsbankans í september 2002 og viðhafði þau orð að hann hefði aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum."
Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, 12.9.2002:
"Við erum ekki sammála Steingrími [Ara Arasyni] þegar hann segir önnur tilboð vera hagstæðari á alla hefðbundna mælikvarða.
Þessu erum við einfaldlega ósammála og það er um þennan ágreining sem málið snýst.
Við byggjum afstöðu okkar á mati HSBC-bankans og einkavæðingarnefnd sendir málið áfram til ráðherranefndar sem tekur þessa ákvörðun eins og henni ber.
Hún er hinn pólitískt ábyrgi aðili í málinu."
Þorsteinn Briem, 23.3.2017 kl. 09:36
20.4.2010:
Steingrímur Ari: Davíð og Halldór réðu öllu og pólitísk ákvörðun hverjir eignuðust bankana
Þorsteinn Briem, 23.3.2017 kl. 09:37
Ólafur Ragnar Grímsson í London 3. maí 2005 - "How to succeed in modern business":
"No one is afraid to work with us; people even see us as fascinating eccentrics who can do no harm and therefore all doors are thrown wide open when we arrive."
"I have mentioned this morning only some of the lessons which the Icelandic voyage offers, but I hope that my analysis has helped to clarify what has been a big mystery to many."
Þorsteinn Briem, 23.3.2017 kl. 09:39
11.12.2009:
"Ég hef verið í þeim hópi sem hafði miklar áhyggjur af þróun mála hér á landi allt frá árinu 2003 og varaði við innan og utan Landsbankans," segir Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur.
"Lækkun bindiskyldu Seðlabankans á því ári [2003] skapaði um 800 milljarða króna útlánagetu hjá innlendum lánastofnunum. Sú útlánageta fann sér framrás meðal annars í íbúðalánum.
Hækkun lána og lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs á árinu 2004 var olía á eldinn," segir Yngvi Örn í ítarlegu viðtali í helgarblaði DV.
"Tvennar stóriðju- og virkjanaframkvæmdir á árunum 2004 til 2008, sem juku innlenda fjárfestingu um 40 prósent á ári, hlutu að leiða til ofþenslu.
Tilslakanir í ríkisfjármálum, meðal annars lækkun skatta frá 2005 og miklar opinberar framkvæmdir, hlutu einnig að magna vandann."
Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur - Reyndi að vara þá við
Þorsteinn Briem, 23.3.2017 kl. 09:41
Takk fyrir þessa upprifjun, Steini.
Ómar Ragnarsson, 23.3.2017 kl. 13:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.