26.3.2017 | 19:43
Erfitt að loka nema reglur séu sannanlega brotnar.
Svo er að skilja af fréttum af arsen mengun frá kísilverksmiðju United Silocon það þurfi að bíða út þetta ár eftir því að hægt sé að nota niðurstöður mælinga til að loka verksmiðjunni.
Verksmiðjan hafi einfaldlega ekki starfað nógu lengi til þess að hægt sé að beita þeim reglum, sem gilda um leyfilega mengun.
Ef þetta er rétt liggur það fyrir að ekki verði hægt að uppfylla kröfur um lokun verksmiðjunnar fyrr en á síðari hluta þessa árs í fyrsta lagi.
Þegar farið er yfir aðdragandann að uppbyggingu stóriðju í Helguvík sést hve óhemju hart var sótt að því af ráðamönnum syðra og í landsstjórninni, allt frá 2005 að koma þarna á sem allra stærsti stóriðju, helst risaálveri sem þurfti allt virkjanlegt afl alla leið frá Reykjanestá austur í Skaftárhrepp og upp á miðhálendið með tilheyrandi fórnum .
Svo mikið var talið liggja við, að ekki dugðu færri en sex skóflustungur jafnmargra ráðamanna samtímis árið 2008 til þess að hefja byggingu kerskála álversins.
Orkusölusamningur var gerður 2007 og allt komið á fulla ferð þótt það ætti eftir að búa til og semja um net virkjana, risaháspennulína og vega í hátt í tuttugu sveitarfélögum alls.
Risavaxið "túrbínutrix" var á ferð. Þeir sem andmæltu þessum ósköpum, vor kallaðir kverúlantar, öfgafólk, sem væri á móti rafmagni og atvinnuuppbyggingu og vildu fara aftur inn í torfkofana.
Málið hefur verið í fullum gangi síðan og á fyrsta vinnudegi nýrrar ríkisstjórnar 2013 var einróma samþykkt að hafa risaálverið í forgangi.
Í tólf ár að minnsta kosti hefur legið fyrir að mengun myndi verða frá hinu mikla óskabarni, stóriðju í Helguvík, hver sem hún yrði, og það hefði átt að vera öllum ljóst allan tímann í hverju hún myndi verða fólgin og hverjar takmarkanir yrðu settar fyrir henni.
Ef eigendur verksmiðjunnar geta fullyrt að þeir séu réttu megin við sett mörk, geta þeir rifið kjaft eins og hingað til og bætt því við að viðsemjendur þeirra hafi vitað, að hverju þeir gengu, vitað hvað þeir vildu og fengið það sem þeir vildu.
Þeir geta líka bent á að þeir eigi rétt á skaðabótum ef verksmiðjunni verður lokað án þess að þeir hafi brotið reglur, sem um hana gilda.
Svo er að skilja, að eigendum svona verksmiðja sé falið að setja sjálfir upp mæla og sjá um að mælingar séu gerðar.
Það er skrýtið. Ekki er bílstjórum bíla falið að fá sér mæla og mæla útblástur bíla sinna.
Lýsingar og myndir í blaðinu Stundinni hafa verið ljótar, en ekkert virðist hafa verið hægt að sanna. Máttleysið áberandi í því að fást við það, sem er að gerast þarna.
Og á eftir halda áfram með smíði tveggja annarra verksmiðja og brennslu á 380 þúsund tonnum af kolum á ári!
Um lykt er afar erfitt að dæma, því að fólk er misjafnlega lyktnæmt. Þegar mágkona mín, sem á heima í Bolungarvik, kemur til Reykjavíkur, undrast hún hina miklu fýlu, sem er í höfuðborginni og þegar hún fann hana fyrst fyrir nokkrum árum, hélt hún að einhverjir úrgangshaugar væru hérna í Grafarvoginum.
Við Helga komum hins vegar af fjöllum, vorum fyrir löngu orðin samdauna fýlunni.
Og kannski verður það sama uppi á teningnum í Reykjanesbæ, að þegar allir verða orðnir samdauna lyktinni úr Helguvík verða allir ánægðir.
Vill láta loka United Silicon | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Engin ber ábyrgð,ekki nokkur fjandans kjaftur og megi það fólk sem nauðgaði þessari verksmiðju í gegn bera skömmina alla ævi. En eitt er víst að það mun enginn sæta ábyrgð enda það fólk sem að hlut átti að máli margt komið í önnur störf þar sem það makar krókinn sem aldrei fyrr á kostnað meðvitundarlausrar þjóðar .
Ragna Birgisdóttir, 26.3.2017 kl. 20:22
Vinstri eiturgrænir stóðu fyrir því að kísilverið við Húsavík yrði reist með dyggri aðstoð íslenska ríkisins, enda er flokkurinn útibú frá Framsóknarflokknum.
Þorsteinn Briem, 26.3.2017 kl. 20:41
Lög um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi nr. 52/2013
"Frv. Samþykkt: 32 já, 5 nei, 8 greiddu ekki atkv., 18 fjarstaddir."
Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi atvinnuvegaráðherra, var flutningsmaður frumvarpsins.
Þorsteinn Briem, 26.3.2017 kl. 20:42
Steingrímur J. Sigfússon veitti margra milljarða króna ívilnanir vegna kísilvers á Húsavík sem Ragnheiður Elín Árnadóttir, núverandi iðnaðarráðherra, segir nú að verði einnig að gilda fyrir álver í Helguvík.
Steini Briem, 4.9.2013
Þorsteinn Briem, 26.3.2017 kl. 20:44
28.3.2013:
"Alþingi samþykkti í gær frumvarp sem veitir atvinnuvegaráðherra heimild til að gera fjárfestingasamning um byggingu 33 þúsund tonna kísilvers á Bakka við Húsavík.
Ríkið veitir skattaívilnanir fyrir 1,5 milljarða króna.
Ef áætlanir standast gæti framleiðslan hafist 2016 og gert er ráð fyrir að hún verði aukin upp í 66 þúsund tonn síðar.
Félagið fær sérstakar skattaívilnanir vegna nýfjárfestinga umfram aðrar heimildir í lögum hvað varðar tekjuskatt, tryggingagjald, stimpilgjöld, fasteignagjöld og fleira fyrir um 1,5 milljarða króna á tíu ára tímabili.
Ríkið greiðir einnig nærri 800 milljónir króna vegna framkvæmda við lóðina og þjálfun nýs starfsfólks.
Alþingi samþykkti einnig frumvarp um þátttöku ríkisins í gerð vegtengingar milli Húsavíkurhafnar og Bakka fyrir 1,8 milljarða króna.
Og ríkissjóður veitir víkjandi lán vegna hafnarframkvæmda fyrir 819 milljónir króna."
Þorsteinn Briem, 26.3.2017 kl. 20:46
25.6.2013:
"Nýjustu rannsóknir jarðvísindamanna sýna að aðkallandi er að gera nýtt mat á jarðskjálftavá á Norðurlandi.
Jarðskorpumælingar sýna að spenna í Húsavíkurmisgenginu er til staðar fyrir skjálfta af stærðinni 6,8.
Endurskoða þarf staðsetningu kísilmálmverksmiðju við Húsavík og jafnvel færa sjúkrahúsið á staðnum, að mati Páls Einarssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands."
"Þriðjungurinn af hreyfingunni er á Húsavíkurmisgenginu, sem menn hafa mestar áhyggjur af, og það liggur beint í gegnum Húsavík.
Það misgengi er fast, ljóst er að þar hefur safnast upp spenna í stóran skjálfta og rannsóknir staðfesta að sú spennusöfnun er enn í gangi," segir Páll og bætir við að virkasta sprungugreinin, eða misgengið, sé kennt við Skjólbrekku.
"Það er í raun í framhaldi af Húsavíkurfjalli út í sjó og á þessu misgengi eru menn að hugsa um að reisa kísilmálmverksmiðju á Bakka.
Það þarf að endurmeta jarðskjálftahættuna í sambandi við það."
"Skemmdir verða ekki stóralvarlegar ef upptökin eru úti í sjó en þegar fjarlægðin er orðin minni en fáeinir kílómetrar eru kraftarnir orðnir afar miklir og ófyrirsjáanlegir," segir Páll."
Endurmeta þarf staðsetningu kísilvers við Húsavík
Aðalskipulag Norðurþings 2010-2030 - Húsavík (pdf)
Þorsteinn Briem, 26.3.2017 kl. 20:49
Sko Ómar! ég varaði við þessu fyrir nokkrum vikum síðan um að þetta kompaní hefði ekki opnað verksmiðju á vesturlöndum síðustu 25 árin og kunna ekkert um hreinsikerfi. Þeir hafa sínar verksmiðjur í Kína og geta þá menn sjálfir getið sér til um hæfni þeirra í þeim efnum. Suðurnesjamenn geta höfðað mál hver og einn og krafist 250 míjóna í skaðabætur fyrir eyðilagt umhvrfi plúss plúss.
Eyjólfur Jónsson, 26.3.2017 kl. 21:11
Ef kísilverið hefur ekki orðið sannanlega sekt um að brjóta neinar reglur, getur samfélag, sem vildi svona verksmiðju svo heitt og innilega og kaus sína fulltrúa til að koma því í framkvæmd, ekki fengið neinar skaðabætur.
Ómar Ragnarsson, 27.3.2017 kl. 01:59
Þetta virðist vera ein kraftmesta mengun sem mælst hefur. Hún er svo sterk að hún mældist nokkra mánuði áður en kísilverið var gangsett og náði toppi þegar vindur stóð frá mælitækjunum til kísilversins. Mengun sem ferðast móti vindi og aftur í tíma gæti orðið erfið viðureignar.
Hábeinn (IP-tala skráð) 27.3.2017 kl. 17:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.