Er 160 metra hæð "hálendi"?

Þegar fjallað er um umdeild og viðkvæm mál, er mikilvægt að vanda til birtingar á þeim gögnum, sem varða málið. 

Dæmi um það eru tvö vegarstæði þar sem tekist er á um mismunandi hagsmuni og sjónarmið, annars vegar um Mýrdal og hins vegar um Gufudalssveit. 

Vegagerðin færir þar þung rök fyrir því að velja í báðum tilfellum þær leiðir, sem valda mestum umhverfisáhrifum, og er ekkert við það að athuga ef þessi stofnun, sem á að þjóna hagsmunum allra landsmanna, birtir vönduð gögn í hvívetna og gefur upp mismunandi niðurstöður. 

En á því eru misbrestir í þessum tveimur tilfellum. 

Annar þeirra vegarkafla sem Vegagerðin vill leggja af er af hennar hálfu og þar af leiðandi allra fjölmiðlanna ævinlega er kallaður "Reynisfjall".

Hinn kaflinn liggur um Ódrjúgsháls, og sagt að hann liggi ekki um láglendi, og þar af leiðandi um hálendi og er ávallt er skilgreindur sem hálendisvegur á þann lúmska hátt að skilgreina hann sem "fjallveg." 

Samkvæmt mínum barnaskólalærdómi telst land, sem liggur neðan 200 metra hæðar frá sjó láglendi. 

Vegagerðin telur hins vegar "Reynisfjall", Ódrjúgsháls og Selvogsheiði vera "fjallvegi." 

Heitið "Reynisfjall" er hér sett inn í gæsalappir, því að leiðin sem Vegagerðin velur þetta nafn, liggur um Skeifnadal meðfram hluta Reynisfjalls en alls ekki um fjallið sjálft. 

Þessi "fjallvegur" með fjallsnafninu liggur upp í 116 metra hæð, en í Reykjavík eru hverfi sem ná upp í meiri hæð án þess að talað sé um að þessi hverfi sé hálendisbyggð.

En að kalla þennan vegarkafla "fjallveg" og meira að segja setja á hann fjallsnafn geta ekki kallast vönduð vinnubrögð og óhlutdrægni. 

Selvogsheiði er skráð sem 160 metra hár fjallvegur, þótt fæstir vegfarendur um þann veg verði varir við að vegurinn sé neitt í líkingu við það að fá þessa skilgreiningu, hafa ekki hugmynd um það að þeir séu að aka yfir heiði og því síður að vegurinn sé fjallvegur.

Í allri umfjöllun í fjölmiðlum um Ódrjúgsháls er byggt á því mati Vegagerðarinnar að hálsinn sé fjallvegur, þótt hann liggi aðeins 170 metra yfir sjávarmáli þar sem hann er hæstur, og alltaf eru birtar myndir í fjölmiðlum af hinum löngu úrelta vegarkafla með 16 gráðu brattri brekku og tveimur kröppum beygjum.

Þó hefur Vegagerðin sjálf gert athugun á nýju nútímalegu vegarstæði yfir hálsinn þar sem ekki finnst meira fyrir beygjum, brattan og hæðarmun en í Hvalfjarðgargöngum, þar sem hæðarmunurinn er 180 metrar.

Til samanburðar má nefna að leiðin um Svínadal fyrir norðan Búðardal liggur upp í 220 metra hæð og í fréttum heyrist aldrei neitt misjafnt um þennan "fjallveg" miðað við til dæmis Klettsháls sem er alvöru fjallvegur, nær 336 metra hæð og verður áfram helsti farartálmi á leiðinni við norðanverðan Breiðafjörð.

Og af því að hér er verið er að fjalla um hluta máls með tengingu í frétt mbl.is þar sem birt er mynd, sem á að sýna Teigsskóg og ætti að vera sem best heimild um hann, hefði verið skárra að birta enga mynd en þá fráleitu mynd, sem birt er. 

 

   


mbl.is Vill áfram fara um Teigsskóg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Byggðastofnun sagði í október 2000 að veikleikar sjávarbyggða á Vestfjörðum væru meðal annars versnandi kvótastaða, afli fluttur óunninn í burtu, erfiðar vegasamgöngur og lágt fasteignaverð.

Þorsteinn Briem, 29.3.2017 kl. 00:54

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Vestfjarðanna vegaplott,
veldur miklum kvíða,
hér er mikið háð og spott,
hálft er vitið víða.

Þorsteinn Briem, 29.3.2017 kl. 01:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband