29.3.2017 | 09:52
Efst á lístanum í átta ár.
Ekki hef ég tölu á því hve oft bæði útlendingar og landar hafa spurt mig að því, hvaða eldfjall sé líklegast til að gjósa næst.
Þessar spurningar dundu yfir mörgum sinnum á dag bæði 2010 og 2011 þegar Eyjafjallajökull og Grímsvötn gusu.
Og svarið var alltaf það sama: "Hekla."
"Af hverju?" var spurt.
"Af því að hún er eins og hlaupari sem hefur fljótasta viðbragðstímann, aðeins klukkustund. Hún getur hvenær sem er gosið eftir klukkustund frá því að minnst er á hana."
Ég man ennþá eftir Heklugosinu 1947 þótt ég væri aðeins sex ára gamall og lægi rúmfastur í alvarlegum veikindum í tvær vikur og færi ekki að fullu á fætur og á stjá úti við fyrr en eftir mánuð.
Ég hafði skyndilega orðið mjög veikur í heimsókn hjá ömmu minni Ólöfu og varð að liggja alveg fyrir. Til þess að stytta mér stundir færði amma mér útvarpstækið sitt inn að rúmi og þessa veikindadaga drakk ég í mig allt sem þáverandi dagskrá gat fært mér.
Amma reyndi hvað hún gat að svara ótal spurningum mínum, meðal annars um eldgos á borð við Kötlugosið 1918, sem hún upplifði sterkt á æskustöðvum sínum austur í Skaftafellssýslu.
Hún sýndi mér myndir Þjóðviljans, en öll blöðin voru uppfull af þeim.
Af því að Hekla hefur verið svona líkleg til að gjósa síðan 2010 var ekki amalegt að dvelja og gista á túninu í Neðri-Garðsauka sumrin 2010, 2011 og 2012 með bæði bíl og flugvél tilbúin tafarlaust og með sjónlínu til fjallsins.
Aukinn þrýstingur í Heklu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er með þetta eins og ferðina til austurs það veit enginn hver er næstur!
Þorsteinn Jónsson (IP-tala skráð) 29.3.2017 kl. 18:52
Hekla hafði nú haldið í sér í 102 ár þegar hún gaus 47. Eftir það er runa nokkurra smágosa. Hún er óútreiknanleg.
Grímsvötn hafa verið nokkuð regluleg. Jafnvel gosið oftar en menn telja sig vita. Líkurnar og tíðnin segja mér að þau séu næst. Stórgos eða hamfaragos eru til allrar hamingju með löngu millibili. Veit ekki hvort það er endilega mælikvarði á kraft gosa hversu langt líður á milli. Við getum bara spáð og spekúlerað án þess að vita nokkurn hlut.
Jón Steinar Ragnarsson, 29.3.2017 kl. 19:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.