Afdrifarík afsökunarbeiðni Gorbatjofs.

Eystrasaltslöndin þrjú, sem hlutu sjálfstæði eftir að Fyrri heimsstyrjöldinni lauk, urðu að gjalda það dýru verði þegar Stalín og Hitler gerðu griðasamning 23. ágúst 1939.

Með samningnum fylgdi leynilegt samkomulag um skiptingu Austur-Evrópu milli Þýskalands og Sovétríkjanna, þar sem Eystrasaltslöndin og Finnland yrðu á áhrifasvæði Sovétríkjanna.

Stalín notaði tækifærið til að gera Eystrasaltslöndunum úrslita kosti og hernema þau í kjölfarið, þegar Þjóðverjar voru uppteknir við það að taka Noreg, Niðurlöndin og Frakkland í júní 1940. 

Veturinn áður höfðu Finnar hafnað hörðum úrslitakostum Rússa og orðið að heyja grimmilegt stríð sem endaði með ósigri og dýrkeyptum friðarsamningum. 

Í persónulegu leynilegu samkomulagi Stalíns og Churchills í stríðslok 1945 lentu Eystrasaltslöndin á áhrifasvæði Sovétríkjanna og voru áfram innlimuð í þau.

Eftir að Sovétríkin höfðu borið hitann og þungann af Evrópustríðinu með gríðarlegum mannfórnum, var einfaldlega ekki hægt að minnka Sovétríkin, hvað þá að neita þeim um áhrifasvæði sem þau litu á sem lykil að öryggi sínu eftir allt, sem á undan var gengið. 

Finnar urðu að sæta erfiðum kostum til þess að komast hjá því að lenda undir beinu sovésku valdi og geta haldið takmörkuðu sjálfstæði sem hlutlaus þjóð við ástand, sem fékk nafnið "Finnlandisering" það er, að þurfa að fá samþykki í Moskvu fyrir því hve langt þeir mætti ganga í því að vera í samstarfi Norðurlandaþjóðanna. 

Hlutleysi Svíþjóðar réði úrslitum um þessi málalok. 

Sovétmenn tryggðu sér lykilaðstöðu við Eystrasalts með því að Austur-Prússland var að mestu hreinsað af Þjóðverjum og Rússar fluttu þar inn sitt fólk í staðinn, og þetta fyrrum hjarta hins prússneska og þýska veldis var gert að rússnesku landi með aðgangi að Eystrasalti á hernaðarlega mikilvægum stað.

Þegar umrót var í hinum fyrrum leppríkjum Sovétríkjanna í kjölfarið af falli Berlínarmúrsins 1989 viðurkenndi Michael Gorbatsjof opinberlega að hernám Eystrasaltsríkjanna 1940 í skjóli griðasamnings Stalíns og Hitlers hefði falið í sér ofbeldi sem biðjast þyrfti afsökunar á.

Gorbatsjof fékk skömm í hattinn hjá harðlínumönnum heima fyrir fyrir að gefa höggstað á sér, en hann hafði greinilega talið að þessi afsökunarbeiðni myndi duga til þess að verða grundvöllur að því að ríkin þrjú gætu unað við það að vera áfram innan sovéskra vébanda en fá kannski meiri stjórn sinna mála en verið hafði.

Gorbatsjof vanmat gróflega sjálfstæðisvitund Eystrasaltsríkjanna, sem stórefldist við þetta, en ákvað að láta á það reyna að senda herinn á vettvang til að hræða þau til hlýðni.

Þegar á hólminn kom, óaði honum hins vegar við því óhjákvæmilega blóðbaði sem frekari valdbeiting myndi valda.

Erfitt er að segja, hve miklu máli það skipti á ögurstundu, að utanríkisráðherra Íslands var staddur á staðnum, en það var að minnsta kosti óþægileg tilhugsun að þurfa að handtaka hann eða drepa ásamt sjálfstæðishetjunum.

Hvað, sem um það má segja, kom fyrrnefnd afsökunarbeiðni Gorbatsjofs honum í koll eins og harðlínumenn höfðu óttast, og missir Eystrasaltslandanna úr Sovétríkjunum hefur vafalaust hert andstæðinga Gorbatsjofs í þeirri ætlan að steypa honum af stóli.     


mbl.is Fann fæðingarskírteini Litháens
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Kommar hræddust hrjúfan Jón,
hrossa miklir brestir,
bíða myndu talsvert tjón,
töldu þeir þar flestir.

Þorsteinn Briem, 30.3.2017 kl. 06:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband