19.4.2017 | 00:48
Einn af tíu merkilegustu viðburðum í 82 ára sögu Þristsins er íslenskur.
Á þessu ári eru liðin 82 ár síðan Douglas DC-3, "þrísturinn" flaug fyrst. Þessi flugvél hefur svipaðan sess og Ford T, hvað varðar það að gera flugið að almenningseign á svipaðan hátt og "Tin Lizzy" gerði bílinn að almenningseign.
Um þristinn gildir svipað og um vinsælustu einkaflugvél allra tíma, Cessna Skyhawk, að ef safnað er saman helstu atriðum hvað varðar getu þessara flugvéla, þá skara þær ekki fram úr í neinu einu atriði, fljúga ekki hraðast, klifra ekki hraðast, bera ekki mest, eru ekki sparneytnastar, ekki langfleygastar o. f. frv., en þegar á heildina er litið eru vinsældirnar engin tilviljun.
Eisenhower nefndi þristinn, jeppann, kjarnorkusprengjuna og T-34 skriðdreka Rússa meðal lykilvopnanna að sigri Bandamanna í Seinni heimsstyrjöldinni.
Þristurinn og jeppinnn ollu byltingu í samgöngum á landi og í lofti hér á landi eftir stríðið.
Þegar Þristurinn var að víkja fyrir nýrri og fullkomnari vélum um 1960, tók tímaritið Readers Digest til tíu merkilegustu viðburðina í sögu Þristsins.
Nefna má það þegar 72 flóttamenn í Kyrrahafsstríðinu tróður sér inn í Þrist og hann flaug með þá alla.
Annar Þristur stöðvaðist vegna skorts á olíu, og í neyð sinni tók flugmennirnir kókoshnetur og settu kókosolíuna á hann og flugu honum.
Annar vængurinn á einum Þristi skemmdist svo mikið, að vélin varð óflughæf.
En það fannst vængur af Douglas DC-2 og var settur á, og vélin flaug svona á sig komin, og hlaut heitið Douglas DC-2 og hálfur.
Af þessum tíu atriðum var eitt alíslenskt. Þristur á skíðum frá Keflavíkurflugvelli lenti við flakið af Geysi á Vatnajökli í september 1950, en flugmennirnir gerðu sennilega þau mistök að stöðva vélina strax í stað þess að keyra hana í marga hringi og troða nógu langa og þétta braut.
Í meira en sex þúsund feta hæð var afl hreyflanna mun minna í þunna loftinu en við sjávarmál, svo að skakkaði allt að fimmtungi, auk þess sem hún þurfti meiri flugtakshraða sem þessu nam.
Vélin komst ekki á loft og var skilin eftir.
Árið eftir fóru Loftleiðamenn í frækinn leiðangur á jökulinn, fundu vélina, grófu hana upp úr tíu metra djúpu nýsnævi, drógu hana ofan af jöklinum og fundu sandflæmi þar sem hægt var að hefja hana til flugs.
Þeir fengu hana nánast gefins, - einhvern tíma heyrði ég að þeir hefðu borgað einn dollar fyrir hana, - og með því að selja hana björguðu þeir félaginu úr fjárhagslegum hremmingum.
Þristur sækir landið heim | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er ill skiljanlegt af hverju skíðavélinni var ekki strax ekið af Bárðarbungu og niður af Kistufelli. Þetta hefði verið mun auðveldara ferðalag en að ganga niður af jöklinum á skíðum eins og báðar áhfnirnar og björgunarmenn gerðu.
Ég veit ekki hvernig veður og skyggni voru þá stundina en aukinn loftþrýstingur, brekka og minna eldsneyti hefði jafnvel orðið til þess að koma hefði mátt vélinni í loftið neðar á jöklinum með einungis áhöfninni um borð.
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 19.4.2017 kl. 01:28
Vélin á jöklinum var með litlar rakettur á vængjunum, sem stundum voru notaðar í flugtaki í stríðinu en það dugði ekki þarna. Annars flaug fyrsti þristurinn á afmælisdegi mínum og flugsins, nefnilega hinn 17. desember 1935.
Vilhjálmur Eyþórsson, 19.4.2017 kl. 07:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.