Skammsýni að stórum hluta samanber "bakpokalýðinn" hér um árið.

Það gerur verið tvíbent að sækjast eingöngu eftir ríkum viðskiptavinum, þótt það megi reikna út ágóða af því að hver þeirra eyði meira fé en hinir fátækari. 

Aldrei er góð vísa of oft kveðin, því að tvö dæmi, sem áður hafa verið nefnd hér á síðunni, sýna hið gagnstæða.

Hið fyrra dæmið er hliðstætt því sem nú á að stefna á, að gera Íslandsferðir svo dýrar, að fæli fátækari ferðamenn frá og einnig ferðamenn, sem vilja fara víðar en um Gullna hringinn.

Þegar ungt fólk fór að ferðast víðar um heiminn á síðari hluta síðustu aldar, var oft talað í niðrunarskyni um "bakpokalýð," sem væri óæskilegur, af því að það græddist svo lítið á honum.

Ég tók einn slíkan upp á leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar á miðjum áttunda áratugnum og fékk skömm í hattinn fyrir það hjá sumum, sem ég álpaðist til að segja frá þessu.

Þetta var fátækur þýskur jarðfræðistúdent, sem síðar varð virtur prófessor og vísindamaður og hefur lengi komið árlega til landsins með tugi nemenda sinna!

Það hefur margsinnis verið bent á nauðsyn þess að dreifa ferðafólki betur um landið, en nýja fælingaraðferðin hefur þveröfug áhrif. 

Hitt dæmið er bandaríski bílaiðnaðurinn um 1970, en stjórnendur á þeim bæ töldu óráðlegt að framleiða litla bíla, af því að það var svo lítill gróði af hverjum þeirra.

Þess vegna fóru bílarnir bandarísku stækkandi jafnt og þétt fyrstu áratugina eftir stríð og mesta áherslan var lögð á stærstu drekana.

Japanskir bílaframleiðendur gerðu hins vegar áætlun: Að framleiða ódýra, en gangvissa, sparneytna og viðhaldslitla bíla, sem hippar og annar "bakpokalýður" Bandaríkjanna hefði efni á að eignast.

Japönsku framleiðendurnir vissu, að stærstur hluti þessa markhóps myndi einfaldlega eldast og komast í vel launuð störf.

Þeir gættu þess því að stækka bílana, sem voru í boði, í samræmi við það og treystu á að góð reynsla "krakkalýðsins" af litlu bílunum yrði hvatning til þess að þetta fólk keypti smám saman stærri og dýrari bíla.

Þetta var megingaldurinn á bak við "innrás" japanskra, þýskra og síðar kóreskra bíla inn á bandaríska bílamarkaðinn, sem bandaríski bílaiðnaðurinn hefur átt svo erfitt með að finna svar við, að Donald Trump sér engin önnur viðbrögð en að snúa klukkunni til baka með höftum til þess að gera "America great again."  


mbl.is Færri ferðamenn með hærri skatti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Engeyjar-Benni mun aldrei skilja rök þín, Ómar. Silfurskeiðungar þessa lands eru þessa dagana að opinbera sig sem hina verstu Erdogana. Að minnka aðeins ásóknina í landið, er göfugt. Ísland er einfaldlega uppselt. Að loka því, dettur einungis fávitum í hug, gæti einhver sagt. Á móti má spyrja.: Hvers vegna í ósköpunum ættu aðrar atvinnugreinar og skattborgarar landsins að vera píndir til dauða, meðan ein grein siglir hjá, með helminginn svart, af uppganginum?

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 27.4.2017 kl. 03:07

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sjálfstæðisflokkurinn gapir mjög fyrir allar alþingiskosningar að flokkurinn ætli að lækka skatta en gerir svo þveröfugt.

H
ækkar skatt á mat sem allir þurfa að kaupa og hækkar svo skatt á ferðaþjónustuna, sem hefur vegið upp á móti aflakvótamissi fjölmargra bæja og þorpa á landsbyggðinni og ekki veitti nú af.

Ferðaþjónusta er í öllum bæjum, þorpum og sveitum landsins og hefur aukist mikið undanfarin ár með mikilli uppbyggingu, til að mynda á Siglufirði.

Hærri virðisaukaskattur á gistingu hér á Íslandi þýðir ekki endilega að verð á gistingunni hækki yfirleitt mikið og þar af leiðandi komi færri erlendir ferðamenn til landsins.

Mörg hótel og gistiheimili lækka væntanlega verð á gistingunni sem nemur hækkun á virðisaukaskattinum, þannig að minna fé fer til landsbyggðarinnar en ríkið fær meira í sinn hlut.

Þar að auki gistir fjöldinn allur af fólki af landsbyggðinni á hótelum og gistiheimilum á höfuðborgarsvæðinu og fjölmargir sem þar búa gista á hótelum á landsbyggðinni á sumrin og til að mynda í skíðaferðum á veturna.

Hækkun á virðisaukaskatti á gistingu hérlendis er því fyrst og fremst landsbyggðarskattur.

En íslenskir hægrimenn halda að sjálfsögðu að Íslendingar ferðist ekkert um eigið land.

Og hækkun á matarskatti sé skattalækkun.

Þorsteinn Briem, 27.4.2017 kl. 04:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband