28.4.2017 | 14:44
Taka verður umferðarþungann með í reikninginn.
Tökum dæmi af tveimur vegarköflum, sem báðir eru 10 kílómetra langir.
Á öðrum þeirra. leið A, verða samtals tíu alvarleg slys með líkamstjóni eða bana á ári, en á hinum, leið B, tvö slík slys.
Þá myndi vera sagt frá því í fréttum að vegarkafli A, með tíu slysum á ári, væri hættulegri, og jafnvel sagt að hann væri fimm sinnum hættulegri en kafli B.
En þannig er ekki lagt á þetta mat samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.
Þar er umferðarþunginn, fjöldi ekinna kílómetra samtals á viðkomandi vegarkafla, líka tekinn með í reikninginn og þá getur útkoman orðið önnur.
Höldum áfram með dæmið að ofan.
Tæplega 3000 bílar aka að meðaltali á dag um leið A, samtals ein milljón á ári með alls 10 milljón ekna kílómetra á ári, og alvarleg slys með meiðslum, örorku eða bana eru samtals 10 á ári.
Útkoman verður eitt slys á hverja milljón ekna kílómetra.
Á leið B aka aðeins tæplega 300 bílar á dag, eða 100 þúsund á ári, og eknir eru samtals ein milljón kílómetra.
Ef slysin eru tvö, verður útkoman 2 slys á hverja milljón ekna kílómetra.
Samkvæmt þessum útreikningi er kafli B með tvöfalt hærri slysatíðni en kafli A.
Ef einhverjum skyldi detta í hug að réttast sé að taka öll umferðaróhöpp með í reikninginn, sem rata inn á skýrslur tryggingarfélaganna, gæti komið út sérkennileg útkoma, svo sem að bílastæðið hjá Fjarðarkaupum í Hafnarfirði séu með hæstu óhappatíðnina í gatnakerfinu á höfuðborgarsvæðinu, vegna þess að þar séu smávægilegir árekstrar svo algengir.
Þjóðir með meira en þúsund sinnum fleiri íbúa en Ísland, taka ekna kílómetra með í reikninginn.
Ef það er ekki gert, gæti einhverjum dottið í hug að finna það út, að það sé meira en þúsund sinnum hættulegra að aka bíl á meginlandi Evrópu en á Íslandi af því að umferðarslysin á meginlandinu sé meira en þúsund sinnum fleiri.
Verstu gatnamótin öll á höfuðborgarsvæðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þjóðvegir í Reykjavík eru til að mynda Hringbraut, Miklabraut og Kringlumýrarbraut.
Gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar eru því hluti af þjóðvegakerfinu.
Þjóðvegir á höfuðborgarsvæðinu, október 2009 - Kort á bls. 4
"8. gr. Þjóðvegir.
Þjóðvegir eru þeir vegir sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar, haldið er við af fé ríkisins og upp eru taldir í vegaskrá. ..."
Vegalög. nr. 80/2007
Þorsteinn Briem, 28.4.2017 kl. 14:52
Algjörlega rétt hjá þér Ómar. Ég er búinn að benda á þetta sama í mörg ár.
Í skýrslum Samgöngustofu er ævinlega horft framhjá umferðarmagninu. Menn reikna tíðni út frá lengd vegarkaflans, sem ég sé hvergi annarstaðar gert og þaðan af síður tilganginn með þeim samanburð. Ég sé ekki hvað lengd vegkaflans hefur með þetta að gera, ef umferðarmagnið er ekki með í dæminu.
Vegagerðin gerir þetta mun betur í sinni framsetningu, þar sem umferðarmagnið er tekið inn ásamt lengd vegkaflans og slysatíðni reiknuð út miðað við fjölda óhappa á milljón ekna kílómetra. Gallin hjá þeim er þó sá, að taka öll óhöpp, með og án meiðsla.
í Evrópu og hjá EuroRAP gæðakerfinu er alltaf miðað við "KSI pr. million vehicle km.", sem er látnir og alvarlega slasaðir á hverja milljón ekinna kílómetra. Það er það sem skiptir mestu máli, þó svo að fjöldi óhappa sé skoðaður líka. Eins og þú bendir á, þá verða stór bílaplön þannig miklu hættulegri en götur með nokkrum alvarlegum slysum með líkamstjónum.
Ég hef tekið þetta saman og fjallað um þetta í fjölmiðlum. Slysamesti vegur landsins er Miklabraut/Hringbraut í Reykjavík, með 29 alvarlegum slysum á 6 ára tímabili. Hún er þó áhættu lítil á hvern ekin km., þar sem umferðarmagnið er svo mikið. Í 7 sæti á þessum lista mínum er vegur sem jafnframt er með mikla áhættu miðað við umferðarmagn. Það er Grindavíkurvegur, þannig að hann er vegur sem klárlega ætti að taka til skoðunar, sem reyndar er nú verið að gera hjá Vegagerðinni.
Kveðja.
Ólafur Guðmundsson.
Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 28.4.2017 kl. 15:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.