Afar óvenjulegar aðstæður, sem RUV gat ekki gert við.

Afar óvenjulegar veðuraðstæður voru nú síðdegis við sunnanverðan Faxaflóa. Dimm slyddu- og snjóél gengu yfir skyndilega þannig að snögghált gat orðið á afmörkuðum svæðum í mjög afmarkaðan tíma þegar hitinn féll úr 7 stigum niður í 1. 

Óhappið á Keflavíkurflugvelli er sérkennilegt því að venja er að flugmenn og flugumferðarstjórar fylgist með breytingum og flugvallarstarfsmenn séu beðnir um að hálkumæla brautir ef talið er að hálka sé að myndast.

Flugbrautirnar eru lokaðar á meðan mælingabíll þeysir eftir þeim, og síðan gefur flugumferðarstjóri flugstjórum upp niðurstöðu mælingar. 

Sjá hefur mátt á blogginu að RUV hefur verið gagnrýnt harðlega fyrir að rjúfa ekki útsendingar og veita fólki upplýsingar um hálkuna. 

Nú er það svo að Veðurstofa Ísland er með sérstakan vef með veðurupplýsingum og veðurspá og Vegagerðin er með sérstakan vef sem gefur upp ástand vega og í Reykjavík er það á vegum gatnamálastjóra að senda út flokka til að salta göturnar. 

Starfsmenn hjá lögreglu, Vegagerð og gatnamálastjóra hafa samband við RUV ef þarf að gefa upplýsingar um færð. 

Ég var sjálfur á ferð á léttu vespuvélhjóli þegar fyrsta élið dundi yfir á þeirri leið sem ég var á í efri byggðum Reykjavíkur og að sjálfsögðu hagaði ég mér í samræmi við aðstæður, enda er málið einfalt á vélhjóli, - það er algerlega bannað að detta, - má bara ekki gerast. 

Enginn vefur Vegagerðar eða útvarp hefðu getað varað mig við þessari mjög svo svæðisbundnu hálku í efri byggðum þar sem ég var á ferð. 

Til þess að gera það hefðu starfmenn þessara stofnana orðið að vera á ferli hópum saman um allt höfuðborgarsvæðið til að finna út hvar hefði skyndilega komið hálka, sem var horfin á innan við klukkustund. 

Raunar voru nógar upplýsingar til staðar til að vera á varðbergi, því að veðurstofan hafði spáð kólnandi veðri með slydduéljum eða snjóéljum samfara því sem skil gengju yfir.

Þetta var búið að marg sýna í sjónvarpi og tala um í útvarpi.  

Það er líka auðveldasta mál í heimi að hringja í símann 9060200 til að fá upplýsingar um veðurspá eða fara á vefi veðurstofu og vegagerðar til að fá upplýsingar um ástand veðurs, sem gæti haft áhrif á færð, sem og upplýsingar um færðina á einstökum vegum. 

En síðan koma sumir, sem ekki nenna þessu og ætlast til þess að aðrir hafi vit fyrir þeim stanslaust og kenna öllum öðrum um en sjálfum sér ef eitthvað ber út af, jafnvel þótt engan veginn hafi verið hægt að sjá allt fyrir, eins og til dæmis hvernig fyrstu élin duttu niður hér og þar. 


mbl.is „Skyggnið akkúrat ekki neitt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband