29.4.2017 | 17:36
Loksins, loksins!
Baráttan fyrir því að þyrlurekstur Landhelgisgæslunnar standi undir nafni hefur tekið á fjórða áratug.
Íslenskur þyrluflugmaður, Guðbrandur Guðbrandsson að nafni, ef ég man rétt, gekkst fyrir því að fá franska þyrlu af gerðinni Aerospatiale Super Puma hingað til lands.
Fyrir tilviljun strandaði bátur norðan við Skálavík norðvestur af Bolungarvík og þyrlan bjargaði skipverjum.
En framtak Guðbrands varð til einskis. Menn höfðu ofurtrú á þyrlusmíði Bandaríkjamanna og samsvarandi vantrú á getu Frakka.
Næsti baráttumaður fyrir kaupum á svona þyrlu var Ingi Björn Albertsson alþingismaður og mátti þola mikinn andbyr allt upp í æðstlu stjórnendur landsins.
Loks kom þó lítil frönsk þyrla af Dauphine gerð sem reyndist afar vel og um síðir kom þyrla af Puma gerð.
Í Hruninu fór Gæslan illa út úr niðurskurði og hefur síðan notað leiguþyrlur sem hafa í för með sér miklu hærri rekstrarkostnað en ef hún ætti þyrlurnar sjálf.
Og þar að auki hafa þyrlurnar verið of fáar.
Nú eiga þrjár að koma, sem að vísu er of lítið, því að fimm þyrlur eru lágmark, eins og var á Keflavíkurflugvelli þegar Kaninn var þar með sína sveit.
En samt er ástæða til að segja: Loksins! Loksins!
Nýjar þyrlur í gagnið 2021-2023 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar,
Það var Guðbrandur Jónsson, þyrluflugmaður sem gekkst fyrir því að fá Pumur til Íslands og fljúga þeim í ísingu. Það er að segja ég.
Toppurinn á heimsókninni var boð frú Vigdísar forseta á Bessastaði rétt áður en þeir fóru aftur heim. Frú Vigdís dáleitti þá alla með einstakri framkomu sinni. Frakkarnir náðu vart andanum af hryfningu yfir kvennforseta Íslands. Ég gleymi þessari heimsókn seint.
Guðbrandur Jónsson (IP-tala skráð) 30.4.2017 kl. 16:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.