5.5.2017 | 23:41
Var þetta "allt miklu betra hérna í gamla daga"?
Því stærra, flóknara og umfangsmena tölvukerfi er í ákveðinni starfsemi eða tækjabúnaði, því illvígari bilun virðist geta orðið í því með ótrúlega víðtækum afleiðingum.
Það sýnir viðgerð á tölvubúnaði sem varð til þess að loka þurfti algerlega öllum 13 verslunum Hagkaupa í dag.
Þvílíkt og annað eins hefði verið óhugsandi hér í gamla daga.
Þegar ég rekst á eitthvað svona, en það gerist svo miklu oftar en viðunandi er, bregð ég oft fyrir mig rödd gamla mannsins hjá Ladda og segi í hálfkæringi: "Þetta var allt saman miklu betra hérna í gamla daga."
Og stundum er ekki laust við að það sé sannleiksvottur í því.
Henry Ford hafði illan bifur á vökvakerfum og hélt fast við teinahemla í mörg ár eftir að keppinautarnir voru búnir að taka upp vökvahemla í staðinn.
Hann hélt líka fast við stífan framöxul og þverfjöður að framan í 14 ár eftir að keppinautarnir höfðu lagt slíkt af. Þetta og fleiri afturhaldssamar ákvarðanir hans gengu næstum að fyrirtækinu dauðu á árunum eftir stríð.
Ég á það sameiginlegt með Ford, að ég hef frekar illan bifur á alls kyns rafdrifnu og "vakúm"drifnu og vökvadrifnu dóti í bílum, að ekki sé talað um sumt af þeim sjálfvirka búnaði, sem svo mjög er dýrkaður.
Konan mín á fjögurra ára gamlan bíl, sem hefur reynst einstaklega vel í alla staði þótt hann hafi verið sá ódýrasti á markaðnum þegar hann var keyptur.
En rafbúnaðurinn á framrúðunni bílstjóramegin hefur aldrei verið í lagi, hefur tekið upp á því að bila og fara ekki upp, án þess að nokkur leið sé að finna út, af hverju.
Svona draugagangur getur jafnvel verið enn verri en þetta.
Á annarri afturrúðu jeppa, sem ég á, tók hún allt í einu upp á því að láta ekki að stjórn og fór meira að segja af stað niður upp á eigin spýtur án þess að snert væri við neinu.
Þegar þetta gerðist í seinna skiptið gafst ég upp, setti fast spjald í gatið og hef algerlega forðast á því að koma við rúðuna og rúðurofann síðan.
Í fyrradag "varð bilun í textavél" að því er sagt var eftir 20 mínútna stöðvun á útsendingu RUV.
Bilun í textavél hér í gamla daga hefði einfaldlega þýtt, að ekki væri hægt að bregða þýðingartexta á skjáinn og þess vegna verið hægt að halda útsendingu áfram.
En í þetta skipti var þetta öðru nær, því að öll kerfi úsendingarinnar stöðvuðust í heilar 20 mínútur og var ekki einu sinni hægt að láta hið gamalkunna skilti: "afsakið - bilun" birtast á skjánum!
"Þetta var allt saman miklu betra hérna í gamla daga."?
Svei mér þá ef það lítur ekki oft þannig út.
Öllum verslunum Hagkaups lokað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.