7.5.2017 | 13:17
"Hnjúkurinn gnæfir." Réttar forsendur notaðar.
Fjallahjól eins og það, sem Símon Halldórsson notaði til þess að hjóla upp á Hvannadalshnjúk, er það létt, að hjólreiðamaðurinn því notað eingöngu eigið líkamsafl til að komast leiðar sinnar á því.
Hluti af því getur verið að hann beri hjólið yfir ár, brekkur, eða torfærur, og svo framarlega sem ekkert annað afl er notað er það nothæf forsenda fyrir því að segja að hann hafi "hjólað" þær leiðir sem hann fer. Menn geta svo sem deilt um þetta, en ég tel að vel sé hægt að fallast á þessa forsendu, ef henni er hlítt í hvívetna.
Má því óska Símoni til hamingju með afrekið.
Hin bratta brekka upp hnjúkinn sjálfan er aðal torfæran og algerlega útilokað að drífa upp hana á hjóli. En ef enginn greinarmunur er gerður á afli fóta, handa og skrokks hjólreiðamannsins, er hægt að fallast á forsenduna um að "hjóla."
Í eina skiptið sem jöklajeppa hefur verið ekið upp á hnjúkinn fyrir eigin vélarafli eingöngu í leiðangri á vegum Benedikts Eyjólfssonar vorið 1991.
Þá var þessi brekka farin á þann hátt að nota spil framan á bílnum, sem knúið var með rafafli leiddu úr vél bílsins til þess að láta bílinn draga sjálfan sig upp þessa hindrun.
Það var hægt með því að hafa meðferðis í bílnum stengur, sem reknar voru niður fyrir framan hann og vírinn úr spilinu síðan látinn leika um þessa endapunkta.
Þessi hæsti tindur Íslands er sérstök áskorun vegna hæðar sinnar yfir sjó.
Reynt var að túlka það í texta lagsins "Hnjúkurinn gnæfir", sem varð til sem titillag þáttar um ferðina. Hjá mér skiptist ferðin í tvennt, fyrst að Hermannaskarði eftir jöklinum og beðið af sér óveður, og síðan fór ég frá leiðangrinum á vélsleða austur á Hornafjörð, flaug þaðan á flugvél bróður míns til Reykjavíkur og aftur til baka til að fara með vélsleða til leiðangursmanna á ný og halda áfram upp á hnjúkinn. Eftir það tók við annað óveður á niðurleið.
Textinn skiptist því í tvennt: Fyrri hlutinn fjallar um aðdragandann en seinni hlutinn um eftiköstin.
HNJÚKURINN GNÆFIR.
Hnjúkurinn gnæfir, til himsins sig teygir -
hamraþil þverbrýnt, ísað stál.
Ógnfagur rís hann, ögrandi þegir.
Inn í þig smýgur hans seiðandi mál.
Bjartur sem engill andartak er hann -
alheiður berar sig blámanum í.
Á sömu stundu í fötin sín fer hann;
frostkalda þoku og óveðursský.
Hvers vegna að klifra´hann?
Hvers vegna að sigra´hann?
Hvers vegna öll þessi armæða´og strit?
Hví ertu, góði, að gera þig digran?
Gættu þín, vinur, skortir þig vit?
Hvers vegna finnst þér hans ögrun til ama?
Af hverju´að hætta sér klærnar hans í?
Svarið er einfalt og alltaf það sama:
Af því hann er þarna, bara af því.
..............
Hnjúkurinn gnæfir, til himins sig teygir.
Hríslast um makka hans óveðursský.
Af hamrastáli öskrandi´hann fleygir
ísköldum hjarnþiljum fárviðri í.
Sýnist hann reiður, áfram vill ögra.
Á þá hann skorar sem líta hans mynd.
Þolraunin bíður þeirra sem skjögra
þreyttir á Ísalands hæsta tind.
Hvers vegna að klifra´hann?
Hvers vegna að sigra´hann?
Hvers vegna öll þessi armæða og strit?
Hví varstu, góði, að gera þig digran?
Gastu´ekki stillt þig? Skorti þig vit?
Hvers vegna fannst þér hans ögrun til ama?
Af hverju´að hætta sér klær hans í?
Svarið er einfalt og alltaf það sama:
Af því hann er þarna, bara af því.
Af því hann er þarna, bara af því.
Hjólaði upp á Hvannadalshnjúk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.