11.5.2017 | 00:36
Miklar framfarir í gerð svona hjóla. Deilt um skilgreiningar.
Miklar framfarir eru í gangi í gerð fjalla- og torfæruhjóla. Þau léttustu eru innan við 10 kíló og stóru torfærudekkin svo belgmikil, að þau hafa mikið flot, einkum ef hjólreiðamennirnir eru léttir. Einnig hafa góð vetrardekk gert það kleyft, til dæmis fyrir mig, að vera á ferð nær daglega á öðru hverju hjóli mínu, Rafreiðhjólinu Náttfara og létta vespuvélhjólinu Létti (Honda PCX) í öllum veðrum í vetur, svo að ekki hefur fallið vika úr, og á stærra hjólinu meira að segja farnar ferðir austur fyrir fjall í nóvember, desember og mars.
Hér á síðunni hafa verið athyglisverðar rökræður um það hvaða forsendur eða skilyrði eigi að setja fyrir því að um hreinar hjólreiðar sé að ræða.
Var það vegna ferðar Símonar Halldórssonar upp á Hvannadalshnjúk.
Síðasta brekkan, upp hnjúkinn sjálfan, er svo brött, að Símon varð að bera hjólið upp hana.
Fyrir þetta vildu gagnrýnendur afreksins láta ógilda það. Símon hefði átt að hjóla alla leiðina, án nokkurra undantekninga.
Einhver sagði að þetta hefði verið hliðstætt því að hann fengið þyrlu til að flytja hjólið þennan spöl.
En á þessu tvennu er mikill grundvallarmunur, sem sé sá, að forsendan og skilyrðið fyrir því að þetta teljist hjólaferð, felist í því hvaða orka er notuð.
Hjólið sjálft er nefnilega orkulaust og knúið af líkamsorku hjólreiðamanna.
Ef hjólið er borið, er það samt sem áður fært úr stað með líkamsorkunni einni saman.
Sú orkuuppspretta ætti að vera eina skilyrðið og er augsjáanlega alls ekki hliðstætt við það að orka þyrluhreyfils flytti hjólið.
Annar gagnrýnandi sagði, að hjólaferðin upp á hnjúkinn væri hliðstæð því að einhver drægi sleða upp á hnjúkinn og segðist hafa rennt sér á sleða þangað upp eftir.
Nú er það svo að leiðin upp á hnjúkinn er öll upp í móti, svo að augljóst er að sleðinn hefði aldrei getað runnið svo mikið sem nokkra metra nema að vera dreginn upp í mót.
Ef til vill mætti setja skilyrði þess efnis að ekki megi bera hjól nema ákveðna prósentu af leiðinni sem farin er til þess að ferðin teljist hjólaferð.
En þess þarf nú varla, því að yfirleitt komast menn miklu hraðar með því að hjóla þær leiðir sem þeir fara heldur en ef þeir færu að taka upp á því að bera hjólin.
Svipað á við um skíðagöngu. Við höfum séð í sjónvarpi hvernig keppendur í skíðagöngu hafa misst af sér skíði, en hlaupið áfram og haldið á lausa skíðinu. Auðvitað komast þeir ekki nærri eins hratt áfram svona höktandi á hlaupum eins og ef þeir stæðu á skíðunum, og því er tími þeirra tekinn gildur.
Ég vil því óska þeim félögunum til hamingju sem réðust til atlögu við Vatnajökul á reiðhjólum.
Ég er hrifinn af töfrum þeirrar naumhyggju sem minnstu, ódýrustu og umhverfismildustu farartækin búa yfir. Það hefði verið gaman að verða þeim samferða á litlu rauðu jökla-Súkkunni minni, minnsta og léttasta jöklajeppa landsins.
Fótstigin jeppamennska yfir jökul | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.