12.5.2017 | 18:02
Var það ekki álverið, sem átti að "bjarga" Austurlandi?
Um síðustu aldamót var um tvo kosti að ræða varðandi framtíð Austurlands, en það var grundvallarmunur á þeim.
1.
Að gefa svæðinu ca tuttugu ár til að sjá hvernig útkoman væri ef það væri friðað og gert að þjóðgarði með nýtingu fjölbreyttra möguleika fyrir ferðafólk til að upplifa hin stórbrotnu sköpunarverk Jökulsánna tveggja, einkum Jökulsár á Dal.
Gera snotran veg yfir netta brú rétt innan við Kárahnjúka og og útbúa gönguleiðir þaðan inn með Jöklu beggja vegna. Gera göngubrú eða kláf yfir Kringilsá sem opnaði svæði, sem alþjóð hafði dáðst að í mynd Eðvarðs Sigurgeirssonar.
Gefa göngufólki kost á að sjá listaverkin, sem afkastamesti listamaðurinn meðal fljóta Evrópu var að skapa á örfáum áratugum við Stapana, og Rauðuflúð. Lofa göngufólki að horfa í hrifningu upp í stuðlabergsskrautið sitt hvorum megin við Stuðlagáttina, sem Kringilsá hafði skapað með fossum sínum, þar sem Töfrafoss, stærsti fossinn á svæðinu vestan Snæfells var efstur.
Baða sig í heitri lind utan í Hálsinum og njóta skjóls dalsins og huba mikla gróðurs Hálsins.
Kosturinn við að gera þetta var sá, að það útilokaði ekki að virkjað yrði síðar ef einhver síðari kynslóð ákvæði það. Miðað við það sem tekist hefur að gera annars staðar á svipuðum svæðum á Íslandi hefði þetta getað, í gegnum stóraukna ferðaþjónustu, fjölgað íbúum Miðausturlands og skapað að minnsta kosti jafnmörg störf og hinn kosturinn, auk þess sem arðurinn af ferðaþjónustinni rynni til Íslendinga, í stað þess að allur arðurinn rynni úr landi eins og Alca krafðist að yrði tryggt með sérstökum ákvæðum í orkusölusamningi, sem batt hendur Alþingis í 40 ár.
2.
En hinn kosturinn var að virkja árnar báðar eins og gert var. Sá kostur var hins vegar þess eðlis, að mestu mögulegu óafturkræfu neikvæðu umhverfisáhrif á Íslandi, eins og fram kom í 1. áfanga Rammaáætlunar, útilokuðu um eilífð að hægt væri að prófa kost númer eitt.
Óþolið var svo mikið og æðibunugangurinn að það mátti ekki vera að því skoða og prófa kost númer eitt, og eyða til þess nánast nokkrum augnablikum í sögu þjóðarinnar miðað við þau eilíðar áhrif sem Kárahnjúkavirkjun mun hafa.
Ein kynslóð gat ekki hugsað sér að hinkra aðeins við það að taka ráðin af öllum kynslóðunum og milljónunum, sem komu á eftir henni.
Sungið var hátt um það fyrir fimmtán árum að Kárahnjúkavirkjun myndi "bjarga" Austurlandi.
Ef svo var, hvers vegna er þá verið að tala um vá fyrir dyrum nú?
Hér vantar okkur ferðamenn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Reiknað er með því að eftir nokkur ár verði 75% af mannskapnum hjá Alcoa útlendingar. Innbyggjar vilja ekki eða nenna ekki að vinna við þær aðstæður sem eru við framleiðsluna.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 12.5.2017 kl. 18:28
Um síðustu aldamót var um tvo kosti að ræða varðandi framtíð Austurlands, en það var grundvallarmunur á þeim.
1. Að láta Austfirði leggjast að mestu í eyði á einum áratug eins og fyrirsjáanlegt var. Friðun einhverra svæða og snotur vegur yfir netta brú hefði ekki gert neitt til að koma í veg fyrir það.
2.En hinn kosturinn var að virkja ár og byggja álver. Skapa þúsundum ástæðu til að fara ekki. Ástæðu sem nú hefur sannað sig sem betri kosturinn. Og þó kosturinn hafi verið góður og virkað vel þá er hann ekki nein eilífðarlausn. Fjölgun fólks á Austurlandi kallar á meiri atvinnu. Það má byggja hótel og laða að ferðamenn þó álver sé í fjórðungnum.
Fjölgun ferðamanna hefur að mestu verið bundin við suðvestur hornið. Bláa lónið, Reykjavík og Gullfoss Geysir er pakki flestra ferðamanna. Landsbyggðin fær tvöföldun meðan höfuðborgarsvæðið fær tíföldun.
Hábeinn (IP-tala skráð) 12.5.2017 kl. 18:31
Haukur, hverjir hafa reiknað með því að eftir nokkur ár verði 75% af mannskapnum hjá Alcoa útlendingar ?
Hver segir þér að heimamenn vilja ekki eða nenna ekki að vinna í álverinu?
Ef ekki hefði verið fyrir álverið fyrir austan væri nú nöturlegt um að litast á svæðinu og innviðir, s.s. vegagerð, verslun og þjónusta, hótel og fleira væri lítt boðleg fyrir ferðalanga.
Ómar talar um að gera "snotran veg"!
Þetta er svo vitlaust hjá honum blessuðum. Gerum bara "snotra vegi" þar sem þörf er á og allir verða ánægðir.
Það hefur gengið hægt og illa að gera "snotran" veg að Dettifossi, enda er snotur vegur víst rándýr. Þó er Dettifoss einn fjölsóttasti ferðamannastaðurinn á svæðinu og hefur margfalt meira aðdráttarafl en Kárahnjúkasvæðið. Reyndar hefur aðdráttarafl Kárahnjúka aukist töluvert eftir virkunarframkvæmdirnar og bæði innlendir og erlendir ferðamenn koma á sumrin til að skoða náttúrúruna og mannvirkin þarna uppfrá, enda "snotri vegurinn" sem Impregilo byggði, afbragðsgóður. Hvorki Vegagerðin né ríkissjóður lagði krónu í þann veg.
"Snotri vegurinn" að Kárahnjúkum er nothæfur 4-5 mánuði á ári, nema lagt yrði í hundruða miljóna kr. kostnað í vetrarþjónustu fyrir sára fáa sem teldu þess virði að fara þarna uppeftir á þeim árstíma.
Gunnar Th. Gunnarsson, 12.5.2017 kl. 20:32
"Hvorki Vegagerðin né ríkissjóður lagði krónu í þann veg."
Gunnar! Skýrðu þetta nánar. Áttu við að Impregilo hafi greitt hann úr eigin vasa og tekið þá aura af hagnaði sínum af verkinu? Af einberri góðmennsku? Eða var lagning hans hluti af útboðinu og því greidd fullu verði? Var Impregilo ekki greitt umsamið verð fyrir framkvæmdapakkann? Var verð vegarins dregið frá því sem Ítalirnir fengu greitt? Var ekki annars örugglega greitt fyrir þetta? Átti Arnarfell engan hlut að vegarlagningu þarna? Greiddi Impregilo þeim kannski fyrir spottann sem þeir lögðu?
Fróðlegt væri að fá sæmilega skýr svör við þessu.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 12.5.2017 kl. 22:07
Vitað var að öll orka Lagarfossvirkjunar fór í að uppfylla ókeypis raforkuþörf Impregilo meðan á framkvæmdunum stóð.
Ef Gunnar skoðaði "gögn" og glansmyndir Landsvirkjunar um stóra hálendismiðstöð við Kárahnjúkastíflu þar sem þúsundir ferðamanna myndu vera á bílum, bátum, seglbrettum og klifurbúnaði utan á stíflunni og bæri það saman við þá tiltölulega litlu umferð sem er fram og til baka að stíflunni, og stórlega minnkaða umferð fyrir vestan stífluna miðað við það sem áður var.
Í glansmyndinni er Hálslón sýnt sem blátært þótt hið sanna sé að skyggni í vatninu er aðeins nokkrir sentimetrar vegna drullu.
Einu sinni dáðust Íslendingar að myndinni "Á hreindýraslóðum" sem tekin var í Kringilsárrana.
Nú eru öll hreindýr horfin af Brúaröræfum og á bestu góðviðrisdögum hnjúkaþeys af suðri og suðvestri snemmsumars drekkir leir- og sandstormur þurrs lónbotnsins þessu svæði.
Svæðið bjó yfir mögnuðum náttúrufyrirbærum, sem vel hefði verið hægt að kynna.
Eða hve margir komu í Reynisfjöru eða að Fjaðrárgljúfri fyrir áratug?
Ómar Ragnarsson, 12.5.2017 kl. 23:20
Haukur, vegurinn var hluti af samningnum við virkjunarframkvæmdina. Ríkissjóður (Vegagerðin) þurfti ekki að leggja út fé fyrir þeim vegi eins og öðrum vegum á landinu.
Ómar, í óskhyggju þinni vonaðir þú að moldrok yrði viðvarandi vandamál vegna Hálslóns. Staðreyndin er sú að "vandamálið" er svipað og áætlanir gerðu ráð fyrir, þ.e. fremur lítið og mótvægisaðgerðir, sem einnig var gert ráð fyrir, koma að ágætu gagni.
Varðandi hreindýrin er sama sagan með þig, óskhyggja, því ekki vil ég bera upp á þig að þú sért lyginn og ómerkilegur. Hreindýr hafa alls ekki horfið af Brúaröræfum og hvers vegna ættu þau að hafa gert það? Eilítið misjafnt er frá ári til árs hvar hreindýr halda sig mest. Svæðið við Snæfell og vestan Hálslóns er þriðja mesta hreindýraveiðisvæði landsins. Töluvert er af hreindýrum á stundum í Kringilsárrana.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.5.2017 kl. 01:54
Allur kostnaður vegna Kárahnjúkavirkjunar, þar með taldir vegir, er greiddur af íslenska ríkinu, eiganda Landsvirkjunar.
Þorsteinn Briem, 13.5.2017 kl. 14:08
Nettóskuldir Landsvirkjunar voru 1. janúar 2013 309,4 milljarðar króna, samkvæmt ársreikningi Landsvirkjunar fyrir árið 2012, andvirði tveggja Kárahnjúkavirkjana.
Þorsteinn Briem, 13.5.2017 kl. 14:09
21.2.2014:
Landsvirkjun tapaði 4,4 milljörðum króna árið 2013 vegna lækkandi álverðs
Þorsteinn Briem, 13.5.2017 kl. 14:10
"Í Fljótsdalsstöð fer fram raforkuvinnsla Kárahnjúkavirkjunar.
Afl stöðvarinnar er 690 MW og raforkan fer öll til álvers Alcoa-Fjarðaáls í Reyðarfirði."
Þorsteinn Briem, 13.5.2017 kl. 14:14
20.11.2015:
Alcoa aldrei greitt skatt hér á Íslandi - Um 57 milljarðar króna farið frá Alcoa í Reyðarfirði til Lúxemborgar
Þorsteinn Briem, 13.5.2017 kl. 14:15
27.4.2017:
"Á aðalfundi Landsvirkjunar í dag var samþykkt tillaga stjórnar fyrirtækisins um 1,5 milljarða króna arðgreiðslu til ríkisins."
10.4.2013:
"Á aðalfundi Landsvirkjunar í dag var samþykkt tillaga stjórnar fyrirtækisins um arðgreiðslu til eigenda, þ.e. ríkissjóðs, að fjárhæð 1,5 milljarðar króna fyrir árið 2012.
Landsvirkjun greiddi 1,8 milljarða í arð í ríkissjóð í fyrra [2012] en fyrirtækið greiddi engan arð í fjögur ár þar á undan [2008-2011]."
Þorsteinn Briem, 13.5.2017 kl. 14:17
17.2.2015:
"Íslandsbanki spáir því að útflutningstekjur ferðaþjónustunnar verði 342 milljarðar króna árið 2015, eða ríflega ein milljón króna á hvern Íslending.
Greinin hefur vaxið mun hraðar en hagkerfið og með sama áframhaldi verða tekjurnar farnar að nálgast útgjöld ríkisins innan nokkurra ára en þau eru áætluð um 640 milljarðar króna í ár."
"Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, segir ferðaþjónustuna orðna "langumfangsmestu atvinnugrein þjóðarinnar á mælikvarða gjaldeyrisöflunar.""
Spá 342 milljarða króna útflutningstekjum ferðaþjónustunnar árið 2015
Þorsteinn Briem, 13.5.2017 kl. 14:21
Auknar fjárveitingar ríkisins nú til Landspítalans, háskólanna og vegagerðar koma frá ferðaþjónustunni.
27.11.2014:
Hagvöxturinn byggist á vexti ferðaþjónustunnar
Þorsteinn Briem, 13.5.2017 kl. 14:29
Febrúar 2009:
"Virðisauki af starfsemi stóriðjuvera hér á Íslandi er ekki mikill.
Samkvæmt ársreikningum þeirra álvera sem störfuðu hér á árinu 2007 má áætla að hjá þeim sé virðisaukinn samtals um 25 milljarðar króna, sem svarar til um 1,8% af vergri þjóðarframleiðslu.
Virðisaukinn lendir að 2/3 hlutum hjá erlendum eigendum álveranna en einungis 1/3 hjá íslenskum aðilum, sem svarar til 0,6%-0,7% af þjóðarframleiðslunni.
Virðisauki vegna sölu á aðföngum til stóriðju er að mestu leyti hjá orkusölum en ekki eru tiltækar talnalegar upplýsingar um hann.
Verð á raforku til stóriðju bendir þó til þess að hann sé ekki mikið umfram vaxtagreiðslur orkuveranna sem renna úr landi og viðunandi ávöxtun eiginfjár.
Því eru líkur á að arður af orkulindinni, auðlindarentan, renni nær óskipt til orkukaupendanna, stóriðjuveranna."
Efnahagsleg áhrif erlendrar stóriðju hér á Íslandi - Fyrrverandi ríkisskattstjóri
Þorsteinn Briem, 13.5.2017 kl. 14:32
"Fjallagrasatínslan":
10.2.2016:
Útflutningstekjur ferðaþjónustunnar áætlaðar um 400 milljarðar króna árið 2016 - Um 44% meiri en árið 2013
Þorsteinn Briem, 13.5.2017 kl. 14:36
Það er sem sagt rangt að Impregilo hafi lagt þennan veg á eigin kostnað. Vitaskuld greiddu Íslendingar hverja krónu sem í hann fór, rétt eins og alla virkjunina.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 13.5.2017 kl. 20:16
Já, það eru ekki margir ferðamenn sem hafa áhuga á að skoða verksmiðjur og náttúruspjöll. En liði fær þó amk. að þræla í álverinu ... hlýtur að vera ánægt með það
Þorsteinn Siglaugsson, 15.5.2017 kl. 11:46
Töluverður ferðamannastraumur er til Kárahnjúka. Bæði innlendir og erlendir ferðamenn vilja skoða mannvirkin. Sömu sögu er að segja um Nesjavelli svo ekki sé talað um Blá lónið.
Gunnar Th. Gunnarsson, 17.5.2017 kl. 12:33
Þegar deilur um kröflu stóðu sem hæst, þá á Jón G. Sólnes að hafa sagt að Krafla eigi eftir að veita birtu og yl á íslensk heimili. Eins er með Kárahnjúka, sú framkvæmd mun falla vel í sögubækurnar og þessi framkvæmd framleiðir raforku sem ekki gefur frá sér koltvísýring, nokkuð sem er mikil þörf á.
Það er sagt að Landsvirkjun hafi gafið rafmagn til stóriðju. Það er samt þannig að Landsvirkjun er búin að vera til í 50 ár og er talið verðmæti að 500 milljörðum eða 100 miljarða eignamyndum á áratug.
Alco er dýrmætur vinnustaður fyrir Austurland. það sér maður og finnur vel þegar maður heimsækir æskustöðvarnar. Jafnframt vex ferðamennska og sjávarútvegur blómstrar.
Alcoa og Kárahnjúkar eru þannig mikilvægt framfaraskref fyrir land og þjóð og hefur styrkt bæði land og þjóð og Austurland.
Það er dýrmætt að þáverandi ráðamenn þjóðarinnar stóðu í lappirnar og kláruðu þessar framkvæmdir.
Gísli Gíslason, 26.5.2017 kl. 14:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.