12.5.2017 | 22:33
Með 700 þúsund króna fjárfestingu er hægt að byrja á morgun.
Hér á landi ríkir alveg sérstök viðleitni til þess að við Íslendingar komumst hjá því að uppfylla skuldbindingar okkar varðandi aðgerðir í loftslagsmálum.
Samgönguráðherra hélt því fram í sjónvarpsviðtali að stærsti árangurinn gæti falist í hinum miklu flugsamgöngum.
En í fyrsta lagi eru flugsamgöngurnar alþjóðlegar og því utan sérstaks kvóta okkar sem þjóðar. Og flugsamgöngur í heiminum standa aðeins fyrir 10 prósentum af heildarlosuninni og ferðaþjónustan aðeins fyrir helmingnum af því.
Innanlandsflugsamgöngur eru með 2% af losuninni innanlands.
Þar að auki er ekki hægt að skipta yfir í raforku í flugflotanum eins og verður æ auðveldara í bílaflotanum.
Viðleitni til að þarna verði skorið niður er því vonlaus að einhverju marki, en ef menn einblína samt á það, verður auðvitað gulltryggt að við leggjum nær ekkert af mörkum.
Samgöngutækin á landi liggja hins vegar beint fyrir sem langstærsti hlutinn og þess vegna er svona mikil áhersla lögð á átak á því sviði.
Og sama daginn og byrjað er að aka á rafbíl, rafhjóli eða léttustu vélhjólum, minnkar útblásturinn frá því sem áður var og árangurinn skilar sér samstundis út í sameiginlegan lofthjúp jarðarbúa.
"Það hafa ekki allir efni á því að eignast rafbíl" er gild ástæða hjá mörgum, þeirra á meðal mér.
En þegar ég fór að skoða öll samgöngutækin, allt frá fótstignum reiðhjólum til jeppa og stærri bíla, fannst samt lausn, svo hlægilega einföld, að ef einhver vildi gera það sama, þyrfti hann ekki nema einn dag til að framkvæma hana.
Tökum persónuleg not mín eins og sér, en kona fékk sér langódýrasta og sparneytnasta bensínbílinn fyrir þremur árum, og auðvitað nota ég hann einstaka sinnum þegar þannigi stendur á að það kemur best út.
En ég get notað fornbíl af allra minnstu gerð, eða jeppa, sem er fornbíll og af minnstu gerð jeppa.
Þessum bílum er ekið nokkur hundruð kílómetra á ári og sú niðurstaða er lík niðurstöðunni í Noregi, sem hefur langoftast orðið sú, þegar fólk hefur virkilega tekið til hendi, að það eru tveir bílar á heimilinu, rafbíll, sem er bíll númer eitt og notaður í snattið og stendur fyrir allt að 90% akstursins, og venjulegur bíll, sem er notaður á lengri leiðum en er samt með margfalt minni akstur en rafbílinn.
En galdurinn fyrir aldraðan lífeyrisþega eða tekjulágan einstakling fannst og ég hef lýst henni áður hér á síðunni. Í grunninn þrír farkostir:
1.
Raf- og fótknúið reiðhjól, "Náttfari", sem kostaði 250 þúsund krónur og er notað eins mikið og unnt er innanborgar. Orkukostnaður nánast enginn, engin skráning og engar skyldutryggingar eða gjöld.
Ég á núna heima 11 kílómetra frá Umferðarmiðstöðinni, í norðausturhluta Grafarvogshverfis, og þess vegna fólst heildarlausnin í millistiginu:
2.
Minnsta og sparneytnasta vélhjólið, "Léttir," 450 þúsund króna fjárfesting, sem getur náð 90 kílómetra þjóðvegahraða og er notað þegar fara þarf í lengri vegalengdir innanborgar eða í ferðir út á land. Búinn að fara 3500 kílómetra úti á þjóðvegum um allt land síðan í ágúst í fyrra, líka í allan vetur. Myndin af honum tekin í "trúbador"-ferð til Selfoss með hljóðkerfi og allan búnað meðferðis.
Orkukostnaður, útblástur og rekstrarkostnaður aðeins brot af því sem er á bíl, en hins vegar skyldutrygging og skylduskráning.
3.
Í sumar: Fiat 126 fornbíll, örbíll af árgerð 1986 / eða Suzuki Fox örjeppi, fornbíll árgerð 1988.
Engin gjöld, enda aksturinn sáralítill, en lág skyldutrygging. Foxinn er minni um sig en álíka léttur og minnstu nýju fólksbílarnir, örlítið breyttur, svo að hann kemst nokkurn veginn allt það sem jeppar / jöklajeppar komast, en er með lítilli 970cc sparneytinni vél.
Daginn, sem ég hafði fengið mér bæði hjólin, minnkaði umhverfis/kolefnisfótspor mitt samdægurs um 70% og sá árangur hefur skilað sér út i sameiginlegt andrúmsloft jarðarbúa samdægurs eftir það.
Hver maður þarf aðeins að leita að lausn sem hentar honum persónulega og framfarirner eru það miklar að það verður æ auðveldara.
Krafan sem flest nútímafólk gerir, er að eiga völ á því að komast á eigin farartæki um allt land á þeim hraða sem þarf, en þó löglegum.
Og það er hægt að uppfylla þær óskir og ná samt miklum árangri í brýnum umhverfismálum.
Þurfum líklega að draga úr um 35-40% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er hægt að klára þetta mál með ennþá minni fjárfestingu. Hægt að gera það fyrir framan tölvuna. Hægt að gera það samstundis, t.d. bara akkúrat núna, og fyrir þá sem eru verulega áhugasamir hægt að breyta fortíðinni og klára málið til allrar framtíðar.
Það er gert með því að kolefnisjafna notkun bílsins síns með gróðursetningu trjáa í gegnum Kolvið.
Það kostar innan við eina áfyllingu fyrir venjulegan bíl og venjulega eyðslu að kolefnisjafna notkun í eitt ár.
Það er hægt að kolefnisjafna eins mörg ár og þú vilt bæði afturábak og áfram.
Og það besta af öllu að þá er maður í einum vetfangi búinn að stinga sokk upp í alla þá sem telja notkun einkabílsins stærsta vandamálið þegar kemur að losun CO2.
Sem hann er reyndar ekki...innan við 5% af heildarnotkun.
Happy biking Ómar!!...en endilega kolefnisjafnaðu smábílaflotann þinn...alla jeppana sem eru dreifðir um landið..og Frúna...altso þessa í loftinu :-)
Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 13.5.2017 kl. 09:20
Það er hægt að klára þetta mál með ennþá minni fjárfestingu. Hægt að gera það fyrir framan tölvuna. Hægt að gera það samstundis, t.d. bara akkúrat núna, og fyrir þá sem eru verulega áhugasamir hægt að breyta fortíðinni og klára málið til allrar framtíðar.
Það er gert með því að kolefnisjafna notkun bílsins síns með gróðursetningu trjáa í gegnum Kolvið.
Það kostar innan við eina áfyllingu fyrir venjulegan bíl og venjulega eyðslu að kolefnisjafna notkun í eitt ár.
Það er hægt að kolefnisjafna eins mörg ár og þú vilt bæði afturábak og áfram.
Og það besta af öllu að þá er maður í einum vetfangi búinn að stinga sokk upp í alla þá sem telja notkun einkabílsins stærsta vandamálið þegar kemur að losun CO2.
Sem hann er reyndar ekki...innan við 5% af heildarnotkun.
Happy biking Ómar!!...en endilega kolefnisjafnaðu smábílaflotann þinn...alla jeppana sem eru dreifðir um landið..og Frúna...altso þessa í loftinu :-)
Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 13.5.2017 kl. 09:55
eru menn ekki að profa metalón fraleiðslu í svartseingi ein ætla menn að vera stórtækir við kröflu. skildi það ekki duga bæði skipa og bilafota íslendínga sem mindi minka meingun í leiðinni
kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 13.5.2017 kl. 10:58
"Alla jeppana þína, dreifða um allt landið."
Við Mývatn á ég gamlan Rússa, sem ekki er á númerum og hefur verið óhreyfður í sex ár. Það þarf ekki að kolefnisjafna þann bíl.
Á Sauðárflugvelli standa tveir jeppar sem hafa ekki hreyfst út af flugvellinum í mörg ár. Ekki þarf að kolefnisjafna þá nema þá fyrir því að annar þeirra er notaður til þess að valta flugvöllinn í júní.
Ekki eru flugvellir valtaðir með trjám, er það?
Segðu mér frá öllum hinum jeppunum, sem þú fullyrðir að ég eigi um allt land.
Ég á enga að ég best veit.
Og á ársfundi Umhverfisstofnunar upplýstist að í gegnum Kolvið og hliðstæða starfsemi eina munum við ekki sleppa við skuldbindingarnar okkar.
Nema að víð svíkjum það allt. Vilja menn það endilega? Það sem ég hef gert, virkaði samdægurs á samsetningu lofthjúpsins.
Afsakaðu að ég ætli ekki að láta nægja það eitt að bíða árum saman eftir virkni minnkunar nettó kolefnisfótspors míns.
Ómar Ragnarsson, 13.5.2017 kl. 11:08
Já, hvað er að frétta af metanól (methanol, methylalkohol, methyl alcohol, wood alcohol, tréspíri) framleiðslu hjá Carbon Recycling í Svartseingi?
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 13.5.2017 kl. 11:58
Útstreymi hér á Íslandi árið 2007 (CO2-ígildi í þúsundum tonna) og hlutfallsleg breyting frá árinu 1990:
Iðnaður og efnanotkun 1.845 +64%,
samgöngur 1.017 +67%,
sjávarútvegur 650 -18%,
landbúnaður 534 -7%,
úrgangur 254 +41%,
rafmagn og hiti 182 +48%,
samtals 4.482 +32%.
Ál:
"Útstreymi vegna álframleiðslu jókst úr 569 þúsund tonnum árið 1990 í 978 þúsund tonn árið 2007, eða um 72%."
Járnblendi:
Útstreymi vegna framleiðslu járnblendis jókst úr 205 þúsund tonnum árið 1990 í 393 þúsund tonn árið 2007, eða um 91%."
Samgöngur:
"Útstreymi frá samgöngum árið 2007 skiptist í útstreymi vegna innanlandsflugs (2%), strandsiglinga (6%) og vegasamgangna (92%).
Í heildina jókst útstreymi frá samgöngum úr 608 þúsund tonnum árið 1990 í 1.017 þúsund tonn árið 2007, eða um 67%.
Útstreymi frá innanlandsflugi minnkaði lítillega á tímabilinu en útstreymi vegna strandsiglinga jókst um 1%.
Útstreymi frá vegasamgöngum jókst hins vegar um 81% frá 1990 til 2007 eða úr 517 þúsund tonnum í 934 þúsund tonn."
Sjávarútvegur:
"Útstreymi frá sjávarútvegi skiptist árið 2007 í útstreymi frá fiskiskipum (87%) og fiskimjölsverksmiðjum (12%).
Í heildina jókst útstreymi frá sjávarútvegi frá 1990 til 1996 en hefur farið minnkandi síðan. Útstreymið var mest árin 1996 og 1997 þegar mikil sókn var á fjarlæg mið."
Landbúnaður:
"Útstreymi frá landbúnaði minnkaði um 6,7% á milli 1990 og 2007. Rekja má þessa minnkun til fækkunar búfjár. Nokkur aukning varð árin 2006 og 2007 miðað við árin á undan og má rekja þá aukningu til aukinnar notkunar tilbúins áburðar."
Úrgangur:
"Útstreymi vegna meðferðar úrgangs skiptist í útstreymi vegna frárennslis og útstreymi vegna urðunar, brennslu og jarðgerðar úrgangs. Útstreymi jókst um 41% frá 1990 til 2007.
Sem hlutfall af heild innan geirans árið 2007 var útstreymi vegna urðunar um 80%, frárennslis um 9%, brennslu um 11% og jarðgerðar 1%."
Orkuframleiðsla:
"Útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna orkuframleiðslu árið 2007 skiptist í útstreymi vegna jarðhitavirkjana (83%) og útstreymi vegna notkunar eldsneytis til rafmagns- og hitaframleiðslu (17%).
Heildarútstreymi frá orkuframleiðslu jókst úr 123 þúsund tonnum árið 1990 í 182 þúsund tonn árið 2007, eða um 48%.
Aukning frá jarðhitavirkjunum vegur þar mest en útstreymi frá jarðhitavirkjunum jókst úr 67 þúsund tonnum í 152 þúsund tonn á tímabilinu."
Nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á Íslandi, bls. 30-36
Þorsteinn Briem, 13.5.2017 kl. 14:49
3.4.2017:
""Ég held að við þurfum ekki að reisa eina einustu virkjun.
Það sem rafbílar taka er mjög lítið og spá segir okkur að innan 15-20 ára verði komnir hundrað þúsund rafbílar í landinu.
Þessir bílar þurfa ekki nema 1,5% af því rafmagni sem framleitt er í landinu í dag og til að fullnægja því höfum við 10-15, jafnvel 20 ár.
Þannig að við þurfum í rauninni ekki að virkja neitt til að skipta yfir í rafmagn í umferðinni," segir Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur."
Þarf ekki nýjar virkjanir fyrir rafbílavæðinguna segir forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur
Þorsteinn Briem, 13.5.2017 kl. 14:58
Sumir ná því greinilega engan veginn að ekki er verið að selja rafbíla til að vera í stöðugum akstri á milli landshluta, enda eru langfæstir í slíkum akstri.
Að sjálfsögðu er verið að reisa hleðslustöðvar fyrir rafbíla víða hér á Íslandi fyrst og fremst fyrir akstur á viðkomandi stað en ekki á milli landshluta, rétt eins og bensínstöðvar.
Þar að auki eru tveir bílar á flestum heimilum.
"Við erum að keyra þrjátíu til fjörutíu kílómetra að jafnaði á dag og þá þurfum við ekkert að stinga sendibílnum í hleðslu nema yfir nóttina.
Við höfum verið með veislur í Varmahlíð og getum farið á bílnum þangað."
"Rekstrarkostnaðurinn er nær enginn og bifreiðagjöldin um sex þúsund krónur á ári.
Maður finnur helst að drægnin minnki þegar frostið fer í tíu stig."
Veitingaþjónusta á Sauðárkróki keypti rafsendibíl fyrir tveimur árum án þess að prófa bílinn fyrst en hann hefur reynst vel
Þorsteinn Briem, 13.5.2017 kl. 15:03
Einkarafbíla sem eingöngu eru notaðir á höfuðborgarsvæðinu nægir yfirleitt að hlaða á nokkurra nátta fresti, þar sem meðalakstur einkabíla í Reykjavík er 30 kílómetrar á dag.
Þorsteinn Briem, 13.5.2017 kl. 15:05
Hér á Íslandi er einn bíll á hvern Íslending á öllum aldri og fjölmargir nota einkabíl eingöngu einu sinni eða í örfá skipti á ári til að aka í aðra landshluta, til að mynda í sumarfríum.
Á fjölmörgum íslenskum heimilum er því fleiri en einn einkabíll.
Og það sem hægt er að gera í Noregi í þessum efnum er einnig hægt hér á Íslandi.
Hleðslustöðvar fyrir rafbíla verða hér í öllum bæjum og þorpum, til að mynda á bensínstöðvum, og á fjölmörgum heimilum, í bílageymslum og á vinnustöðum.
Hins vegar verða ekki margar bensínstöðvar á öllum þessum stöðum.
Og fleiri en ein hleðslustöð þar sem þörf er á því.
11.4.2017:
Hreinir rafbílar rúmlega þriðjungur af sölu nýrra bíla í Noregi
Þorsteinn Briem, 13.5.2017 kl. 15:07
9.3.2017:
"Orka náttúrunnar (ON) og N1 ætla í sameiningu að reisa hlöður fyrir rafbíla meðfram helstu þjóðvegum landsins.
Stjórnendur fyrirtækjanna hafa skrifað undir samkomulag um að hlöður ON rísi á afgreiðslustöðvum N1 víðs vegar um landið.
ON hefur þegar reist þrettán hlöður fyrir rafbíla í samstarfi við ýmsa aðila, þar á meðal N1."
"ON hefur einnig aukið mjög upplýsingagjöf til rafbílaeigenda með útgáfu smáforritsins ON Hleðsla fyrir Android og iPhone.
ON Hleðsla veitir meðal annars upplýsingar um vegalengd í næstu hlöðu, hvar hún er, hvaða hleðslubúnaður er í henni og hvort hún er laus eða upptekin.
Í tilkynningu segir að N1 reki 95 stöðvar á landinu og þar með víðtækustu þjónustu hér landi fyrir bifreiðaeigendur."
"Um 20 mínútur tekur að hlaða rafbíl og mikilvægt fyrir ökumann og farþega að geta slakað á í notalegu umhverfi og fengið sér kaffibolla eða aðra hressingu á meðan bíllinn er í hleðslu."
Orka náttúrunnar (ON) og N1 með hleðslustöðvar fyrir rafbíla við þjóðvegi landsins
Þorsteinn Briem, 13.5.2017 kl. 15:12
3.3.2017:
"Vegna ársins 2016 styrkti Orkusjóður sex aðila um 66,7 milljónir króna til að setja upp sautján hraðhleðslustöðvar og þrjár minni á eftirtöldum stöðum:
Skjöldólfsstöðum, Bláa lóninu, Landeyjahöfn, Vestmannaeyjum, Egilsstöðum, Höfn, Staðarskála, Fáskrúðsfirði, Djúpavogi, við Jökulsárlón, í Skaftafelli, Kirkjubæjarklaustri, Vík, Hellu, Flúðum, Geysi í Haukadal, Hveragerði, Blönduósi, Varmahlíð og Reykjahlíð.
Vegna ársins í ár hafa tíu aðilar verið styrktir um 66 milljónir króna til að setja upp sextán hraðhleðslustöðvar og tvær minni:
Garðabær, Hafnarfjarðarbær, Isavia, N1, Olíuverslun Íslands, Orka náttúrunnar (ON), Orkubú Vestfjarða, Reykhólahreppur, Skeljungur og Vistorka.
Loks hefur Orkusjóður ákveðið að styrkja tólf aðila til að setja upp níu hraðhleðslutæki og 58 minni.
Þar af er Reykjavíkurborg styrkt til uppsetningar á þrjátíu minni hleðslustaurum víðs vegar um borgina.
Sex hraðstöðvarnar af níu verða settar upp í Reykjavík á vegum Orku náttúrunnar, Olíuverslunar Íslands og Skeljungs.
Á þessu lokaári styrktarverkefna Orkusjóðs verða auk þessa settar upp tólf hleðslustöðvar víða á Austurlandi, ein í Grindavík, þrjár í Mosfellsbæ, á Húsafelli, Reykholti, við Seljalandsfoss, í Norðurfirði á Ströndum, þrjár á Selfossi, ein á Stokkseyri, Eyrarbakka, Raufarhöfn, við Dettifoss, á Laugum, Skagaströnd og Dalvík."
Þorsteinn Briem, 13.5.2017 kl. 15:14
Meðalstórt heimili í Reykjavík notar um fjögur þúsund kWst raforku á ári.
Raforka vegna rafbíls á heimilinu er minni en þriðjungur af þeirri notkun.
Einkarafbíla sem eingöngu eru notaðir á höfuðborgarsvæðinu hér á Íslandi nægir yfirleitt að hlaða á nokkurra nátta fresti, þar sem meðalakstur einkabíla í Reykjavík er 30 kílómetrar á dag.
Og öll heimili nota einungis 5% raforkunnar hér á Íslandi.
Þorsteinn Briem, 13.5.2017 kl. 15:15
Ómar, þú ert nú ekki sambærilegur við annað fólk, en þú ert alveg frábær!
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 13.5.2017 kl. 15:32
Ég gleymdi að geta þess að TF-FRÚ hefur ekki flogið síðan í september 2014 og verður líklega ekki flogið meira meðan ég lifi.
Þannig að Magnús getur tekið gleði sína hvað hana varðar.
Ómar Ragnarsson, 13.5.2017 kl. 23:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.