16.5.2017 | 21:27
"Fljúgandi bíll" hjá YD í KFUM fyrir 68 árum.
Ég minnist þess enn þegar ég var strákur, að Baldur Bjarnasen, flugvélstjóri hjá Loftleiðum kom á fund hjá Y.D., Yngri deild, í KFUM til að segja okkur frá nýjustu uppfinningunu í Bandaríkjunum.
Hann sagði okkur að búið væri að finna upp bíl sem gæti flogið og héti Aerocar og hefði þegar flogið eftir að honum hafði verið ekið á jörðu niðri.
En Aerocar væri bara byrjunin, því að verið væri að hanna loftför og þyrlur sem væru miklu handhægari og gætu flutt menn á milli staða eins og þeir væru fuglar.
Við blasti framtíð, þar sem menn ættu sitt einkaflygildi og að umferðin yrði lík því sem er hjá fuglum í fuglabjörgum.
Við göptum af hrifningu yfir þessari glæsilegu framtíð, sem við ættum í vændum.
Þetta var lang skemmtilegast og eftirminnilegasti barnasamkoma sem ég man eftir frá æskuárum mínum.
Aerocar var þannig hannaður, að hann var í þrennu lagi, skrokkur, vængir og bolur með stéli.
Skrokkurinn var með fjögur hjól eins og bíll, og með hjóladrif, sem tengt var við vélina, einnig var hægt að láta vélina knýja loftskrúfu.
Hina hlutana dró bíllinn á eftir sér í akstri eftir götum eða vegum.
Ef ætlunin var að fljúga, var fundinn flugtaksstaður, hlutarnir settir saman, svo að úr varð heilleg flugvél, og síðan farið í loftið.
Þetta var tveggja sæta vél, álíka stór og þung og einshreyfils fjögurra sæta vélar af Cessna gerð, með venjulegan 4 strokka flugvélamótor og fór langt með að ná sama fljúga jafn hratt á jafn hagkvæman hátt og vinsælustu einkaflugvélarnar.
En draumurinn um Aerocar sem almenningseign rættist aldrei og ekki heldur talsverður fjöldi af flugvélum á borð við Terrafugia o.fl. með fellanlega vængi, sem hefur verið hannaður og framleiddur síðan.
Nýjasta drónatæknin líkist kannski helst hinni heillandi framtíðarsýn Baldurs Bjarnasen.
En það viðfangsefni að smíða dróna sem ber einn eða tvo menn, er líklega ekki það erfiðasta við að breyta umferð nútímans í eitthvað í líkingu við fuglabjarg, heldur aðskilnaður loftfara og flugumferðarstjórn.
Ætli að það verði ekki skynsamlegast að bíða og sjá hvernig það gengur að gera bílaumferð sjálfstýrða og sjálvirka áður en fuglabjargsdæmið verður leyst.
![]() |
Toyota styður þróun fljúgandi bíla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ef við sækjum Ómar heim,
okkur tekur höndum tveim,
allt er þar,
aerocar,
og við förum út í geim.
Þorsteinn Briem, 16.5.2017 kl. 21:52
Takk, Steini. Þú færð að vera í framsætinu.
Ómar Ragnarsson, 16.5.2017 kl. 22:13
Takk fyrir það, Ómar minn.
Þorsteinn Briem, 16.5.2017 kl. 22:45
Aðskilnaður farartækja í lofti á landi og á sjó er að verða lítið mál. Með nýjungum í skynjaratækni og með aðstoð gerfigreindar að þá verður þetta leikur einn. Þetta verður eins og öll þessi farartæki verði útbúin með ósýnilegri árás Örn sem tekur yfir stjórn farartæki síns þegar á þarf að halda þ.e. ef farartækið er ekki þegar orðið algjörlega sjálfakandi, sjálfsiglandi eða sjálffljúgandi. GPS staðsetningartæknin hefur þegar þróast mikið frá því að Lóran C kerfið var og hét. Skip notast við árekstravörn sem nefnist AIS og flugvélar við ADS-B kerfi sem bæði eru að þróast mikið þessa daganna. Samblanda af þessu öllu saman ásamt WiFi og GSM kerfinu er svo verið að nota í sjálfakandi bíla. Með hjálp gerfigreindar sem sameinar allar þessar upplýsingar svona svipað og mannsheilinn er að gera mun koma í veg fyrir að farartæki framtíðarinnar geti hreinlega ekki með neinu móti lent í árekstri. Þetta þýðir að árekstrarvarnir verða nánast óþarfar og farartæki mun léttari sem þýðir meira græn og meiri orkusparnaður.
Kjartan Pétur Sigurðsson, 16.5.2017 kl. 23:17
Góður.Það var oft gaman að skoða Popular mechanic´s enda keypti maður það alltaf.Ég sé hinsvegar engin not fyrir svona tæki þar sem flestir eiga bíla sem þeir keyra til og frá flugvöllum og geta því haft vængina á sínum stað. Þyrla er málið í dag og hefir verið í tugi ára en of dýr vegna reglugerðar um eftirlit en þetta voru spennandi tímar.
Valdimar Samúelsson, 16.5.2017 kl. 23:21
Hér má sjá myndir úr ferð þar sem þú varst leidsögumadur þar sem flugbílinn Aerocar var til sýnis. http://www.photo.is/atlanta/atlanta-22.htm
Sé að íslenskan er að vefjast fyrir símanum sem að ég ritaði greinina með hér á undan. Orðið "árás Örn" átti að vera "árekstrarvörn" :)
eða það sem kalla mætti stafræn árekstrarvörn sem heldur farartækinu í ósýnilegu öryggisboxi og lætur stjórntæki beggja aðila bregðast við sjálfvirkt mun hraðar en mannlegt getur gert.
Kjartan Pétur Sigurðsson, 17.5.2017 kl. 01:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.