20.5.2017 | 13:54
Eitt aðalgagnrýnisefni Trumps var stefnan í Miðausturlöndum.
Eitt helsta gagnrýnisefni Donalds Trumps í kosningabaráttunni var stefna fyrri ríkisstjórnoa í málefnum Miðausturlanda.
Svo langt gekk hann að hann sakaði Hillary Clinton um að hafa stofnað Íslamska ríkið.
Það er því í fullu samræmi við þessa gagnrýni hans, sem hann fer til þessa heimshluta í fyrstu opinberu heimsókn sína.
En þar með er samræmið búið og ósamræmið tekur við.
Ekki er að sjá að Trump hafi gert neitt hingað til til þess að lægja öldurnar á þessu svæði.
Hann heimilaði hiklaust loftárás á stöðvar Sýrlandshers, Bandaríkjaher er nýbúinn að gera aðra umdeilda árás, sem hefur ergt Rússa.
Hann lak viðkvæmum leyndarmálum, sem Ísraelsmenn höfðu trúað honum fyrir, beint í Rússa.
Frést hefur, vonandi þó í falskri frétt, að Trump hyggist ætla að halda mikla tölu um Íslam yfir hausamótunum á ráðamönnum Sáda.
Yrði slíkt fáheyrt, enda myndi heyrast hljóð úr horni í Ameríku, ef gestur frá múslimaríki í Miðausturlöndum héldi slíka tölu um Kristna trú í opinberri heimsókn til Bandaríkjanna.
Trump var snjall í því að beina athyglinni að sjálfum sér í kosningabaráttunni. Ítarleg rannsókn á umfjöllun fjölmiðla um hann og Clinton sýndi að Trump fékk um 60% rými, en Clinton 40%.
Trixið byggðist á því að Trump gætti þess að segja eitthvað nýtt og magnað sem flesta daga og fá með því ummælin til að tróna efst á fréttalistum.
Hann gætti þess að ráða vígvellinum og hafa ætíð frumkvæðið svo sterkt, að Clinton lenti í vörn og í því að þurfa ævinlega að bregðast við í stað þess að ná frumkvæði.
Samt greiddu um þremur milljónum fleiri bandarískir kjósendur henni atkvæði en greiddu Trump atkvæði.
En Trump yfirspilaði hana í þeim ríkjum, þar sem atkvæðin skiluðu hlutfallslega flestum kjörmönnum.
Nú leiða menn að því getum að Trump ætli að nota ferðalag sitt til að beina athyglinni frá rugli og uppákomum síðustu viku.
Vonandi þó ekki með því að hleypa öllu upp í loft í þeirri miklu púðurtunnu, sem Miðausturlönd eru.
Fyrsta utanlandsferð Trump | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.