Bretar hernema íslenska tungu án þess að lyfta litla fingri.

Nú er svo komið, að fólk verður að vera viðbúið því að geta ekki haft samband við sum af dýrustu hótelum í Reykjavík nema tala ensku.

Sjá menn það fyrir sér að ekki sé töluð franska og ekki þýska í móttökum hótela í Frakklandi og Þýskalandi?

Íslenskan er ekki aðeins íslenska. Þetta er grunntungumál skandinavísku málanna. Hið norræna mál hefur lagt enskunni og fleiri tungumálum til mörg orð og heiti, sem þekkt eru um allan heim.

Saga, geysir, Hekla, Eyjafjallajökull. Ekki "The Glacier of the Islands." 

Bretar hernámu Ísland 1940 gegn mótmælum íslensku ríkisstjórnarinnar.

Nú eru það Íslendingar sjálfir sem standa að aðför þjóðtungu Breta að þjóðtungu okkar og hernáminu nýja, sem blasir við og glymur í eyrum.

10. maí hernámu Bretar litla flugvöllinn sem þá var kominn í Vatnsmýri og einnig flugvallarstæðið í Kaldaðarnesi. 

Nú blasir nýtt breskt hernám við skýrum stöfum á Reykjavíkurflugvelli.

Svo algert er þetta hernám, að Íslendingar hernema líka erlend heiti og orð á öðrumm þjóðtungum en ensku.

Þulur í útvarpi kallaði efsta liðið í spænsku knattspyrnunni nýlega "Ríl Madrid".

Já, meira að sagja Spánverjar eru ekki óhultir fyrir hinni barnalegu dýrkun okkar á enskri tungu, sem þó er ekki betur heppnuð en svo að útvarpsþulir segja "Svansí" og "Norrvidds", rétt eins og að "Aggureri" sé ekki nóg. 

Eða "Turin" í staðinn fyrir Torino og "Súrig" í staðinn "Zurich" með réttum framburði. (Það vantar tvöfaldu kommuna á tölvunni minni)

Á tímum einveldis Danakonungs á Íslandi fengu íslenskar stofnanir og flest fyrirtæki þó að heita íslenskum nöfnum.

Höfuðrit þess tíma, Biblían, var á íslensku.

En nú eru biblíurnar í mörgum fræðigreinum og handbókum orðnar enskar og það þarf að ganga langar vegalengdir til að finna íslensk heiti við götur eins og Laugaveg.

Í Noregi fékk innanlandsflugfélag að heita Viderö, í stað þess að síðari hluta nafnsins væri breytt í "island."  

Loftleiðir héldu sínu íslenska nafni við þótt það flugfélag héti líka Icelandic Airlines á erlendum vettvangi, og það var enginn feiminn við að hótel félagsins héti Hótel Loftleiðir. 

Ég skora á eigendur Flugfélags Íslands og sýna viðleitni, þótt ekki væri nema aðeins þá að lofa nafninu Flugfélag Íslands að vera með, samhliða hinu nýja nafni á erlendum vettvangi, svipað og nafnið Loftleiðir fékk á sínum tíma. 

Í hinum fræga bardaga Muhammads Ali og George Foreman í Kinshasha hrópuðu innfæddir: "Ali, boma je!"

Ali var þeirra maður og krafan var að hann gengi frá Foreman og sú krafa hljómaði á tungu Kongóbúa.

"Nú er nóg komið!" mætti verið herópið núna. Ekki: "Enough is enough!"

Það grátlega við samtíma okkar er, að við sjálfir Íslendingar reynumst vera einfærir um að ráðast að íslenskri náttúru og tungu. 

Og það er ekki nýtt. Fjölnismenn voru ekki einir í að verja þjóðtunguna. 

Danskur maður, Rasmus Kristján Rask, átti stóran þátt í að verjast því að danska gengi að íslenskunni dauðri. Breskir menn, Watson og Scott, gengust fyrir því að bjarga íslenska hundinum og bjarga Þjórsárverum. 

Enskur maður forðaði Jóni Sigurðssyni frá gjaldþroti. 

Grát, ástkæra fósturmold! 


mbl.is Mímir mótmælir nafninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar. Um daginn var rússneska myndin Leviatan sýnd á RÚV. Þulur bar heitið fram upp á ensku, L. er reyndar úr Gamla testamentinu. Þulur rásar 1 reyndi sitt besta til að bera fram eftirnafn norska höf. Anne B. Ragde fram upp á ensku, í auglýsingu á nýrri bók hennar. Kannski vissi stúlkan ekki að þetta væri norrænn höf. - og þá fer í gang ósjálfrátt viðbragð að bera öll útlend nöfn fram upp á ensku.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 26.5.2017 kl. 11:54

2 identicon

"Tvöfalda komman" heitir "diaeresis" á ensku og samanstendur af tveimur púnktum.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 26.5.2017 kl. 13:27

3 identicon

Edit: Punktur, ekki púnktur.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 26.5.2017 kl. 13:28

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki nýtt að fyrirtæki heiti erlendum nöfnum hér á Íslandi, til að mynda verslanirnar Hamborg, Edinborg, Glasgow og London hér í Reykjavík.

Þorsteinn Briem, 26.5.2017 kl. 18:21

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Punktur og púnktur.

"Halldór Laxness notaði sína eigin stafsetningu:
ritaði grannan samhljóða á undan ng og nk, s.s. lángur í stað langur og bánki í stað banki, ritaði einfaldan samhljóða á undan öðrum samhljóða, s.s. mentun í stað menntun, og smáorð og samteningar í einu orði s.s. einsog, afhverju og þaðanafsíður.

Þetta fór fyrir brjóstið á mörgum. Var á sínum tíma gerð samþykkt um að Laxness kynni ekki íslensku og var auk þess kærður fyrir að nota nútímastafsetningu í útgáfu íslenskra fornrita.

Í Vettvángi dagsins segir hann hins vegar: „Ég hneigist að hagfeldri stafsetníngu sem ákvarðast í fyrsta lagi af framburði hins lifandi máls einsog það þykir fegurst talað, en hefur jafnframt hliðsjón bæði af orðauppruna og venju.“"

(Tryggvi Gíslason fyrrverandi skólameistari Menntaskólans á Akureyri.)

Þorsteinn Briem, 26.5.2017 kl. 18:42

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íslenskar gæsalappir eru ekki til.

Íslenskur punktur er heldur ekki til.

Þorsteinn Briem, 26.5.2017 kl. 18:49

7 identicon

Tvöfalda komman fæst með því að ýta á Alt og 129 = ü.

Íslenskar gæsalappir  koma „sjálfkrafa“ef Word er stillt á Icelandic. Það er trúlega ekki hægt í svona kommentakerfi, þar sem allt er miðað við ensku. 

Ég kom þessu orði; „sjálfkrafa" að með því að skrifa það á Word skjal og nota síðan copy - paste.

Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 26.5.2017 kl. 19:20

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Búinn að reyna þetta á tölvunni minni og ekkert gerist. 

Ómar Ragnarsson, 26.5.2017 kl. 23:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband