Varasöm leið til að gera "America great again."

Frá lokum Seinni heimsstyrjaldarinnar hafa Þjóðverjar kappkostað að tryggja, að skelfilegar afleiðingar hernaðar- og valdahyggju fyrstu áratugi síðustu aldar endurtaki sig. 

Í staðinn hafa þeir lagt áherslu á uppbyggingu lýðræðislegs og frjálslynds en þó agaðs þjóðfélags. 

En Donald Trump hagar sér eins og heimtufrekur og öfundsjúkur krakki og hrópar: "Þjóðverjar eru slæmir, mjög slæmir." 

En dæmið sem hann tekur um hina vondu Þjóðverja er afar illa valið; það að "Þjóðverjar moki milljónum bíla inn í Bandaríkin". 

Trump talar um þetta eins og að hér séu brögð í tafli, eins konar undirboð. 

En meginástæðan er allt önnur: Þýsku bílarnir sem Kanarnir keppast við að kaupa eru nefnilega dýrir og kvartað yfir því í bandarískum bílablöðum. 

Ástæðan fyrir því að þeir eru samt svona vinsælir vestra er einfaldasta ástæða viðskipta: 

Þeir eru betri, betur hannaðir, betur gerðir, nýtískulegri, vandaðri, traustari og endingarbetri en amerísku bílarnir. 

Ef þeir væru það ekki myndu þeir auðvitað ekki seljast og ef þeir væru ekki betri myndu Þjóðverjar ekki getað grætt á því að selja þá svona dýrt.

Trump hamrar á nauðsyn þess að gera "America great again."

Og það var Ameríka fyrir 60 árum. Þá framleiddu Bandaríkjamenn fleiri bíla en allar aðrar þjóðir heims samanlagt. 

 Í öllum sérfræðiritum um bíla, sem ég hef lesið, ber mönnum saman um, að þá hafi amerísku bílarnir verið vandaðir, í forystu í tækni og hönnun,traustir og endingargóðir.

Cadillac var "Standard of the world", ekki Benz. 

Lögð var alúð við smáatriðin, misfellulausa samsetningu, dyrnar voru þéttar og hurðir féllu hljóðlega að stöfum,gírstengur runnu ljúflega í gírana og öll stjórntæki virkuðu vel. 

Vökvastýri og aflhemlar gerðu stjórnun auðvelda og Chevrolet "small block" 265 kúbika V-8 vélin, sem kom á markað 1954, er talin ein af tíu merkustu bílvélum allra tíma.

En neyslusprengjan, sem speglaðist í unglinga- og rokkbyltingunni, ærði bílaiðnaðinn.

1956 gerði Chrysler magnaða atlögu að GM og Ford með stórum og næstum því vængjuðum bílum þar sem útlitið og öfgafull tíska voru aðalatriðið, en gæðin sátu á hakanum, einkum vegna þess að menn flýttu sér um of til að "hafa frumkvæðið."

Hestaflakapphlaup byggt á næstum ókeypis bensíni, sem fékkst að miklu leyti með því að arðræna Arabaþjóðirnar, hin nýju olíulönd, setti allt á annan endann.

Svarið 1960 við innfluttum Volkswagen og Renault, sem þrátt fyrir tolla seldust vel,fólst meðal annars í smíði Ford Falcon, sem var smíðaður með þeirri forsendu að endast ekki nema í tvö til þrjú ár.

Í framhaldi af þessu sóttu sigruðu þjóðirnar í heimsstyrjöldinni, Japanir og Þjóðverjar, inn á Ameríkumarkaðinn með bíla, þar sem hagkvæmni, véltækni, ending og vöruvöndun voru aðalatriðin.  

Það eru afkomendur þessara bíla sem hafa valdið því að veldi Ameríku í bílasmíði í heiminum hrundi að miklu leyti, vegna grunnatriðis markaðskerfisins og frjálsra viðskipta, sem er: Betri vara. 

En Trump málar skrattann á vegginn,og í staðinn fyrir að beita sér fyrir því að Bandaríkjamenn taki sig saman í andlitinu og fari aftur að framleiða bestu bíla í heimi, heimtar hann höft og bönn og virðist ætla að takast að þröngva Þjóðverjum til að fara að byggja upp her og herveldi. 

Trump ætti frekar að snúa sér að umvöndunum í garð Þjóðverja vegna einstrengingslegrar stefnu þeirra gagnvart Grikkjum og fleiri þjóðum, en í þeim efnum mættu Þjóðverjar taka sér tak.  

En hann veit sennilega ekkert í sinn haus um það. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Trump hefur einmitt ekki tekist að þröngva Þjóðverjum til að auka útgjöld til hermála.

Þorsteinn Briem, 29.5.2017 kl. 02:58

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Það er einmitt fjáraustur bandaríkjanna í friðarbandalag NATO sem gerði Þjóðverjum kleift að leggja áherslu á "uppbyggingu lýðræðislegs og frjálslynds en þó agaðs þjóðfélags". þeir gátu bara hallað sér aftur í sófanum og notið þægindanna. Flottu bílarnir sem Kaninn kaupir eru svo að kyrkja evruna og þ.a.l. alla Suður Evrópu.

Og nú er Merkel í fýlu því Trump ætlast til að Þjóðverjar taki þátt í friðar kostnaði Evrópu.

Ragnhildur Kolka, 29.5.2017 kl. 12:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband