29.5.2017 | 12:55
Var býflugan á Sauðárflugvelli laumufarþegi?
Í flugferð til Sauðárflugvallar á Brúaröræfum í fyrradag var margt að sjá og flest óvenjulegt.
Það var 13 stiga hiti á vellinum, sól í heiði og hlý suðvestangola.
Ég skildi því flugvélina eftir opna á meðan ég að basla við að hefja eftirlits- og yfirferð yfir völlinn.
Þegar ég renndi við hjá vélinni til að kippa með mér einhverju til að narta í, brá svo við að stærðar býfluga flögraði við vinstri vænginn og hvarf.
Ég minntist þess að svipuð býfluga hafði verið á sveimi í Stórubót á Rangárvöllum þegar ég var að ferma vélina af þeim búnaði sem þarf í fyrstu ferð til Sauðárflugvallar eftir veturinn.
Datt mér því fyrst í hug að flugan hefði verið laumufarþegi norður og ætti ekki glæsilega framtíð á þessu gróðurlitla svæði 60 kílómetra frá byggð í 660 metra hæð yfir sjávarmáli, jafnvel þótt sumarið sé svo sannarlega komið þarna mánuði fyrr en venjulega.
Að vísu er gróðurvin, svonefndar Kvíslar, aðeins kílómetra norður af vellinum með það miklum gróðri, að eitthvað ætti flugan að geta naslað í þar.
En í samtali við Völund Jóhannesson, sem stundar garðrækt í Grágæsadal, um átta kílómetra vestur af Sauðárflugvelli, sagði hann að þar væru býflugur að staðaldri.
Myndirnar hér á síðunni eru frá ferðalaginu í fyrradag.
Snæfell í baksýn á efst, síðan loftmynd úr norðaustri yfir flugvallarstæðið og autt hálendið allt til Kverkfjalla og Brúarjökuls.
Einstök tenging við náttúruna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
In the highlands Ómar works,
a small helper with him lurks,
takes no fee,
a busy bee,
these two new friends are no jerks.
Þorsteinn Briem, 29.5.2017 kl. 14:00
Hvernig er það með þig Ómar, vantar í þig öldrunargenið?
Hörður Þormar, 29.5.2017 kl. 15:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.