1.6.2017 | 00:31
Stærsta kynslóðastökkið núna?
Sem öldungur er áhugavert að horfa til baka á þær tvær kynslóðir sem liggja eftir fólk á mínum aldri. Sjálfur tilheyri ég síðasta árgangi þeirra sem lagt var í á krepputímanum og telst kannski helst til elstu meðlima rokk-kynslóðarinnar.
Við vorum mörg í sveit á sumrin, unnum láglaunastörf með skóla og fórum að búa við fyrsta tækifæri.
Við töldumst ekki beint til 68-kynslóðarinnar en vorum í sæmilega tengslum við hana.
Sú kynslóð var enn uppreisnargjarnari og villtari en nokkur önnur kynslóð 20. aldarinar, en í textanum "Frelsi" sem Mánar fluttu, reyni ég að lýsa hugsunarhætti hippaáranna, en þó með fyrirvörum þess sem var aðeins eldri.
Við áttum flest börn okkar snemma og það var "baby-boom" í þeim efnum.
Börnin urðu fullorðin og festu ráð sitt og fimm þeirra byrjuðu að búa á árunum 1980-1995 en það yngsta rúmlega áratug eftir það.
Falla því flest undir X-kynslóðina.
Barnabörnin komu síðan á árunum 1983-2010 og það er hægt að nefna þá kynslóð sófakynslóðina eða kannski öllu fremur netheimakynslóðina.
Það er löngu liðin tíð að kaupstaðabörn séu í sveit á sumrin og verkamannavinna með handafli hvarf upp úr 1960.
Kannski er að bresta á stærsta kynslóðastökkið síðan 68 kynslóðin fór hvað mestum hamförum.
Þekkingar- og reynsluheimur unga fólksins núna er að miklu leyti nýr, - netheimar hafa tekið að stórum hluta við mannheimum,- og upplýsingaöflun og menntun á nýju stigi.
Þessi kynslóð afabarna minna væri þegar búin að eiga á annan tug langafaberna ef hún hugsaði og hegðaði sér svipað og eldri kynslóðir.
En það segir sína sögu, að aðeins eitt langafabarn er komið, og það hjá dótturdóttur, sem er hvað aldur snertir inni í miðjum barnabarnahópnum.
Bræður mínir tveir stofnuðu fjölskyldur 16-17 ára og ein systir mín á níu börn.
En barnabörnin hafa snúið gömlu tímaröðinni við; fyrst er að mennta sig og klára háskólanám á þrítugsaldri, síðan að skoða heiminn og upplifa sem flest, en síðast á blaði er að stofna fjölskyldu og eignast eigið húsnæði.
Fæðingartölurnar sýna þetta stóra kynslóðastökk; frjósemin hefur aldrei verið minni en hjá þessari kynslóð, sem kalla mætti "sjálfukynslóðina", eða "the Selfies generation".
Myndin á síðunni, sem ég ætla að láta fljóta með, er smellt af sólarlaginu í kvöld, upplifuninni sem felst í því að fá að vera til og njóta þess sem maður fær að gjöf.
Bjartasti mánuður ársins, júní, er að ganga í garð.
Gróandi vorið gleðiríkt, -
glóandi hnöttur skær, -
ekkert sólarlag öðru líkt, -
unaður hreinn og tær.
Hvað varð um X-kynslóðina? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.