Að ráða vettvangnum og stjórna atburðarásinni.

Það er þekkt lögmál í hernaði og hvers kyns viðureignum og átökum að mikilvægt sé að stjórna atburðarásinni, ráða vettvangnum og nú með því frumkvæði, sem mótherjarnir þurfi að bregðast við.

Eitt afbrigði þessa er svonefnd smjörklípuaðferð sem Davíð Oddsson gaf þetta heiti á sinni tíð; þ.e. að aðili að heitu og mikilsverðu máli varpi fram einföldu smáatriði, sem vegna eðlis síns dregur alla athyglina frá meginmálinu. 

Allt frá valdatöku Adolfs Hitlers til 10. maí 1940 var það hann sem stjórnaði atburðarásinni og vettvangnum í viðskiptum sínum og inna Öxulveldanna við önnur stórveldi. 

Hann og Öxulveldin réðust inn í Rínarlönd, Eþíópíu, Mansjúríu, Kína, Austurríki, Súdetalönd, Tékkóslóvakíu, Albaníu, Pólland, Danmörku og Noreg. 

10. maí hóf Hitler sigurför sína um Niðurlönd og Frakkland, en varð ævareiður við að frétta það að Bretar hefðu sama dag hernumið Ísland.

Nú varð hann að bregðast við og gerði það samstundis með því að skipa Raeder yfirmanni sjóhersins að gera áætlun um að ná Íslandi af Bretum.  

Fram að því höfðu Vesturveldin ævinlega orðið að bregðast við því frumkvæði sem Öxulveldin höfðu, en varðandi Ísland snerist þetta við.

Donald Trump byggði sigurför sína síðastliðið haust á því að gæta þess að hafa ævinlega skýrt frumkvæði í kosningabaráttunni.

Við athugun á því eftir á hefur komið í ljós að hann fékk næstum tvöfalt meiri umfjöllun en keppinautarnir með því að tryggja sér "fyrstu frétt" sem oftast með stórkarlalegum og stundum glæfralegum yfirlýsingum.

Theresa May virtist hafa allt sem þurfti á dögunum til að halda því frumkvæði sem hún náði með óvæntri ákvörðun sinni um kosningar.

Hún gæti í framhaldinu stjórnað atburðarásinni og umræðuvettvangnum.

En síðan gerði hún tvöföld mistök á einu bretti:

1. Kom fram með yfirlýsingu varðandi kjör gamla fólksins án þess að hafa ráðfært sig nægilega við alla þá sem stóðu í kosningabaráttunni með henni.

2. Tók með því upp umræðuefni sem hefur verið klassískt eftirlætis mál allra krataflokka, þar sem þeir hafa kappkostað að gera þann málaflokk að sínum.  

Vængbrotnir kratar tóku því að sjálfsögðu fagnandi að hafa fengið með þessum aðal vettvangi að taka að sér að stjórna atburðarásinni í kosningabaráttunni og nú er jafnvel hugsanlegt að May geti tapað í þingkosningunum eftir viku. 

Þegar Halldór Ásgrímsson varð að láta af formennsku í Framsóknarflokknum og flokkurinn beið síðan mikinn kosningaósigur, var það skýrt dæmi um það, hvaða afleiðingar það geti haft að tapa frumkvæðinu og stjórn atburðarásarinnar. 

Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni tókst hins vegar meistaralega 2013 að gera sig og sinn flokk og stefnu hans í málefnum "hrægamma og vogunarsjóða" þar sem þjóðin gæti farið með allt að 700 milljarða króna frá borði, að miðpunkti allrar umræðu í kosningabaráttunni, vinna með því stórsigur og verða forsætisráðherra.

Besta dæmið varð yfirheyrslan yfir honum í sjónvarpi, þar sem fjölmiðlamennirnir, sem reyndu að sinna því höfuðhlutverki að fara ofan í saumana á stefnu Sigmundar, þurftu svo mikinn tíma til þess, að önnur kosningamálefni flokksins féllu algerlega í skuggann.   


mbl.is Tapar Theresa May meirihluta sínum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Merkel, Macron og Corbyn. Great Troika for Europe.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 3.6.2017 kl. 15:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband