"Þú átt að vera aftastur í röðinni!"

"Þú átt að vera aftastur í röðinni!" Þetta hrópaði bílstjóri nokkur á mig, sem reiddist svo af því að ég var á litla vélhjólinu mínu næst fremst við rautt umferðarljós í óralangri bílaröðinni, að hann opnaði bílstjóradyrnar til þess að koma í veg fyrir að ég kæmist áfram.

Ég reyndi að bregðast við þessum ofsafengnu viðbrögðum og sagði:  

"Ég sé ekki betur en að það sé bíll við bíl í bílaröðunum þremur, sem hingað ná vestan úr bæ og að ég taki ekki né hafi tekið pláss frá nokkrum bílstjóra." 

"Það skiptir ekki máli!" æpti hann, "þetta er helvítis frekja í þér!" 

"Alveg öfugt," svaraði ég. "Með því að vera á hjóli en ekki bíl, gef ég eftir svæði fyrir bíl í staðinn fyrir þann bíl, sem ég hefði annars verið á. Einn bíll í allri þessari hrúgu hér fyrir aftan okkur er í henni af því að ég er þar ekki á bíl.  Ef ég væri á bíl væri röðin einum bíl lengri.  Eða er einhver bættari með því að ég planti mér þannig niður á hjólinu að ég taki næstu jafn mikið pláss og bíll?"

Reiðisvipur bílstjórans breyttist í undrunarsvip þegar hann heyrði þetta, en hann hvæsti samt:

"Kjaftæði."

En það var ekki alveg sami þunginn í röddinni og áður.

Nú kom grænt ljós á götuvitanum og ég benti honum á það: "Það er komið grænt ljós og ætlarðu ekki að halda áfram?  Eða ætlarðu að stöðva alla fyrir aftan okkur?  Ég er ekki fyrir neinum, bara þú." 

"Þarna sérðu," sagði hann, "þú setur allt í uppnám hérna og átt að vera aftastur!" 

Svo skellti hann hurðinni og rauk af stað en varð síðan að snarhemla til þess að aka ekki aftan á þann bíl, sem var aftastur í röðinni fyrir framan okkur hinum megin við gatnamótin.

Ég skal fúslega játa, að áður en ég fór að kynnast því hvernig létt vélhjól eru notuð víða erlendis til þess að auka afkastagetu umferðarinnar, einkum í Suður-Evrópu, og áður en ég sjálfur fór að horfa á þetta af vélhjóli, hafði ég ekki hugsað þetta út frá þvi sjónarhorni, að hvert og eitt vespuhjól væri í raun að losa um pláss fyrir einn aukabíl.

En þegar horft er á umferðina, til dæmis í Róm eða jafnvel í Brussel, þar sem meira að segja er sérstakur málaður reitur fremst við umferðarljós ætlaður vélhjólum eingöngu, skilst, að án þessarar blönduðu umferðar myndu annars illviðráðanleg umferðarvandamál verða alveg óviðráðanleg.  

 

 

 

 

 


mbl.is Allt stappað á Miklubraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað veldur að við íslendingar erum svona ófélagslyndir án áfengis? Sendi link þar sem lesa má vitnisburð Skúla Mogensen forstjóra WOWair air mínum manni í dv.is

http://www.dv.is/folk/2017/6/5/skuli-mogensen-haettum-thessa-endalausa-neikvaedis-rofli/

Baldvin N.

B.N. (IP-tala skráð) 7.6.2017 kl. 00:04

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gæti best trúað að þetta hafi verið "Þorvaldur hinn síreiði S".

Þú ert heppinn að hafa sloppið lifandi frá þessum hremmingum, Ómar Ragnarsson.

Þorsteinn Briem, 7.6.2017 kl. 01:09

3 identicon

Þetta hefur verið Billi brjálaðiyell

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 7.6.2017 kl. 07:13

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta atvik er sem betur fer alger undantekning, en gerist af og til vegna þess að hér uppi á skerinu höfum við alltaf verið ansi langt á eftir öðrum þjóðum í að þróa umferðarmenningu, sem byggist á heildaryfirsýn, sem gagnast öllum.

Ómar Ragnarsson, 7.6.2017 kl. 08:21

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Íslendingar eiga langt í land með að temja sér almenna kurteisi eins og er svo áberandi í Bandaríkjunum. Þar brosa menn meira og bugta sig hver fyrir öðrum, sýna tillitssemi og háttvísi og vingjarnlegheit.Þó að þeir séu með jafnvel með 9 mm byssu innanklæða.  Mann hnykkir við þegar maður kemur aftur til Íslands hversu ruddaskapurinn er inngróinn í þjóðina.

En þetta hefur samt lagast á síðustu árum en er ekki nógu gott samt.

Halldór Jónsson, 7.6.2017 kl. 09:33

6 identicon

Íslendingar virðast líka vera voða gjarnir á að drífa sig eins fljótt og hægt er í biðröð sem er að myndast og verða fúlir þegar aðrir gera ekki það sama. T.d. þegar akgreinar eru að sameinast. Akgreinin tæmist kílómeter frá sameiningunni, fólk jafnvel stoppar og gefur stefnuljós inn í röðina með heillangan auðan kafla af vegi fyrir framan sig.

Bjarki (IP-tala skráð) 7.6.2017 kl. 10:38

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Að hluta til gerist þetta vegna þess að hér á landi skortir mjög á kunnáttu við það að aka í "tannhjóli" eða "rennilás" eins og það er kallað. 

Akreinarnar þrjár, sem taka við á vesturleið eftir að komið er yfir gatnamót Kringlumýrarbrautar eru gott dæmi um það að nýta eins og hægt er breiddina áður en þrjár akreinar renna saman í tvær og koma sem flestum bílum á grænu vestur yfir gatnamótin. 

Þegar rautt ljós kemur, nýtist annars glataður tími til þess að láta umferðina treinast hæfilega í vesturátt, - þar sameinast umferðin í "tannhjóli" eða "rennilás" á öruggan og skjótvirk hátt í öðrum löndum. 

En hér á landi eru margir þeirra, sem eru á vinstri akreininni ekki vissir með það að þeim verði hleypt inn á miðjuakreinina vegna þeirrar þráhyggju margra að þeir "eigi" rýmið fyrir framan sig. 

Þeir ökumenn virðast alls ekki vita eða ekki vilja vita hvað skáörin á ystu akrein þýðir, - en það er "bíll á móti bíl", hver bíll á innri akrein hleypir næstum sjálfvirkt einum bíl inn í röðina fyrir framan sig. 

Ómar Ragnarsson, 7.6.2017 kl. 10:47

8 identicon

Íslendingar eru upp til hópa  kurteisir og tillitssamir í umferðinni

en að sjálfsögðu fer í taugarnar á fólki troðningur og frekja fram fyrir röðina

sem sumir stunda óspart - alltaf

Grímur (IP-tala skráð) 7.6.2017 kl. 11:06

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar staðið er i biðröð við búðarborð tekur hver viðskiptavinur eitt pláss. 

Ef einn ryðst fram fyrir, færast hinir fyrir aftan hann aftur um eitt pláss og tapa tíma. 

Maður á litlu hjóli í því tilfelli og þeim aðstæðum, sem greint er frá hér á undan, tekur hins vegar ekki pláss frá neinum, eins og lýst er í pistlinum, heldur liðkar hann þvert á móti til með því að skapa pláss fyrir einn auka bíl í röðinni í stað bíls, sem hann hefði annars verið á. 

En fyrst Grímur minnist á biðraðir er rétt að geta þess, að ég hef það fyrir reglu, að ef ég er ekki nógu snöggur að svara þegar númerið mitt er kallað upp og annar með næsta númer fyrir ofan fer að afgreiðsluborðinu í staðinn, fer ég aftur að miðarúllunni og tek mér nýtt númer, þótt það kosti það að ég færist um mörg númer aftar í röðina. 

Ég tel að ég eigi að taka afleiðingunum af því að hafa ekki brugðist nógu skjótt við eða ekki heyrt í afgreiðslumanni. 

Það hefur virkað hvetjandi á þessi viðbrögð að eitt sinn bauð kona með stóra innkaupakörfu fulla af varningi, sem ég stóð fyrir aftan í röðinni, mér að fara fram fyrir sig af því að ég var bara með eina flösku í höndunum. 

Konan var númer eitt í röðinni á eftir vörpulegum manni, sem var með mikið í sinni körfu. 

Brá þá svo við að maðurinn reif sig upp og hvæsti til mín að ég skyldi ekkert vera að troða mér með frekju fram fyrir konuna. 

Ég benti honum á að ég hefði ekkert beðið um þetta heldur hefði konan boðið þetta að fyrra bragði. 

"Þið hafið ekkert leyfi til að breyta röðinni" sagði maðurinn. 

"Við erum ekki að breyta neinu fyrir þeim sem eru á eftir okkur," sagði þá konan. 

"Það skiptir ekki máli" ítrekaði maðurinn. "Vertu ekkert að bera í bætifláka fyrir hann. Þið eigið ekkert með það að breyta röðinni."  

Ég flýtti mér að fara aftur fyrir konuna á ný til að koma í veg fyrir frekari illindi. 

En um daginn varð kona nokkur, sem bauð mér það sama í sams konar tilfelli, mjög undrandi þegar ég vildi ekki þekkjast sams konar boð hennar. 

En allur er varinn góður. 

Ómar Ragnarsson, 7.6.2017 kl. 12:17

10 identicon

Bandarísk 9mm kurteisi.

Hábeinn (IP-tala skráð) 7.6.2017 kl. 12:19

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Vel svaraðir þú þeim freka (fyrstnefnda), Ómar! Geri þó ráð fyrir að rapport þitt hér sé svolítið editerað til að öll rökin njóti sín. wink

Annað dæmi um menningarleysi ýmissa hér heyrði ég í gær: Hér sé skemmdarfýsn alveg með ólíkindum, ekki vinnandi vegur að hafa almenningssíma úti við, þeir séu allir skemmdir og gerðir óvirkir hér í Reykjavík (á Akureyri sé ástandið mun skárra), og enn verri skemmdir hafi verið unnar á útiklósettum, m.a. uppi í Heiðmörk; þar voru þau til öryggis höfð úr sterkum mmálmi, en allt kom fyrir ekki, þeim bara rústað og öðru þar, og hefði þurft fíleflda karlmenn til að "fullkomna" verkið, eins og þó var gert, allt í rúst.

Og mikill ófögnuður er að veggjakroti vandræðamanna eða -unglinga hér.

Er þetta kannski uppeldisvandamál?

Jón Valur Jensson, 7.6.2017 kl. 15:11

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í hverfinu, sem ég bý í, virðast af og til ganga yfir öldur skemmdarverka óknyttaunglinga eins og komið hefur fram í fyrri pistlum hér á síðunni. 

Virðingu fyrir verðmættum og vinnuna að baki þeim virðist vera ábótavant. 

Ómar Ragnarsson, 7.6.2017 kl. 15:53

13 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Auðvelt að stoppa veggjakrot.

Taka veggjakrotara niður á Lækjartorg og raskella þá á beran afturendan fyrir framan Héraðsdóm, eftir klukkan 11 messu í Domkirkjuni á sunnudögum.

Svo má taka af þeim vegabréfin í 10 ár.

Hvað haldið þið; svona aðgerðir 

Jóhann Kristinsson, 7.6.2017 kl. 19:44

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Íhugunarverð tillaga frá Jóhanni hér.

Kannski bezt að kalla foreldra skemmdarverkamanna fyrir rétt, svo að þeir viti örugglega af því, fyrir hvað þeir verða dæmdir.

Við 3. brot mætti taka af þeim vegabréfin í 10 ár.

Jón Valur Jensson, 7.6.2017 kl. 23:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband