11.6.2017 | 13:24
Það er líka "suðvesturhorn" á Vestfjarðakjálkanum.
Það er lítið með það gert vegna þess að tveir þriðju hlutar þjóðarinnar búa á "suðvesturhorni" landsins, og það þykir fréttnæmt í norðlægum og norðaustulægum vindáttum, að besta veðrið sé þá á "suðvesturhorni landsins," að þá er svipað góðviðri á öðru "suðvesturhorni".
Það er suðvestur Vestfjarðakjálkans, og einnig verður að geta þess, að veðurspáin fyrir Breiðafjörð gildir oft ekki um alla strandlengju Breiðafjarðar, heldur Barðaströnd og Vesturbyggð sér á parti.
Gott dæmi um þetta er veðrið hér á Patreksfirði um þessa helgi, bjartviðri og sólskin.
Suðvesturhorn Vestfjarða nýtur nefnilega skjólsins af hálendi Vestfjarðakjálkans.
Til dæmis má nefna, að þegar allir flugvellir á norðanverðu landinu eru lokaðir í norðan stórhríð, er Bíldudalsflugvöllur eini flugvöllurinn á þessu svæði, sem er opinn.
Þess vegna myndi það skapa Vestfirðingum alþjóðaflugvöll sem væri opinn allan sólrhringinn ef slíkur völlur yrði gerður hér á Patreksfirði og frá honum góð heilsárstenging á landi til Ísafjarðar.
Læt hér fylgja með myndir frá hátíðarhöldunum í dag, en eftir eftirminnilega og hjartnæma messu með fjöldasöng frá hjarta allra kirkjugesta, var farið í skrúðgöngu og lagðir blómsveigar að þremur minnisvörðum hér.
Tengslin við hafið og lífsbjörg þess eru afar sterk og þess vegna bæði upplifun og sálarefling fólgin í því að koma hingað vestur og drekka í sig sögu genginni kynslóða og lífsbaráttu þeirra, sem skóp þjóðinni þann auð sem hún býr við.
Í kirkjunni og við samkomur hér vestra er ekki þurrð á tónlist og ljóðum fólks héðan, svo sem Jenna Jóns, Jóns úr Vör og Steingríms Sigfússonar.
Og ekki ónýtt þegar heil helgi umvefur söng og hljóðfæraslátt með þvílíku blíðviðri og hér ríkir þessa vordaga.
Afsakið að ein myndin birtist fyrir handvömm tvisvar hér á síðunni.
Besta veðrið á suðvesturhorninu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sumum finnst að flugvöllur við Hafnarfjörð yrði of dýr en þeir sömu sumir vilja alþjóðaflugvöll á Patreksfirði sem opinn yrði allan sólarhringinn.
Og kostnaður vegna flugvallarins væntanlega enginn frekar en til að mynda Reykjavíkurflugvallar.
Þorsteinn Briem, 11.6.2017 kl. 14:03
Aðeins þarf að lengja stutta norður-suðurbraut núverandi flugvallar á Patreksfirði til þess að hægt verði, eftir að blindflugi lýkur, að fljúga inn á hann í myrkri.
Það er aðeins verið að tala um að það sé hægt að nota flugvöllinn lengur á hverjum sólarhring en í aðeins fjórar stundir yfir háveturinn.
Á Norðurlandi eru þrír flugvellir sem þegar er hægt að nota á þann veg, á Austurlandi einn völlur og á Suðurlandi tveir, Vestmannaeyjaflugvöllur og Hornafjarðarflugvöllur.
Af hverju er það svona voðalegt að einn slíkur, sem þegar hefur verið lagður að hálfu leyti, verði líka nothæfur í myrkri?
Ómar Ragnarsson, 12.6.2017 kl. 00:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.