21.6.2017 | 07:15
Mývatnslykt af þessu fúski.
Ógilding starfsleyfis sjókvíaeldi regnbogasilungs í Ísafjarðardjúpi rímar ekki við stanslausan söng fiskeldismanna um að hér á landi sé alls staðar fylgt í hvívetna ströngustu kröfum "með besta fáanlega búnaði og aðferðum, sem þekkjast."
Þvert á móti koma aftur og aftur í ljós fúsk og yfirhilmingar líkt og gerðist við Mývatn varðandi frárennslismál og aðra aðför að vatninu og lífríki þess.
Það er ákveðin lykt sem gýs upp af fúski sem kenna má við Mývtan, enda er þetta fyrirbæri líka í gangi varðandi fleiri framkvæmdir, svosem línulagnir á svæðinu.
Að ekki sé talað um það, að enn hefur ekkert verið gefið út um það að Landsvirkjun ætli að hætta við að reisa 90 megavatta gufuaflsvirkjun skammt frá austurbakka vatnsins.
Þetta er svona alls staðar, þrátt fyrir viðleitni fólks, sem tók við gerðum hlut þeirra sem óðu fram með látum á fyrsta áratug aldarinnar með allt of stórar gufuaflsvirkjanir á Reykjanesskaganum.
Með því framferði voru hendur þeirra, sem reyna að vinna úr þessum vanda og eiga enga sök á því hvernig komið er, bundnar.
Nú hefur hulunni verið svipt af rányrkjunni og ógöngunum, sem fólust í gerð allt of stórra orkusölusamninga til allt of langs tíma.
Og fyrir næstum því tilviljun kom það upp fyrir tveimur mánuðum, að viðkomandi jarðvarmasvæði hafa á örfáum árum sigið um allt að 18 sentimetra og sjór farinn að ganga á land vestan við Grindavík þrátt fyrir staðfasta afneitun hjá HS orku.
Og orkufall um fimmtung til fjórðung staðreynd sem reynt hefur verið að þegja yfir.
Starfsleyfi sjókvíaeldis ógilt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hefðir þú haft fyrir því að lesa fréttina þá hefðir þú séð að ógilding starfsleyfis sjókvíaeldi regnbogasilungs í Ísafjarðardjúpi hefur ekkert með búnaði og aðferðir að gera. Og það er oft ákveðin lykt af fúski og fordómum sem gýs upp þegar þú skrifar.
Hábeinn (IP-tala skráð) 21.6.2017 kl. 09:20
Ég er að skrifa almennt um það sem er að gerast í fiskeldinu og í virkjanamálunum varðandi það þegar fullyrt er um allsherjar fullkomnun á því sviði hér á landi.
Tilefnið er hins vegar fréttin af ógildingu starfsleyfisins í Ísafjarðardjúpi en þú virðist telja þá ógildingu léttvæga.
Ómar Ragnarsson, 21.6.2017 kl. 16:12
Það er ekkert almennt við það að fullyrða að ógilding starfsleyfis sjókvíaeldis í Ísafjarðardjúpi sé vegna búnaðar eða aðferða.
Ég las fréttina, sem er meira en þú gerðir, og hvað mér finnst um hana kemur hvergi fram. Það er tilbúningur ómarktæks fúskara sem getur ekki þolað gagnrýni og telur sig þurfa að ráðast á alla sem benda honum á rangfærslur.
Hábeinn (IP-tala skráð) 21.6.2017 kl. 19:44
Athyglisverð greining á skrifum. Þegar ég skrifa athugasemdir er ég "að ráðast á alla, sem benda honum á rangfærslur."
Þegar Hábeinn skrifar er hann hins vegar alls ekki að ráðast á mig, heldur að benda góðlátlega á rangfærslur mínar.
Til dæmis þegar hann benti mér á þær "rangfærslur" mínar fyrir nokkrum dögum að malbikun flugvöllarins við Skaftafell væri sjálfsögð framkvæmd.
Hábeinn sagði að þvert á móti myndi þurfa stórtækt mat á umhverfisáhrifum.
Ég reyndi að svara þessu með þvi að segja frá þeirri staðreynd að flugbrautirnar hefðu verið merktar á náttúrugerðu vallarsvæði fyrir mörgum áratugum og að vegurinn sem lægi í boga umhverfis völlinn hefði á sínum tíma falið í sér miklu meira umrót, enda upphækkaður með þúsundum tonn að aðkeyrðri möl og síðar malbikaður.
Nú fær maður að heyra að þessi skrif mín skuli skoðast sem "árás" á hann.
Og væntanlega að það séu rangfærslur sem ég sagði um flugvöllinn og þjóðveginn.
Ómar Ragnarsson, 21.6.2017 kl. 20:01
Munurinn felst í því að þú ert að setja fram rangfærslur en ekki ég. Þú ert að fullyrða að sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi hafi misst starfsleyfi vegna búnaðar eða aðferða. Og bregst við með því að gera mér upp skoðanir, eins og þér er svo tamt þegar á rangfærslur þínar er bent.
Ég hef aldrei sagt að það þyrfti mat á umhverfisáhrifum á lagningu flugbrautar, hvað þá stórtækt mat á umhverfisáhrifum. Það er tilbúningur þinn. Ég spurði mann sem venjulega má ekki sjá hróflað við steinvölu hvort þyrfti umhverfismat í þjóðgarði þar sem malbika á flugbrautir og byggja flugskýli og þjónustumiðstöð. Spurði vegna þess að ég vissi að "umhverfisverndarsinninn" færi út í útúrsnúninga og bull til verndar sínu aðal áhugamáli. Spurði vitandi það að ef um flugtengda starfsemi er að ræða þá er honum sama um allt jarðrask og náttúruvernd.
Og hvort þjóðvegur hafi skaðað náttúruna meira en eitthvað annað skiptir engu máli og réttlætir ekki aðrar framkvæmdir. Síðasta eyðilegging getur ekki réttlætt þá næstu. Það er undarleg röksemdarfærsla frá manni sem telur sig náttúruverndarsinna.
Hábeinn (IP-tala skráð) 21.6.2017 kl. 22:43
Ég er farinn að halda að þessi ómerkingur sem kallar sig (af hræðslu við að vera heiðarlegur ?) "hábeinn" sé ekki bara fýlupoki að atvinnu, ruddi (hvernig er heimilislífið ?) og dóni, heldur einnig forpokaður heimskingi sem lifir í sínum eigin fýlupoka-og neikvæða heimi. - Mikið rosalega hlýtur honum að líða illa þessum vesaling sem þorir ekki að koma fram undir nafni. - Hefur þér, Ómar, ekki dottið í hug að blokkera svona spam-sjúkling sem nýtur þess að rægja þig persónulega og níða í sífellu ?
Már Elíson, 22.6.2017 kl. 10:38
Nafnleysingjarnir margir hverjir nota launsátrið til að koma samt inn aftur og aftur undir nýjum IP tölum. Orðalag og háttalag Hábeins er smám saman að líkjast meira og meira hegðun Hilmars nokkurs sem hvarf,- að minnsta kosti um hríð, - af blogginu, en skrifaði stanslaust um það að allt sem ég setti á bloggsíðu mína væri lygi og rangfærslur.
Þagði einu sinni, - þegar ég birti myndir af gögnunum, sem ég byggði á.
Ég hef hins vegar ekki tíma til að fara að grafa upp myndir og gögn um hvert einasta atriði, eins og til sæmis um það sem allir vita, sem hafa ekið hringveginn um Skaftafellsþjóðgarð, að upphleyptur malbikaður þjóðvegurinn liggur í hálfhring um hinn náttúrugerða flugvöll, sem hefur verið þar í marga áratugi.
Ómar Ragnarsson, 22.6.2017 kl. 15:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.