29.6.2017 | 07:59
Stórir áfangar fyrir litla þjóð.
Fyrir örþjóð eins og okkur skipta stórir áfangar á íþróttasviðinu miklu máli. Á hárréttum tíma þegar fullt sjálfstæði var fengið kom Evrópumeistaratitill Gunnars Huseby eins og hvalreki fyrir sjálfsvitund okkar og álit út á við 1946.
Albert Guðmundsson var einn besti knattspyrnumaður Evrópu á árunum þar á eftir.
1950 unnu íslenskir frjálsíþróttamenn einhvern fræknasta sigur íslenskrar íþróttasögu á EM í Brussel og unnu bæði Norðmenn og Dani í landskeppni árið eftir auk sigurs á Svíum í knattspyrnu sama dag.
Clausensbræður voru einsdæmi á heimsvísu.
Silfurmaðurinn Vilhjálmur Einarsson ljómaði frá 1956 fram yfir 1960.
Friðrik Ólafsson í fremstu röð skákmanna heims.
Áfram má nefna dæmin, mislöng leiftur, Ásgeir Sigurvinsson, Bjarni Friðriksson, Einar Vilhjálmsson, Jón Páll Sigmarsson, Jón Arnar Magnússon, Kristinn Björnsson, silfur í handbolta á Ólympíuleikum, Evrópumeistaratitlar í fimleikum kvenna og EM ævintýri landsliðanna í knattspyrnu.
Blönduð bardagalist og fimleikar og golf kvenna, - hvern hefði órað fyrir slíku fyrir rúmum áratug?
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur kyndil á loft í íþrótt þar sem andlega getan þarf ekki síður að vera á háu stigi en sú líkamlega.
Brautin er þyrnum stráð, kostar fórnir, æðruleysi gagnvart áföllum og blöndu af sjálfstraustir, hógværð og jafnvegi hugans þegar vel gengur.
Sannur meistari er aðeins sá sem kann að vinna úr áföllum.
Hvernig sem fer hjá Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur í dag er það stórviðburður á íslenskan mælikvarða hvar hún er stödd á þessum sumardegi. Til hamingju!
Ólafía skrifar söguna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Á hárréttum tíma þegar fullt sjálfstæði var fengið ..."
Ísland varð fullvalda og sjálfstætt ríki 1. desember 1918 og landið varð ekki sjálfstætt eða "sjálfstæðara" við að fá forseta í stað kóngs árið 1944, eins og hér hefur verið útskýrt mörgum sinnum.
Færeyjar og Grænland eru til að mynda hluti af danska ríkinu og því ekki sjálfstæð ríki.
Danmörk er í Evrópusambandinu en ekki Grænland og Færeyjar, sem eiga fulltrúa á danska þinginu.
En Danmörk hefur ekki afsalað sér sjálfstæði sínu með aðild að Evrópusambandinu, frekar en til að mynda Bretland, og ríkin geta sagt sig úr Evrópusambandinu, sem er ekki eitt ríki.
Bandarísku fylkin geta hins vegar ekki sagt sig úr Bandaríkjunum, enda eru þau eitt ríki þrátt fyrir nafnið, eins og til að mynda Sovétríkin, en þau voru leyst upp þannig að þau eru nú öll sjálfstæð ríki.
Og á næsta ári verða hátíðahöld á Íslandi vegna 100 ára sjálfstæðis landsins.
Þorsteinn Briem, 29.6.2017 kl. 13:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.