29.6.2017 | 13:16
Við ofurefli fjármagns, valda og aðstöðu að etja.
Það hefur háð íslenskri náttúruverndarhreyfingu alla tíð hve þau öfl, sem hagnast á því að ganga nærri náttúruauðlindunum, eru margfalt fjársterkari, valdameiri og með betri aðstöðu á alla lund.
Eftir harðvítuga Eyjabakkadeilu gekk hreyfingin nærri sér hvað snerti fjármagn og þrek, og þegar virkjana- og stóriðjuæðið var margfaldað með tveimur risavirkjunum, Kárahnjúkavirkjun og Hellisheiðarvirkjun og áformum um risaálver á Grundartanga, Bakka og í Helguvík, auk stórrar stækkunar álversins í Straumsvík, neyttu valdaöflin aflsmunar á alla lund til að þröngva fram mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöllum og rányrkju í sögu þjóðarinnar.
Nú er í gangi að tvöfalda raforkuframleiðsluna til 2025 svo að við framleiðum tíu sinnum meiri raforku en íslensk fyrirtæki og heimli þurfa.
Alla tíð hefur verið brýn nauðsyn að efla fjárhagslegan bakgrunn baráttunnar fyrir einstæðri náttúru landsins sem hefur síðustu árin opnað nýja möguleika fyrir lífskjarasókn þjóðarinnar.
Nýjar aðferðir og leiðir mega þó ekki verða á kostnað þeirrar náttúruverndarbaráttu, sem nú er háð af almennum félagasamtökum og þarfnast frekari styrks fjármagns og vinnu, heldur verður að efla breiða fylkingu þeirra, sem vilja láta til sín taka á þessum vettvangi.
Bent hefur verið á það, að vegna æðibunugangsins við ágengni gagnvart náttúruverðmætum á landi hafi íslensk náttúruverndarhreyfing orðið að beina mestöllum kröftum sínum í baráttu, sem endar niðri á fjörum landsins.
Verkefnin á landi fara vaxandi ef eitthvað er svo að þar veitir ekki af því að efla þá vinnu og auka það fjármagn sem þar er brýn þörf á.
Fyrirhugaður íslenskur sjóður virðist ætla að láta til sín taka varðandi nytjar sjávar og lífríkis vatnsfalla og á sér erlenda fyrirmynd.
Slá skjaldborg um íslenska náttúru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Ofurefli fjármagns." Hárrétt og ástandið fer versnandi.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 29.6.2017 kl. 16:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.