3.7.2017 | 06:56
Þegar Blönduvirkjun átti að "bjarga" Norðvesturlandi.
Íslendingar tóku kristnitrú árið 1000 og áltrú árið 1965. Í samræmi við síðari trúna var það hald manna í kringum 1980 að með Blönduvirkjun myndi verða hægt að "bjarga" Norðvesturlandi, það er, að sú virkjun myndi skapa fólksfjölgun á Norðvesturlandi.
Virkjunarframkvæmdunum fylgdi uppgangstími í nokkur ár. Allir sem áttu vörubíla eða gröfur voru meðmæltir virkjuninni og nýttu sér aðstöðu sína.
Fasteignaverð hækkaði á svæðinu um hríð og þeir sem vildu selja, gátu gert það og flutt í burtu. Sem þeir gerðu margir.
En það gleymdist í allri skammgræðginni, að enda þótt virkjunarframkvæmdirnar sköpuðu ákveðinn fjölda starfa, urðu jafnmargir atvinnulausir þegar framkvæmdunum lauk.
Á meðan allt snerist í kringum framkvæmdirnar ruddi það hugmyndum um "eitthvað annað" í burtu og þegar búið var að nýta sér hinn skammvinna uppgang, fór í hönd lengsta og mesta fólksfækkunarskeið í sögu fjórðungsins.
Nú er svipað að gerast hinum megin við Húnaflóann. Í Árneshreppi sjá menn fram á 3-4 ára uppgangstíma á meðan Hvalárvirkjun verður reist.
Eigendur virkjanajarðanna, vörubíla og grafa munu hagnast og einfasa rafmagn víkja þar sem það er enn.
Munnleg loforð virkjanamanna um að hjálpa til við nokkur atriði á svæðinu svo sem lagfæringar á sundlaug og höfn, nægja.
Þegar allt dettur í dúnalogn eftir framkvæmdaárin mun virkjunin hins vegar ekki skapa eitt einasta starf á svæðinu.
Nettótekjur sveitarfélagsins munu aukast um 15 milljónir króna á ári, sem er álíka upphæð og borguð er fyrir tvö störf.
En niðurstaða ótal ráðstefna um byggðamál er sú að ein staðreynd ræður mestu um líf eða dauða byggðarlaga: Fjöldi kvenna á barneignaaldri.
Þær eru tvær í Árneshreppi.
Á málþingi í hreppnum kom fram að stofnun þjóðgarða laðar að sér konur á barneignaaldri.
Af 15 föstum starfsmönnum Vatnajökulsþjóðgarðs eru 9 konur, nær allar á þeim aldri.
Af 50 sumarvinnustarfsmönnum eru um 70% konur, nær allar á barneignaaldri.
En það virðist ekki ætla að ráða í Árneshreppi, heldur hugarfarið "take the money and run!", skítt með framtíðina.
Á málþinginu töldu virkjanamenn virkjun og þjóðgarð geta farið vel saman og fullyrtu að það tíðkaðist erlendis að virkja í þjóðgörðum.
Eftir ferð mína í 30 þjóðgarða og 18 virkjanasvæði í sjö löndum er ljóst að það er alrangt, þótt það finnist tvær virkjanir við jaðar þjóðgarða, sem voru reistar fyrir 100 árum þegar önnur viðhorf ríktu.
Norðmenn lýstu því yfir 2002 að tími stórra vatnsaflsvirkjana væri liðinn þar í landi, enda þótt vel virkjanlegt vatnsafl væri að magni til jafn mikið og hér á landi.
En hér lifir áltrúin enn góðu lífi hjá þeim sem ætla að reisa álver við austanverðan Húnaflóa og hafa hamast við að kaupa upp allar jarðir með virkjanamöguleika í fjórðungnum.
Stöðugt fjölgar á höfuðborgarsvæðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
mikil er viska ómars 1. hvað mikkið af starfsmönum vatnajökulsþjóðhars er með lögheimili nálægt þjóðgarðinum. 2. er þá stefna ómars að hrekja þessar 2 konur úr hreppnum. er þettað ekki tilraunarinnar virði. eflaust géta eingeyíngar stofnað þarna tölvuver á kosnað ríkisins ef þarf aðleggja línu hvort sem er er hægt að koma góðu tölvusambandi í hreppin sem mögulega skapar störf 3. blönduvirkjun er varla fullnýtt í dag er það ekki sóun á fjármagni. skilst að ef það á að nýtast í heraði yrði að leggla rafmagskappal um svæðið sem er víst ekki vinsælt á sumum bæjum í heraði.4. nú virðast normenn vera að skipta um skoðun ef marka má hugsanlega afnáms rammaáætlunar í noregi
kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 3.7.2017 kl. 08:36
Það gerðist samt margt jákvætt við Blönduvirkjun. Blanda er miklu skemmtilegra vatnsfall og fiskarnir hafa það miklu betra að ekki sé talað um veiðimenn. Svipaða sögu er að segja uppi á heiði. Þar er mun fallegra um að litast fyrir minn smekk. Þetta er svo sem svipað og með Þjórsá, þar hafa landkostir batnað mikið eftir að virkjanir komu í Þjórsá og Tungnaá. Gífurleg þrepahlaup og grunnstingulsstíflur heyra sögunni til og landsskemmdir eru úr sögunni. Aðstaða hefur stórbatnað fyrir lax og silung. Virkjanir geta sem sé haft fullt af jákvæðum áhrifum, jafnt fyrir fólk og umhverfi.
Sverrir Hjaltason (IP-tala skráð) 3.7.2017 kl. 10:35
Virkjun með ekkert nýtt starf í hreppnum er sem sagt það besta sem konurnar tvær geta fengið.
Ómar Ragnarsson, 4.7.2017 kl. 00:18
var ómar ekki að skrifa um að skattékjur virkjunarinar séu ygildi 2. launamanna það væri hugsanlega hægt að borga konunum til þess að vera í hreppnum. .ó þær hafi ekki beinar tekjur af virkjuninni.
kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 5.7.2017 kl. 08:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.