24.7.2017 | 18:45
Vafasöm mynd af Lagarfljóti.
Með frétt um veðurblíðu á Austurlandi er birt gömul mynd af Lagarfljóti frá þeim tíma þegar fljótið var bláleitt, áður en brúnleitum aurnum úr Jökulsá á Dal var veitt í Jökulsá í Fljótsdal.
Það kann að sýnast smáatriði, en að mörgu leyti er óheppilegt að birt sé mynd af vatninu með lit, sem hefur ekki verið á því í áratug.
Það kann að fá einhverja til að halda að fljótið sé svona áfram og að engin áhrif hafi orðið við að veita úr Jökulsá á Dal austur yfir.
Það kann líka að virðast óþægilegt fyrir þá sem töldu litabreytinguna til bóta.
Í heimildamynd, sem Landsvirkjun lét gera um Kárahnjúkavirkjun, var þess getið að umdeild litabreyting hefði orðið á Leginum og Lagarfljóti.
Til þess að heyra nánar um þetta var rætt við mann, sem greinilega var hlynntur virkjuninni, því að hann sagði litabreytinguna til bóta, - nú minnti liturinn á á Lagarfljóti á brúna glæsidís á sólarströnd!
Hann var heppinn að spyrjandinn spurði hann ekki hvort liturinn væri kannski líkari því sem blasti við þegar litið væri ofan í klósettið eftir linar hægðir.
Þess má geta að þegar ég fór í ferð mína í Jaspers- og Banffþjóðgarðana í Klettafjöllunum hlakkaði ég mikið til að sjá hið rómaða Lovísuvatn (Lake Louise) sem varð frægt fyrir hinn undurfagra og einstaka bláleita lit sinn. Fyrstu landnemarnir höfðu aldrei áður sé nákvæmlega svona lit.
Þegar ég kom að vatninu og sá litinn á því datt upp úr mér: "Hvað, þetta er bara eins og Lögurinn!"
En þetta var áður en litinum á Leginum var breytt, - og viðmælandinn í heimildamyndinni um Kárahnjúkavirkjun hefði sennilega líka orðið fyrir vonbrigðum og sagt: "Hvað, þetta er ferlega ljótt, svipað og Lögurinn var áður en hann hann varð eins og sólbrún glæsidis!"
Og ef þessi viðmælandi sér myndina í tengdri frétt, yrði hann sennilega sár yfir því að birta mynd af vatninu svona ljótu.
Hlýjasti dagur ársins á laugardag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
20.3.2013:
"Aðspurð hvort hún sé ennþá ánægð með Kárahnjúkavirkjun og þær ákvarðanir sem hún tók sem iðnaðarráðherra á sínum tíma segir Valgerður Sverrisdóttir:
"Ég ætla ekki að svara því, er löngu hætt í pólitík."
Valgerður var þingmaður Framsóknarflokksins á árunum 1987-2009, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1999-2006, utanríkisráðherra 2006-2007 og formaður Framsóknarflokksins 2008-2009."
Valgerður Sverrisdóttir: "Ég ætla ekki að svara því, er löngu hætt í pólitík"
Þorsteinn Briem, 24.7.2017 kl. 19:19
"Umbi: Sona margar kökur hef ég aldrei séð í einu. Hafið þér búið til allar þessar kökur?
Konan: Hver annar sosum? Enda kallar það mig Hnallþóru hérna.
Umbi: Sérkennilegt nafn.
Frk. Hnallþóra: Ætli því hérna þyki ég ekki handfjatla hnallinn í mortélinu nokkuð frekt."
Þorsteinn Briem, 24.7.2017 kl. 19:22
Framsóknar vá, gömul og grá,
gröð oft hún lá, sjöllunum hjá,
ástar þar þrá, engin var smá,
Óli kom þá, grísinn upp á.
Þorsteinn Briem, 24.7.2017 kl. 19:23
Þessi mynd sýnir ekki litinn sem var á Lagarfljóti fyrir virkjun. Myndin er tekin efst þar sem bergvatnsár koma í fljótið og þar var annar litur en aðeins neðar, auk þess sem þarna er lygnt og blár himininn speglast í vatninu.
Litur Lagarfljóts þótti aldrei fagur því hann var steingrár með bláma og bara dæmigerður litur fyrir flestar jökulár.
Það var aldrei farið í neinar grafgötur með það að litur fljótsins myndi breytast og þetta er því engin spádómsviska frá þér Ómar. Breyting úr köldum ljós-steingráum lit með bláma yfir í brúnleitan var engum harmur hér eystra svo ég viti til.
Virkjunarandstæðingar héldu því fram með fullyrðingum frá einhverjum "fræðingum" að loftslag myndi kólna á Héraði vegna viðbótarvatns frá Kárahnjúkum. Það reyndist tóm vitleysa eins og annað sem frá þeim kom.
Gunnar Th. Gunnarsson, 24.7.2017 kl. 23:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.