28.7.2017 | 18:08
Sigraði einhver í Dunkirk?
Þegar í ljós kom, að á fjórða hundrað þúsund hermenn, breskir og franskir, höfðu bjargast frá Dunkirk í júníbyrjun 1940, þótti það réttilega mikið afrek.
Sumir kölluðu þetta sigur, en Winston Churchill var raunsær, og sagði, að enda þótt óvænt og mikið afrek hefði falist í þessari miklu björgun sem bæri að þakka fyrir, ynnust styrjaldir ekki til langframa á flótta.
Herliðið varð að skilja eftir allan vopnabúnað sinn og vistir, og var það gríðarlegur missir fyrir Breta, ekki aðeins að hafa 300 þúsund manns vopnlausa, heldur einnig að færa Þjóðverjum þetta allt upp í hendurnar til afnota fyrir aðalverkefni þeirra, að leggja Frakka að velli.
Margt hefur verið skrafað og skrifað um Dunkirk, ekki aðeins flóttann mikla, heldur ekki síður um það að Hitler lét stöðva sóknina gegn breska "leiðangurshernum" í tvo dýrmæta daga.
Það hafi verið gróf mistök hjá honum og næsta óskiljanleg.
Við skoðun ótal gagna um málið má hins vegar sjá útskýringar.
Í fyrsta lagi snerist stríðið númer eitt um það að hefna fyrir úrslitin 1918. Forgangsröðin byggðist á því, úr því að svo fór að Vesturveldin "vildu stríð og fengju því allt það stríð sem þau vildu", að gjörsigra franska herinn.
Hitler hafði tekið áhættu með ákvörðunum sínum í Rínarlöndum 1936, með töku Austurríkis og Munchenarsamningunum 1938, töku Tékkóslóvakiu í mars 1939, innrásinni í Pólland 1939 með tilheyrandi veiklun herbúnaðar á vesturlandamærum Þýskalands á meðan og með innrás í Noreg og Danmörku 9. apríl 1939.
"Glæsilegasta herför allra tíma" sem hófst 10. maí 1940, hafði heppnast vonu framar og þýski herinn brunað á ótrúlegum hraða vestur að Atlantshafi og klofið með því "Breska leiðangursherinn" og lítinn hluta franska hersins frá franska hernum, svo að á fjórða hundrað þúsund hermenn voru innikróaðir á svæðinu við Dunkirk og höfðu ekki skotfæri og vistir nema til skamms tíma.
En hernaðarsagan geymdi mörg dæmi um það, að leiftursóknir með fleyg herliðs, sem sótti langt fram, gátu misheppnast ef fleygurinn var ekki nógu vel varinn til hliðanna.
Þegar litið er á kort af fleyg Þjóðverja, var hann orðinn mjög langur og virtist hættulega mjór.
Möguleiki var á því að Bretar og Frakkar gætu komið með krók á móti bragði og ráðist samtímis á hliðar fleygsins og klofið hann í tvennt.
Ef svo færi, myndi staðan breytast í andhverfu sína, fremsti hluti fleygs Þjóðverja yrði króaður af.
Guderian og fleiri töldu, að töf á árás á breska herliðið myndi gefa því dýrmætan tíma til að endurskipuleggja sig, og að nýta ætti tækifærið sem best með því að halda frumkvæðinu og stuðla að tímahraki, ringulreið og undrun bandamanna.
Raunar var örvinglan bandamanna alger. Samkvæmt fyrirfram gerðri áætlun sótti breski herinn fram inn í Belgíu til þess að mæta þýska hernum þar sem lengst inni í landinu, og beindi því sóknarmætti sínum í öfuga átt þegar hermenn og skriðdrekar sóknarfleygs Þjóðverja kom í bakið á þeim.
Eftir á að hyggja var það vafalaust rétt hjá Guderian og Rommel að upplausnin yrði þeim umum meiri hjá bandamönnum, sem sótt væri hraðar á þá, en Hitler óttaðist, að þýski herinn yrði að fórna of miklu í árásina á Breta, og betra væri að tryggja hann sem best, því að höfuðatriðið væri að hafa herinn sem sterkastan í forgangssókninni suður um Frakkland.
Með því að lágmarka tjón Þjóðverja og auka öryggi sóknarfleygsins, myndi hámarksárangur náðst með því kosta sem minnstu til að láta Breta gefast upp.
Á þessum tveimur dýrmætu dögum kyrrstöðunnar átti enginn von á því að hægt væri að bjarga nema hluta breska herliðsins yfir Ermasund.
Annað kom á daginn og Hitler missti af gullnu tækifæri til að ganga milli bols og höfuðs á mest öllu breska herlðinu.
Að vísu fékk hann upp í hendurnar allan herbúnað Bretanna, sem á móti misstu hann allan í óvindahendur, en sú ætlan Hitlers að Bretar myndu sjá sitt óvænna eftir fall Frakklands og semja frið reyndist gróf mistök í stöðumati.
Athugasemdir
Einn ganginn hér enn:
"Ermarsund" en ekki "Ermasund".
Þetta rugl með að sleppa "r" þar sem það á að vera í íslensku hefur nú tekið út yfir allan þjófabálk.
"Jarðarber" en ekki "jarðaber".
"Ermarsund er sund á milli meginlands Evrópu (Frakklands) og eyjunnar Stóra-Bretlands sem tengir Norðursjó við Atlantshaf.
Nafnið kemur úr frönsku, La Manche (Ermin)."
Þorsteinn Briem, 28.7.2017 kl. 19:02
Æi Steini, þegiðu nú einu sinni, montrassgat og besservisser. Eða er það kannski "bessevisser" - Meiri kjáninn.
Már Elíson, 28.7.2017 kl. 20:29
Hér eftir verðu hugað betur að því hvað fingurnir gera í innslættinum.
Ómar Ragnarsson, 28.7.2017 kl. 22:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.