15.8.2017 | 12:45
Lágmark að kunna íslensku í móttökunni.
Þeir sem starfa við móttökuna í hótelum og fyrirtækjum eru andlit fyrirtækjanna og oftast fyrsti og síðasti tengiliðurinn við gestina.
Það er hægt að deila endalaust um útbreiðslu enskunnar á kostnað annarra tungumála, en einhverjar lágmarkskröfur verður þó að gera varðandi það, að á lykilstöðum í hverju fyrirtæki sé manneskja sem talar tungumál landsins, sem fyrirtækið er í.
Það er að vísu mikið hagræði fólgið í því að sem flestir kunni það alþjóðlega tungumál, sem enskan er orðin, en stundum felst mismunun í því að þegar verið er að semja eða ræða um hluti, njóti annar aðilinn þess að enskan sé hans móðurmál, en hinn ekki.
Þannig þykir það sjálfsagt mál þegar leiðtogar þjóðríkja ræðast við um viðkvæm og erfið mál, að báðir tali móðurmál sitt, jafnvel þótt báðir kunni ensku, og að notaðir séu túlkar.
Að öðrum kosti standi þeir ekki jafnfætis, heldur geti annar aðilinn hagnast á aðstöðumuninum, og það sé ótækt þegar verið er að semja um mikilsverð mál og mikla hagsmuni.
Heyra má raddir um að vegna smæðar þjóðar okkar sé ekki hægt að gera sömu kröfur um notkun íslenskunnar hér og notkun á þjóðtungum margfalt fjölmennari ríkja.
Jafnvel talað um að því fyrr sem íslenskan sem tungumál sé lögð niður, því betra.
Einnig að það sé okkur fjötur um fót að þurfa að kunna fleiri tungumál en flestar aðrar þjóðir.
Þetta eru afar veik rök, svo ekki sé fastar kveðið að orði.
Þannig tala fleiri spænsku í heiminum en ensku, og meira en fjórum sinnum fleiri tala kínversku en ensku.
Ýmsar þjóðir þurfa að læra fleiri tungumál en Íslendingar, svo sem Svisslendingar, og ekki hafa verið færð að því rök að það hafi háð þeirri þjóð að neinu leyti.
Þjóð, sem skrifaði bókmenntir á fornri grundvallartungu norrænna mála og eignaðist Nóbelskáld, sem skrifaði verk sín á íslensku, þarf ekki að vera haldin minnimáttarkennd vegna þjóðtungu sinnar, heldur getur þvert á móti verið stolt af henni.
Brjálaður vegna skorts á þýsku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Þjóð, sem skrifaði bókmenntir á fornri grundvallartungu norrænna mála og eignaðist Nóbelskáld, sem skrifaði verk sín á íslensku, þarf ekki að vera haldin minnimáttarkennd vegna þjóðtungu sinnar, heldur getur þvert á móti verið stolt af henni." Vel mælt Ómar.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 15.8.2017 kl. 13:39
Takk. Það gera sér kannski ekki allir grein fyrir grundvallaratriðum sem kornungur Halldór Laxness setti fram í ljóðinu "Hallormsstaðaskógur".
Þar slær hann því föstu, að hann hann hafi tekið afdrifaríka ákvörðun:
"Héðan í frá er fortíð mín í ösku / en framtíð mín er norðurhvelsins ljóð. / Líkt og hjá pósti lokuð bréf í tösku / lýt ég Guðs forsjón eða heljarslóð. / Bros mitt er ljúft sem brennivín á flösku, - / ég býð þér dús, mín elskulega þjóð."
Hallormsstaðaskógur er eitt af lögunum á diskinum "Hjarta landsins - náttúran og þjóðin."
Ómar Ragnarsson, 15.8.2017 kl. 13:59
Ekki held ég að margir vilji leggja niður íslenskuna frekar en önnur tungumál og í íslensku er fjöldinn allur af nýyrðum sem notuð eru af bæði ungum og gömlum Íslendingum.
Í rússnesku er mýgrútur af orðum úr öðrum tungumálum en rússneskan er þó ekki að leggjast af sem tungumál frekar en þýskan.
Í ensku er aragrúi orða kominn úr frönsku og þaðan úr latínu.
Langflestir Íslendingar geta rætt við útlendinga á ensku, jafnvel tíu ára gömul börn, en fáir Íslendingar treysta sér til að segja mikið á dönsku, þrátt fyrir margra ára nám í því tungumáli.
Dönskuslettur í íslensku voru hins vegar mun algengari en enskuslettur eru nú.
Í móttökum gistihúsa og á veitingahúsum um allan heiminn eru oftast ekki flókin samskipti gesta við starfsfólkið og því ætti það ekki að vera í miklum vandræðum með að læra í nokkrum tungumálum algengustu setningarnar sem þar þarf að nota.
Þorsteinn Briem, 15.8.2017 kl. 14:28
29.12.1998:
"Orðin sem hún skráði sem dönskuslettur í íslensku voru 3.500.
Úir og grúir af dönskuslettum í daglegu máli."
Hvað er dönskusletta og hvað íslenska?
Þorsteinn Briem, 15.8.2017 kl. 14:38
Hótel af betri sortinni leggja mikið uppúr að hafa íslendinga í móttökunni og ástæðan er einföld: útlendingar sem koma alla leiðina til Íslands vilja eiga í samskiptum við innfædda og gjörkunnuga. Þetta er alveg afskaplega mikilvægt atriði í "gestrisniiðnaðinum".
Lélegri hótel og gistiheimili ráða útlendinga vegna þess að þau tíma ekki að borga mannsæmandi laun.
Anna (IP-tala skráð) 15.8.2017 kl. 15:01
Það er einkum vegna Íslendinga sem hótel eiga að hafa íslenskumælandi fólk í móttöku. Íslendingar vilja tala móðurmálið á Íslandi og fjölmargir hafa ekki vald á erlendu tungumáli. Ekki kunnu foreldrar mínir tungumál annara þjóða. Hinsvegar skiptir það útlending, sem kann ekki orð í íslensku, engu máli hvort sá sem stamar ensku í móttöku sé Íslendingur, Pólverji eða Grænlendingur. Þegar ég fer á hótel eða á veitingastað í Frakklandi er það ósk mín að hitta ekki Frakka, sem geta verið mjög leiðinlegir og í Grikklandi fæ ég bestu þjónustu hjá Albönum.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 15.8.2017 kl. 16:52
Í Menntaskólanum í Hamrahlíð lærði ég ensku, þýsku, frönsku, spænsku, ítölsku og rússnesku en í Menntaskólanum á Akureyri dönsku og var með 9 eða 10 í öllum þessum tungumálum.
Í sænskum háskóla tók ég próf í sænsku, í Eistlandi lærði ég eistnesku og hér í Búdapest er ég að læra ungversku.
Menn eiga að kappkosta að læra sem flest tungumál og nota sem mest öll tungumál sem þeir læra.
Ég fer á sem flesta veitingastaði og reyni að kynnast þjónunum.
Þannig á ég marga vini á veitingahúsum úti um allar heimsins koppagrundir.
Indversku þjónarnir í Austur-Indía fjelaginu við Hverfisgötu eru frábærir en við tölum alltaf saman á ensku, enda er ég ekki eingöngu að panta mat og greiða fyrir hann þegar ég spjalla við þá.
Þorsteinn Briem, 15.8.2017 kl. 17:54
Ég varð mest hugsi yfir hraðri þróun síðustu misserin þegar ég þurfti tvívegis að ræða við móttökuna í einu af fínustu hótelunum í miðborginni og í bæði skiptin kunni viðkomandi ekki orð í íslensku.
Ómar Ragnarsson, 15.8.2017 kl. 20:37
Vinnufélagi minn var að koma af Vestfjörðum . Þar voru nokkrir veitingastaðir á leiðinni. Ekki í boði að tala íslensku til að panta mat !
JR (IP-tala skráð) 16.8.2017 kl. 13:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.