Gömul og úrelt sýn á störf kynjanna. Það er vitlaust gefið.

"Það er nefnilega vitlaust gefið" orti Steinn Steinarr á sinni tíð. Og þótt niðurstaða kannana geti verið réttar miðað við forsendurnar, geta þær samt verið rangar ef forsendurnar eru rangar. "Rusl inn - rusl út" hljóðar eitt af lögmálum útreikninga. 

"Karlar þræla, konur ekki" er fyrirsögn á bloggpistli þar sem lagt er út af nýrri könnun á vinnutíma fólks.

Forsendan, sem gefin er, er að þetta fólk "sé á vinnumarkaði", það er, þar sem greidd eru peningalaun og þau gefin upp til skatts.  

A þessu leiðir að í könnuninni eru heimilis-og uppeldisstörf kvenna ekki metin krónu eða vinnustundar virði, frekar en gert er í lífeyriskerfinu og felur hvort tveggja og þetta saman í sér grófa mismunun gagnvart þeim konum, sem átt hafa flest börn og komið flestum börnum á legg. 

Gamla dæmið um bóndann og ráðskonuna sýnir hve vitlaus og ósanngjörn þetta lífseiga vanmat er. 

Þegar byrjað var að reikna út hagvöxt og þjóðartekjur var þetta sáraeinfalda dæmi sett fram til að sýna ágalla útreikinganna:

Einhleypur bóndi ræður til sín ráðskonu og borgar henni laun. Þetta er fyrsta launaða starf konunnar og í þjóðhagsútreikningum er þeim bætt við þjóðartekjurnar og fyrir bragðið eykst hagvöxtur sem þessu nemur. Á pappírnum þarf bóndinn að afla tekna til þess að geta borgað kouninni þessi laun. 

Nú fella bóndinn og unga konan hugi saman og tveimur árum síðar giftast þau eftir að hún hefur eignast fyrsta barn þeirra. Hún hættir ekki að vinna við það, - heldur eykst vinnan, því að við hin hefðbundnu bústörf bætast vaxandi heimilisstörf og ný uppeldisstörf.

En við það að hún hætti að taka laun sem kaupakona verður sá missir útborgaðra launa til þess að þjóðartekjur og hagvöxtur hafa minnkað sem því nemur hvað hana snertir.

Og á pappírnum sparar bóndinn sér útgjöld og tekjur hans hækka á pappírnum sem því nemur. 

Á pappírum þjóðhagsútreikninganna hverfur vinnuframlag konunnar og er ekki metið krónu virði. 

Að alhæfa að konur þræli ekki, aðeins karlar, er auk þess órökstutt. Ég þarf ekki annað en að ganga um stóru blokkina, sem ég bý í, á ákveðnum tíma sólarhringsins til að sjá í hverju störf stórs hluta kvenna felst, hreinsun og þrif, og vita, hver launakjörin eru.

Mesta skekkjan felst þó í því að lífsstarf barnflestu kvennanna varðandi uppeldi barna þeirra er að engu metið þegar kemur til lífeyrisgreiðslna.  

Já, það er vitlaust gefið. 

Þetta leiðir huga minn að því að sumir hafa misskilið hugsunina á bak við textann "Íslenska konan", talið hann upphefja og bera í bætifláka fyrir óbreytt ástand varðandi stöðu kynjanna. 

Einkum er þetta erindi að vefjast fyrir sumum: 

 

"Hún þraukaði hallæri, hungur og fár. 

Hún hjúkraði´og stritaði gleðisnauð ár. 

Hún enn í dag fórna sér endalaust má. 

Hún er íslenska konan, sem gefur þér allt sem hún á."

 

Fyrstu tvær línurnar lýsa stöðu íslensku konunnar á fyrri öldum, en í línunni, "Hún enn í dag fórna sér endalaust má..." felst ekki aðeins lýsing úr nútímanum, heldur brýning til þess að þeirri kvöð, sem felst orðunum í línunni og einkum í orðinu "..má.." verði aflétt. 

Það á ekki una við það að það sé annað kynið sem þurfi aðallega að fórna sér fyrir hitt. 

 

 


mbl.is Fleiri vinna 40 stundir í viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Þá bregður svo við nákvæmlega óbreytt starf hjá konunni verður launalaust, og við það minnka þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur sem því nemur!"

Enn og aftur kemur þú með þessa dellu, Ómar Ragnarsson.

Steini Briem, 12.8.2016

Þorsteinn Briem, 18.8.2017 kl. 14:42

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í Hlíð í Skíðadal, sem nú er í Dalvíkurbyggð, var margt manna, þar á meðal bræður tveir, frændur mínir.

Annar þeirra kvæntist þýskri konu, sem var á meðal margra þýskra kvenna sem fluttust hingað til Íslands eftir Seinni heimsstyrjöldina og unnu hér á sveitaheimilum margar hverjar.

Ef
afköst á þeim bæjum jukust við það á ári hverju gat landsframleiðslan aukist en það gat einnig þýtt minna vinnuálag eða -framlag hvers og eins á þeim bæjum, án þess að framleiðslan ykist.

Og afköst í sveitum landsins jukust eða minnkuðu að sjálfsögðu ekkert vegna þess eins að ráðskonur þar giftust húsbændum sínum.

Á þeim tíma var vélakostur mun minni og lélegri í sveitum landsins en nú er og afköst hvers og eins því mun minni á hverri klukkustund sem unnið var.

Heyi var þá oft snúið hér með hrífum og víða enn slegið með orfi og ljá utan túna, sem þá voru mun minni en nú.

Og nú eru konur sem giftar eru íslenskum bændum einnig kallaðar bændur, enda eru þær að sjálfsögðu einnig bændur.

Steini Briem, 17.1.2014

Þorsteinn Briem, 18.8.2017 kl. 14:45

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Landsframleiðsla er mælikvarði notaður í þjóðhagsreikningum á það hversu mikið er framleitt af tilbúnum vörum og þjónustu."

Þegar landsframleiðsla er reiknuð er ekki tekið tillit til þess sem framleitt er á heimilum til einkanota.

Landsframleiðsla


"Vöxtur þjóðarframleiðslu frá ári til árs nefnist hagvöxtur, mældur í prósentum, og þegar þjóðarframleiðsla dregst saman er talað um neikvæðan hagvöxt.

Stundum er þó miðað við landsframleiðslu en ekki þjóðarframleiðslu og hagvöxtur er þá reiknaður sem vöxtur landsframleiðslu frá ári til árs."

Hvað er hagvöxtur? - Vísindavefurinn


"Sá 3,1% hagvöxtur sem mældist á fyrstu níu mánuðum [2013] var að verulegum hluta drifinn áfram af stórauknum tekjum í ferðaþjónustu, enda var framlag þjónustuviðskipta við útlönd til hagvaxtar 2% á tímabilinu."

En þetta atriði skilur Sjálfstæðisflokkurinn engan veginn.

Steini Briem, 18.1.2014

Þorsteinn Briem, 18.8.2017 kl. 14:48

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Hvaða bóndi hefur efni á ráðskonu í dag?  Greiða henni stjórnendalaun, með 20% aukalaunakostnaði?  Auðvitað giftist hann henni strax, launin hennar verða eyðslueyrir eins og búið leyfir og svo getur bóndinn notað persónuafsláttinn hennar.  Það eru breyttir tímar...

Kolbrún Hilmars, 18.8.2017 kl. 15:16

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

"En við það að hún hætti að taka laun sem kaupakona verður sá missir útborgaðra launa til þess að þjóðartekjur og hagvöxtur hafa minnkað sem því nemur."

Laun bóndans og ráðskonunnar eru hluti af rekstrarkostnaði búsins og bæði halda áfram að þiggja laun fyrir vinnu sína við búið eftir að þau giftast, enda eiga þau nú bæði búið, nema þau hafi gert kaupmála þar sem öðruvísi er í pottinn búið.

Og tekjur búsins eða framleiðsla aukast að sjálfsögðu hvorki né minnka við það að eitt að ráðskonan giftist bóndanum.

Ef þau fóru hins vegar að búa saman án þess að giftast og bóndinn hætti að greiða ráðskonunni laun eða stórlækkaði þau minnkaði hins vegar rekstrarkostnaður búsins við það og þrælahald byrjaði.

Þannig gátu tekjur búsins aukist en afköstin höfðu hvorki aukist né minnkað við það eitt.

Við skilnað gat konan hins vegar krafist ráðskonulauna.

Þorsteinn Briem, 18.8.2017 kl. 15:43

6 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Get tekið undir þetta, Steini.  Við giftingu eignast konan hálft búið, en við sambúð ekki. Þjóðhagslega skipta þessi hlutverk eflaust litlu máli. Það er að mörgu að hyggja.

Kolbrún Hilmars, 18.8.2017 kl. 16:04

7 identicon

Er nú síðasta vitglóran fokin úr hausnum á þér ómar?

Telst það ekki fórn frekar en forréttindi að vinna utan heimilis til að hægt sé að borga fyrir bæði nauðsýnjar og óþarfa?

Telst það ekki frekar forréttindi frekar en fórn að ala upp eigin börn?

Hvort hlutverkið myndir þú velja þér að öðru óbreyttu?

Bjarni (IP-tala skráð) 18.8.2017 kl. 18:44

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þess má geta, að þetta dæmi er engin uppfinning mín, heldur var hún sett fram í háskólanum þegar ég var þar við nám og var raunar sett fram enn einfaldara, því að ekki var gert ráð fyrir að vinnuframlag á bænum breyttist neitt né að barnsfæðing yrði við giftingu bóndans og ráðskonunnar. 

Ómar Ragnarsson, 18.8.2017 kl. 18:56

9 identicon

Þetta pistill snérist semsagt um óánægju þína útreikninga á þjóðarframleiðslu.

Hér er annað dæmi - Jón og Gunna hafa frá fermingu skeint sig hjálparlaust.  En nú eru þau orðin öldruð og komin á elliheimili.  Þar þurfa þau hjãlp hjúkku til að skeina sig.  Semsagt það að Jón og Gunna hættu að geta skeint sér sjál verður til þess að þjóðarframleiðsla hækkar.

Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt og nauðsynlegta að hækka reiknaða þjóðarframleiðslu um sem nemur fyrirhöfn allra við að skeina sig.

Ómar þú með þessum pistli þínum hefur aukið þjóðarframleiðslu um tugi prósenta.

Bjarni (IP-tala skráð) 18.8.2017 kl. 19:23

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Engu máli skiptir hvaðan þessi della er upprunnin eða hvort þú hefur misskilið eitthvað í háskólanum, Ómar Ragnarsson.

Undirritaður lærði hagfræði í háskóla.

Þorsteinn Briem, 18.8.2017 kl. 19:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband