Skaðleg óreiða ríkir, þótt það finnist ljós í myrkrinu.

Þegar skoðað er það kort af Suðvesturlandi, sem er nákvæmast, vekur athygli að merktir eru inn göngustígar og hestastígar, en engir hjólastígar svo heitið geti. Hjólför á gangstíg

Þó er vitað, að um allan heim er í gangi nánast sprenging í fjallahjólreiðum og að Ísland er þegar auglýst sem paradís fyrir fjallahjólreiðar, sem allt of margir túlka sem algert frelsi og ekkert eftirlit. 

Andrés Arnalds hjá Landgræðslunni hefur tjáð mér, að í mikið óefni stefni ef áfram verður í gangi það sinnuleysi um þessi mál, sem ríkt hefur. 

Hjólastígur skógræktarinnar er ljós í myrkrinu og lofsvert framtak.Hjólför á gangstíg, nær.

En fjallahjólreiðamenn og torfæruvélhjólamenn sækjast eftir fleiru en að hjóla um skóglendi, og erlendir hjólreiðamenn eiga nóg af slíkum stigum.

Þeir fara til Íslands eins og langflestir erlendir ferðamenn til að upplifa éinstæða íslenska náttúru, að fara um og upplifa óvenjulegustu svæðin og þau sérstæðustu og merkustu, sem eru oftast afar viðkvæm hverasvæði og svæði með jarðminjum, sem þola ekki átroðning. 

Má sem dæmi nefna Ölkelduháls og fleiri slík svæði. 

Í gönguferð, sem ég fór í gær, vakti athygli, að enda þótt ekkert rask af mannavöldum væri utan hins merkta göngustígs, lágu för eftir reiðhjól eða jafnvel torfærurvélhjól alla leiðina. Hjólför á gangstíg, sörguð klöpp

Á stórum köflum kom það ekki að sök útlitslega séð, en annars staðar sást, að hjólin valda meira raski en fætur göngufólks. 

Fyrir nokkrum árum vorum við Andrés á fundi með Slóðavinum, þar sem margir fundarmanna héldu því fram að þeir teldu að menn á torfæruhjólum ættu rétt á að spóla eða fara um alla gönguslóða, hestaslóða, jeppaslóða og kindaslóða á landinu. 

Jeppaslóðar landsins eru einir meira en 20 þúsund kílómetrar og má því nærri geta hvílík býsn allir fyrrnendir slóðar eru samtals, kannski 100-200 þúsund kílómetrar. 

Þessi talsmenn hins algera frelsis héldu því fram að hjólin sporuðu ekki í harðar klappir. 

En á slóðanum, sem ég gekk í gær, var hið gagnstæða uppi á teningnum eins og sést á meðfylgjandi myndum. 

Mynsturförin eftir hjólin mörkuðu slóðina og sums staðar höfðu hjólin sargað klappir niður, svo að mörg ár eða áratugi mun taka fyrir þessar viðkvæmu móbergsklappir að jafna sig. 

Ég hef lengi verið talsmaður þess að koma reglu á þessi mál á þann veg að allir hópar séu teknir með í reikninginn, göngufólk, hestamenn, jeppamenn, fjallahjólamenn og vélhjólamenn. 

Allir fái stíga út af fyrir sig eða slóðir, þar sem ákveðnir hópar fá að fara saman, svo sem fjallahjólamenn og göngumenn. 

Núverandi ástand, með sinni allt of miklu ringulreið og stjórnleysi, verður fljótlega enn meiri ógn varðandi náttúruvernd en hún er orðin nú þegar. 

Því verður að linna. 


mbl.is Sérmerkja 8 km langan hjólastíg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þessum slóðaskap verður að linna, Slóðavinir.

Þorsteinn Briem, 23.8.2017 kl. 01:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband