30.8.2017 | 15:03
Svipuð saga víða: Sundrung í samfélaginu.
Stórsóknin í virkjanamálum á Íslandi hófst upp úr 1990 með stórri skýrslu Iðnaðarráðuneytisins, þar sem raktir voru helstu virkjanamöguleikar á landinu.
Í kjölfarið fylgdi LSD, skammstöfun fyrir orðin Lang Stærsti Draumurinn, þar sem þremur af fjórum jökulám á norðurhálendinu yrði steypt niður í virkjun í Fljótsdal.
1995 var sent fyrir hönd íslensku þjóðarinnar bænarskjal til helstu stóriðjurisa heims þar sem boðið var "lægsta orkuverð heims og sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum."
Það var ekki fyrr en árið 2006 sem Andri Snær Magnason upplýsti um þetta tiltekna atriði en allir fjölmiðlarnir þögðu í raun.
Þá vissu hvorki ég né aðrir hér heima að Norðmenn höfðu gert svipaðar LSD-áætlanir fyrir norska hálendið en fallið frá þeim.
1997 voru síðan kynnt áform Norsk Hydro um 1200 megavatta virkjun í Fljótsdal sem gæti knúið 700 megavatta álver á Reyðarfirði.
Til samanburðar má nefna að fyrsta álverið í Straumsvík var 20 sinnum minna.
Nóbelskáldið notaði heitið "Hernaaðurinn gegn landinu" um áform af þessu tagi 1970.
En áformin 1997 og eftir það hafa verið ekkert minna en stórstyrjöld gegn landinu.
Hún hefur síðan sundrað samfélögunum, þar sem innrásir hafa staðið fyrir dyrum og verið knúnar í gegn.
Illindin hafa birst ýmist í sérlega harðvítugum átökum eða svakalegri þöggun.
Allt fram til 2010 ríkti til dæmis mikil þöggun í Mývatnssveit og maður reyndi að sneyða hjá umræðu við heimamenn um stórfelld virkjanaáform Landsvirkjunar í sveitinni.
En það lifði í gömlum glæðum og hundruð fólks komu saman þegar minnst var 40 ára afmælis Laxárdeilunnar.
En viljinn til hernaðar gegn Mývatni og náttúruundrum þess og næstu svæða við það er enn við lýði.
Á Austurlandi var hitinn svo mikill vegna Eyjabakka og Kárahnjúka að fjölskyldubönd rofnuðu og menn misstu heilsuna.
Einn af helstu forgangsmönnum andófsins hringdi eitt sinn í mig að næturlagi og grét í símann yfir því hversu hart hann væri leikinn, sagðist vera að brotna algerlega niður sálarlega og líkamlega.
Skömmu síðar hafði hann kúvent, gengið til liðs við virkjanamenn og vonaði líklega að ástandið myndi skána, en lifði ekki lengi eftir það.
Á málþingi í Árneshreppi í sumar komu fram raddir með áhyggjum um að svona gæti farið þar í sveit og ákall um að reyna að komast hjá því eftir farsæla sambúð fólks í þessu litla samfélagi.
En sundrungin og illindin "hanga yfir samfélaginu eins og draugur" líkt og á virkjanasvæðunum í Neðri-Þjórsá, þar sem félagi í samtökum andófsfólks lýsir ástandinu þar með tilvitnuðum orðum.
Birtingarmyndirnar eru ýmsar en ein er sýnu greinilegust: Náttúruverndarfólki, sem vill spyrna við fótum, er lýst sem óvinum samfélagsins og fólki, sem "berjist á móti lífskjarabótum og eigi sér þá ósk heitasta að tína fjallagrös við torfbæina sína og fá að moka kamra eftir útlendinga" eins og einn orðar það svo smekklega í athugasemd í öðrum bloggpistli mínum hér á síðunni.
Þegar þetta er komið niður á svona plan leðjuslags er ekki við góðu að búast.
Hangir yfir samfélaginu eins og draugur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.