Það er ekki lengur ártalið 1993.

Þegar Íslendingar samþykktu EES-samninginn 1993 heyrður aðvörunarraddir vegna jarðakaupa útlendinga hér á landi. 

Aðrir sögðu að réttur til jarðakaupa væri gagnkvæmur og að við gætum líka keypt jarðir í þeim löndum sem samningurinn nær til. 

Hér er ólíku saman að jafna, annars vegar réttur 500 milljóna manna til að kaupa jarðir hjá meira en þúsund sinnum fámennari þjóð gatnvart rétti örþjóðarinnar til að kaupa jarðir hjá þúsund sinnum stærri þjóðum.

Enn aðrir sögðu að Ísland væri svo langt úti í hafi og að hér væri svo kalt loftslag að engin hætta væri á að útlendingar sæktust eftir að eiga landareignir hér.

Sem betur fer brustu ekki á stórfelld jarðakaup útlendinga hér, - í bili.

En 24 árum síðar eru aðstæður aðrar.

Vegna margfaldrar ferðaþjónustu, frægðar íslenskrar náttúru og orkuauðlinda Íslands eru annmarkar núverandi fyrirkomulags að koma í ljós.

Einar Þveræingur sagði, þegar menn vildu gefa Noregskonungi Grímsey, að víst væri þálifandi Noregskonungur ágætis maður, en enginn vissi hvaða menn næstu konungar á eftir honum myndu hafa að geyma.  

Og þetta voru meðal þeirra raka sem urðu til þess að ekki varð af því að láta Grímsey af hendi.

Alveg hið sama er uppi á teningnum nú. Heyra mátti í viðtali á Stöð 2 í gærkvöldi sveitarstjórnarmann segja að þeir sem ásældust jarðir hér á landi ættu að njóta vafans og ekki verða tortryggðir fyrirfram.

Þetta eru jafn veik rök og rök þeirra sem vildu gefa Grímsey forðum tíð. Alltof miklir íslenskir hagsmunir eru í húfi, já raunar hagsmunir á heimsvísu hvað varðar nauðsyn þess að varðveita íslensk náttúruverðmæti, til þess að láta þessa hagsmuni ekki njóta vafans í stað fyrir að erlendir jarðakaupamenn geri það.

Auk þess er Kína alræðisríki og Kínverjar sjálfir leyfa engin jarðakaup útlendinga þar í landi.

Danir og fleiri þjóðir sem gengu alla leið inn í ESB fengu sett í samninga sína ákvæði um takmarkanir á erlendum fjárfestingum í kaupum jarða og sumarbústaða.

Það er kominn tími til að við gerum svipað og Danir, - það er ekki árið 1993, það er árið 2017.  


mbl.is Mjög miklir hagsmunir í húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Aðilar, sem njóta réttar hér á landi samkvæmt reglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) um frjálsa för fólks, staðfesturétt, þjónustustarfsemi eða fjármagnsflutninga, geta öðlast heimild yfir fasteign hér á landi án leyfis dómsmálaráðherra, enda þótt þeir uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 1. gr. laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna."

Reglugerð um rétt útlendinga, sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu, til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum, nr. 702/2002

Á Evrópska efnahagssvæðinu eru Evrópusambandsríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein og í EFTA eru Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein.

"Fasteign merkir í lögum þessum afmarkaðan hluta lands ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega er við landið skeytt."

Jarðalög nr. 81/2004

Þorsteinn Briem, 31.8.2017 kl. 01:24

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Útlendingar, til að mynda Kínverjar, geta nú þegar átt helminginn af öllum aflakvóta íslenskra fiskiskipa en útlendingar hafa mjög lítið fjárfest í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.

23.11.2010:


"Friðrik J. Arngrímsson, [nú fyrrverandi] framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að lögin hafi alltaf verið skýr varðandi erlent eignarhald í sjávarútvegi.

"Erlendir aðilar mega eiga allt að 49,99% óbeint, þó ekki ráðandi hlut, og svona hafa lögin verið lengi," segir Friðrik."

"Nefnd um erlenda fjárfestingu hefur að undanförnu fjallað um málefni sjávarútvegsfyrirtækisins Storms Seafood sem er að hluta til í eigu kínversks fyrirtækis, Nautilius Fisheries.

Eignarhlutur Kínverjanna er
um 44%, beint og óbeint.

Og niðurstaða nefndarinnar er að það sé löglegt."

Þorsteinn Briem, 31.8.2017 kl. 01:25

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Skýrsla Evrópunefndar lögð fram af Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, í mars 2007, bls. 77-79:

"Varanlegar undanþágur og sérlausnir:"


"Komi upp vandamál vegna ákveðinnar sérstöðu eða sérstakra aðstæðna í ríki sem sækir um aðild að Evrópusambandinu er reynt að leysa málið með því að semja um tilteknar afmarkaðar sérlausnir.

Eitt þekktasta dæmið um slíka sérlausn er að finna í aðildarsamningi Danmerkur árið 1973 en samkvæmt henni mega Danir viðhalda löggjöf sinni um kaup á sumarhúsum í Danmörku.

Í þeirri löggjöf felst meðal annars að aðeins þeir sem búsettir hafa verið í Danmörku í að minnsta kosti fimm ár mega kaupa sumarhús í Danmörku en þó er hægt að sækja um undanþágu frá því skilyrði til dómsmálaráðherra Danmerkur."

"Ekki er hins vegar um að ræða undanþágu eða frávik frá banni við mismunum á grundvelli þjóðernis og íbúar annarra aðildarríkja sem uppfylla skilyrði um fimm ára búsetu geta því keypt sumarhús í Danmörku."

Í þessu tilviki "er í raun um að ræða frávik frá 56. grein stofnsáttmála Evrópusambandsins, sem bannar takmarkanir á frjálsu flæði fjármagns."

"Mikilvægt er að hafa í huga að aðildarsamningar að Evrópusambandinu hafa sömu stöðu og stofnsáttmálar sambandsins og því er ekki hægt að breyta ákvæðum þeirra, þar á meðal undanþágum eða sérákvæðum, sem þar er kveðið á um, nema með samþykki allra aðildarríkjanna [í þessu tilviki einnig Danmerkur]."

Þorsteinn Briem, 31.8.2017 kl. 01:26

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Til­raun­ir kín­verska fjár­fest­is­ins Huangs Nu­bos til þess að kaupa jörðina [Grímsstaði á Fjöllum] fóru út um þúfur um árið og hef­ur jörðin verið aug­lýst til sölu á Evr­ópska efna­hags­svæðinu."

Enginn stjórnmálaflokkur sem á sæti á Alþingi vill segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Útlendingar geta eignast allar jarðir hér á Íslandi og helminginn af öllum aflakvóta íslenskra fiskiskipa strax í fyrramálið ef þeir nenna því.

Þorsteinn Briem, 31.8.2017 kl. 01:27

5 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Í Danmörku sýna þjóðverjar og aðrir afskaplega lítinn áhuga á því að kaupa sumarbústaði þar.

Kinverjar hafa ekki sjálfkrafa rétt á því að kaupa land á Íslandi. Það krefst samþykkis ráðherra fyrir þá að kaupa land á Íslandi. Það sem virðist vaka hérna fyrir mönnum er að tryggja hagsmuni hins ríkasta prósents Íslands sem ætlar sér greinilega að komast upp með að kaupa land og setja í niðurníslu.

Allar takmarkanir á kaupum útlendinga frá ríkjum EES/ESB á jörðum og íbúðum á Íslandi eru brot á EES Samninginum enda íslendignar ekki með neina undanþágu frá reglum EES/ESB þar.

Jón Frímann Jónsson, 31.8.2017 kl. 01:33

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Fjórfrelsið gildir á öllu Evrópska efnahagssvæðinu en það felur í sér frjáls vöru- og þjónustuviðskipti, frjálsa fjármagnsflutninga og sameiginlegan vinnumarkað.

Að auki kveður samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið á um samvinnu ríkjanna á svæðinu í til dæmis félagsmálum, jafnréttismálum, neytendamálum, umhverfismálum, menntamálum og vísinda- og tæknimálum."

"Þeir alþjóðasamningar sem Ísland hefur undirgengist, til dæmis samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES), aðildarsamningur Íslands að Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og áttunda grein stofnsáttmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, heimila [hins vegar] tímabundin og afmörkuð höft á fjármagnshreyfingar þegar lönd lenda í gjaldeyris- og greiðslujafnaðarkreppu."

Seðlabanki Íslands - Peningamál í maí 2010, bls. 16-17

Þorsteinn Briem, 31.8.2017 kl. 01:44

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Stöndum vörð um inlemndar eignir á landi

Halldór Jónsson, 31.8.2017 kl. 07:48

8 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ef leifa skal kaup erlendra aðila á landi hér, á slíkt að miðast við sumarhúsalóðir, alls ekki meira. Engu ætti að skipta hvort um er að ræða aðila innan eða utan EES/ESB.

Þetta yrði þá auðvitað að vera gagnkvæmt  og einungis þær þjóðir sem leyfa kaup Íslendinga á sumarhúsalóðum sem geti fengið að kaupa slíkar lóðir hér.

Gunnar Heiðarsson, 31.8.2017 kl. 08:50

9 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Er það rétt, að ef erlendur aðili vill kaupa eignir á Íslandi, að þá sé stofnað einkahlutafélag í eigu erlenda aðilans, og þetta, íslenska? einkahlutafélag geti þá keypt að vild eignir á Íslandi.

Egilsstaðir, 31.08.2017  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 31.8.2017 kl. 08:50

10 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Gagnkvæmt, já, Íslendingar megi til dæmis, kaupa að hámarki 1% í útlöndum, og útlendingar þá að hámarki 1% á Íslandi.

Egilsstaðir, 31.08.2017  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 31.8.2017 kl. 09:04

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar sagt var 2008 að 99,9% líkur væru á því að öflugir rússneskir fjárfestar myndu reisa risastóra olíuhreinsistöð í Hvestudal í Arnarfirði með 500 störf "til að bjarga Vestfjörðum." 

Þegar farið var að kanna nánar bakgrunninn fyrir þessu kom í ljós að í raun yrði skúffufyrirtæki hinna ónefndu Rússa skráð fyrir kaupunum, en það var skráð í Skotlandi. 

Í ljós kom að fyrirtækið hafði að vísu heimilisfang en enga starfsemi, var skráð fyrir einum lokuðum síma og var með rekstur á núlli í debet og kredit á síðasta ári. 

Ómar Ragnarsson, 31.8.2017 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband