Ég hafði átt Honda PCX vespuhjólið mitt í mánuð í fyrra algerlega óhappalaust.
Eftir tæplega sólarhrings ferð eftir þjóðvegi eitt frá Reykjavík um Akureyri og Egilsstaði leit allt vel út.
Álftafjörðurinn skartaði sínu fegursta eldsnemma morguns og ferðin var tóm hamingja.
Þegar ég kom yfir eina brúna og var alveg að klára hana gerðist síðan hið óvænæta.
Allt í einu birtist stærðar álft í fets hæð frá jörðu þar sem hún kom í flugtaki framhjá hægri brúarstólpanum þvert í veg fyrir mig.
Eitt augnablik virtist stefna í hörku árekstur við þennan stóra og þunglamalega fugl, sem hafði verið í hvarfi utan við og neðan við brúarstólpann.
En stél hennar rétt snerti framhjólið hjá mér um leið og hún skaust áfram og hélt fluginu áfram alveg niðri við jörð og hvarf inn í álftahóp neðar með ánni.
Auðvitað hefði ég átt að vita að þetta gæti gerst á stað sem héti Álftafjörður.
Nú er liðið rúmt ár síðan og þetta er sem betur fer eini áreksturinn, sem ég hef lent í á hjólinu hingað til. Sjö-níu-þrettán.
Álftin hafði greinilega verið að njóta friðsældarinnar og kyrrðarinnar skömmu eftir sólarupprás og ætlað að færa sig til þegar hún heyrði hjólið nálgast.
Það var bara óheppni að hún flaug í veg fyrir hjólið, sem hún hafði ekki séð þaðan sem hún leyndist fyrir neðan upphækkaðan veginn rétt utan við brúarstólpann.
Skúmarnir, sem réðust á eins manns örfisið Skaftið (ultralight) á Breiðamerkursandi fyrir tveimur áratugum voru hins vegar ekki í friðarhug, heldur sýndu ótrúlega hörku þegar þeim mislíkaði flug mitt lágt yfir heimili hans, einu af skúmshreiðrunum á sandinum.
Þeir komu fljúgandi á fullri ferð framan að fisinu og réðust að því á svipaðan hátt og kría ræðst að manni, sem hættir sér of nálægt varpi, - gerðu sig líklega til að slá vængjunum í hinn óboðna gest.
Skúmarnir eru grimmir fuglar og enginn maður skyldi voga sér að brjóta lög um friðhelgi heimilisins ef þeir eru annars vegar.
Álftin sló drónann niður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.