Listrænir gjörningar geta verið og mega vera af fjölþættum toga.

Listir hljóta alltaf að verða metnar eftir þeim hughrifum sem þær hafa á fólk.

Ef listin er sönn, áhrifarík, hefur boðskap eða skilaboð og snertir við áheyrendum og áhorfendum, skiptir ekki máli hvort um er að ræða margslunginn gjörning, ofinn í mörgum sjónrænum og hljóðrænum þáttum og hann kosti gríðarlega vinnu og peninga, eins og tónleikar Páls Óskars Hjálmtýssonar virðast ætla að verða, eða hvort um er að ræða einföldustu list allra tíma: Manneskja fyrir framan manneskjur með eingöngu eigin rödd og líkamstjáningu að vopni sem skapar augnsamband og gagnkvæm viðbrögð.

Páll Óskar getur hvort tveggja út í hörgul og allt þar á milli þegar honum tekst best upp.

Áhrifamesti flutningur í kirkju, sem ég man eftir, er þegar hann söng lagið "My funny Valentine" við einfaldan undirleik í Hallgrímskirkju við jarðarför Guðlaugs Bergmann. 

Allir þekkja líka andstæðuna, hinn stórbrotna gjörning í fararbroddi Gleðigöngunnar, sem er mikið sjónar- og heyrnarspil. 

Enginn maður er óskeikull og flókinn og yfirgengilegur gjörningur getur misheppnast rétt eins og það að syngja eða tala einn á sviði. 

Ég óska Palla velfarnaðar í sínu stóra verkefni á morgun. Þegar hann er í ham er hann eins konar náttúruafl, sem á vel við að njóti sín á Degi íslenskrar náttúru. 

 

 


mbl.is Flengir íslenska tónlistarbransann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband