Eigum að leiðrétta rangfærsluna um "100% endurnýjanlega orku".

Í fyrsta bloggpistli þessarar bloggsíðu fyrir rúmum áratug var það rakið, hvernig orka gufuaflsvirkjana til raforkuframleiðslu væri ekki endurnýjanleg eins og staðhæft væri í síbylju hvarvetna hjá okkur, heldur væri þetta alrangt. Auglýsing LV (2)

Í forsendum gufuaflsvirkjana væri ekki gert ráð fyrir meiri endingu en í 50 ár, en það væri fjarri því að teljast sjálfbær þróun, næði ekki einu sinni endingu margra kolanáma. 

Þetta er í raun rányrkja, þegar horft er fram til næstu kynslóða. 

Síðan þá hefur þessi síbylja eflst og margfaldast. Svo langt gengur það, að það fyrsta sem blasir við erlendum ferðamanni, þegar hann gengur inn í inngang Leifsstöðvar er níu metra löng og þriggja metra há mynd þar sem þetta er fullyrt stórum stöfum:  Auglýsing Landsvirkjun

"Velkomin í land hinnar endurnýjanlegu orku."

Og vinstra megin á myndinni er smærri texti, svohljóðandi:

"Á Íslandi framleiðum við alla okkar raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum." 

Tvær milljónir erlendra gesta á hverju ári ganga beint inn í þessa rangfærsllu á fyrstu metrum Íslandsferðarinnar og rangfærslan er það síðasta sem kveður grandalausan ferðamanninn þegar hann fer af landi brott. 

Og myndefnið, með stórfelldustu lemstrun einstæðrar náttúru, sem möguleg er hér á landi, er í hrópandi ósamræmi við ósnortna fegurð þess sem helst dregur erlent ferðafólk til landins!

Nú þegar hafa virkjanasvæðin Svartsengi-Reykjanes og Nesjavellir-Hellisheiði sigið um allt að 18 sentimetra og orkan dvínað um fjórðung. 

Ekki veit ég hve oft hefur verið fjallað um þetta mál hér á bloggsíðunni síðustu tíu árin með nákvæmlega engum árangri. 

2007 var ég 67 ára. Nú er ég 77 ára. "Hvað er þá orðið okkar starf í tíu sumur?"

Og miðað við árangurinn í þessi tíu ár virðist ekki mikil von til þess að þessari hraksmámanarlegu alltumlykjandi síbylju verði hrundið næstu tíu ár. 

Það eru því meiri líkur en minni til þess að ég verði ekki meðal lifanda eftir tíu ár.

Ég verð því að vera því viðbúinn að lifa ekki þann dag þegar sannleikurinn í þessu máli fái viðurkenningu. 

Merkilegt er hvað þessi rangfærsla er lífseig og færist jafnvel í aukana. 

Einungis er um það að ræða að nefna töluna 75 prósent í stað 100% og væri 75% talan meðal þeirra allra hæstu í heiminum. 

En, nei, lengi lifi rangfærslan stóra! 

 


mbl.is Stóriðjan beri kostnaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ætli nokkur orka sé endurnýjanleg? Jafnvel ekki sólarorkan.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 22.10.2017 kl. 20:49

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki er hér Hörður hýr,
harla karlinn tregur,
ekki lengur er nú nýr,
en endurnýjanlegur.

Þorsteinn Briem, 22.10.2017 kl. 23:48

3 identicon

Steini Briem.

Takk!

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 23.10.2017 kl. 12:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband