Shakespeare lýsti þessu best.

Í Þrettándakvöldi Shakespeares er hlutverki trúða og grínista lýst svo vel að betur verður varla gert. Leikritið endar reyndar á Söng Fjasta, hirðfífsls greifynjunnar Ólivíu, en hún glímir við þunglyndi. 

Fjasti reynist laginn við að veita Ólivíu sálfræðiþjónusu sem aðrir geta ekki veitt henni og á mikinn þátt í að glima við að leysa þær flækjur og þrautir sem plaga aðalpersónur leikritsins.  

Söng Fjasta er að finna á safndiskinum "Hjarta landsins", sem var gefinn út og kynntur í hringferð um landið í sumar, og á diskinum er í megindráttum sú útgáfa með íslensku lagi sem flutt var á sýningu Herranætur á leikritinu 1959. 

Í diskinum heitir lagið "Hann rignir alltaf". 

Ýmsar setningar í leikritinu minna á hlutverk hirðfíflsins svo sem "ekki er munkur þótt í kufl komi" og "betra er viturt fífl en flónskur vitringur." 

En á einum stað eyðir Shakespeare heilli einræðu í að lýsa hlutverki spaugara og trúða, svo að betur verður varla gert. 

Því miður er nú rúm öld síðan ég las leikritið síðast og kórréttur texti því ekki tiltækur fyrir mig, en í einræðunni er því lýst hve vel "fiflið" verði að vera að sér í aðstæðum samtíðar sinnar, skynja þjóðfélagsgerðina, strauma hennar og þróun og vera næmur á að finna atriði sem varpa spaugilegu og þar með eftirtektarverðu og lærdómslíku ljósi á aðalatriðin. 

Að þessu leyti sé hlutverk trúðsins miklu mikilvægara en flestir geri sér grein fyrir. 

Eitt besta dæmið sem ég þekki úr leikhúsinu er einþáttungurinn í "Þjófar, lík og falar konur" sem gerist við spilaborð. 

Einn þátttakandinn virðist alger auli, aumkunarverður og hafður að háði og spotti af spilafélögunum. En í óvæntum endi kemur hið gagnstæða í ljós,- hann rúllar þeim upp og gerir þá að fíflum. 

Frammistaða Gísla Halldórssonar í þessu atriði var með því besta sem ég hef séð á íslensku leiksviði, en því miður var einfaldara atriði, með tveimur öskukörlum, prýðilegt að vísu, valið til upptöku og sýningar í Sjónvarpinu. 

Á þessum byrjunarárum Sjónvarpsins var fjárhagurinn svo knappur, að þegar ég fór fyrir hönd þess til Helsinki til þess að vera fulltrúi Íslands í norrænum gamlársþætti, var aðeins efni á að hafa samskipti við dagskrárstjórann heima með því að senda honum jólakort. 

Of dýrt að senda bréf eða tala í síma. 

 

 


mbl.is Trúðurinn er ekkert fífl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Því miður er nú rúm öld síðan ég las leikritið síðast ..."

Að mörgu Ómar gerir grín,
gamall skuggabaldur,
skarið ekki skammast sín,
skrambi vel við aldur.

Þorsteinn Briem, 5.11.2017 kl. 13:41

2 identicon

Hver dagur er öld og eilífð, í stóra og flókna samhenginu milli himins og jarðar. Kannski ekki svo galið í heimi þar sem allir eru að þykjast og leika, til að passa inn í þröngan ramma? Maður hefur víst aldrei lært að haga sér alveg "rétt".

Hef ekkert alvöru vit á öðrum fíflum en sjálfri mér, og er ekki einu sinni búin að læra almennilega á það hirðfífl sem ég er :)

Ekki efast ég um hæfileika Sjeikspírs, eins umtalaður og hann er. En að ég kunni eitthvað eftir þann umtalaða snilling get ég ekki sagt með sanni.

Koma tímar og koma ráð. Kannski maður læri eitthvað eftir þann snilling áður en maður fer í sína eigin útför? Það væri nú líklega þarft þroskaverkefni á lífsins eilífðar jarðarendabraut:)

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 5.11.2017 kl. 14:22

3 identicon

youtube: Hvert örstutt spor MrKnutur

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 5.11.2017 kl. 14:49

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Eilífðar jarðarendabraut." Vel mælt. 

Ómar Ragnarsson, 5.11.2017 kl. 15:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband