"Skrifaðu flugvöll." Of líkt veðursvæði og Suðurnes.

Þekkt var sagan sem hermd var upp á bankamann einn í Reykjavík, sem fór í framboð fyrir krata í einmenningskjördæmi úti á landi og var með mann með sér til að skrifa niður athugasemdir. 

Umræðan barst að samgöngum, og sagði þá einn fundarmanna, að komnir væru vegir og ein lítil höfn, en það vantaði flugvöll. 

"Skrifaðu flugvöll" sagði þá bankamaðurinn við ritara sinn. 

Þetta kemur upp í hugann þegar mönnum hugkvæmist það einu sinni enn að gera stóran fullbúinn flugvöll við Selfoss, og er þá oftast hugmyndin að hann geti verið varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll eða komið í staðinn fyrir Reykjavíkurflugvöll. 

Þá gleymist alveg að Flóinn er á sama veðursvæði og Keflavíkurflugvöllur, gersamlega óvarinn fyrir sömu algengustu hvössustu og mestu rigningarveðrunum og súldinni og Keflavíkurflugvöllur er. 

En stærsti kostur Reykjavíkurflugvallar er, að í þessum algengustu slæmu veðrum er hann varinn af Reykjanesfjallgarðinum fyrir þessum veðrum og því oft opinn þegar Keflavíkurflugvöllur er lokaður. 

Það er álíka langt frá Eyrarbakka til Þingvalla og frá Reykjavík til Þingvalla og aðeins 25 kílómetrum styttra frá Eyrarbakka til Geysis frá Eyrarbakka en er frá Eyrarbakka til Geysis. 

Á sama tíma og gargað er á fjármagn til að styrkja þá innviði flugsins sem þegar eru fyrir hendi koma hugmyndir um milljarðatuga eða jafnvel milljarðahundruð króna aftur og aftur upp á yfirborðið. 

Flugvöllur bankamannsins bláeyga hér um árið var hleginn í hel á stundinni, hefur enn ekki verið gerður, enda ekkert stæði né ástæða fyrir stóran flugvöll í Dölunum. 

 

 

 

 

 


mbl.is Kanna möguleika á alþjóðaflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"En stærsti kostur Reykjavíkurflugvallar er, að í þessum algengustu slæmu veðrum er hann varinn af Reykjanesfjallgarðinum fyrir þessum veðrum og því oft opinn þegar Keflavíkurflugvöllur er lokaður."

Flugvélar í millilandaflugi lentu ekki á Reykjavíkurflugvelli í óveðrinu núna um helgina.

Þar að auki eru varaflugvellir fyrir Keflavíkurflugvöll á Akureyri, Egilsstöðum og í Skotlandi.

Þorsteinn Briem, 7.11.2017 kl. 08:34

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Teldu nú upp hversu oft flugvélar í millilandaflugi hafa notað Reykjavíkurflugvöll sem varaflugvöll fyrir Keflavíkurflugvöll, til að mynda síðastliðin fimm ár, Ómar Ragnarsson.

Þorsteinn Briem, 7.11.2017 kl. 08:37

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

22.12.2015:

"Flug­vél WOW air sem var að koma frá Gatwick í Lund­ún­um í gær­kvöldi þurfti fyrst að lenda á flug­vell­in­um á Ak­ur­eyri vegna mik­ill­ar snjó­komu á flug­vell­in­um í Kefla­vík.

Vél­inni var síðan flogið til Kefla­vík­ur og lenti hún þar klukk­an fjög­ur í nótt.

Sam­kvæmt áætl­un átti vél­in að lenda í Kefla­vík klukk­an 22:50."

Þorsteinn Briem, 7.11.2017 kl. 08:41

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Til þess að finna út töluna sem þú heimtar, Steini, þarf ég að fá í hendur allar þær flugáætlanir, sem gerðar hafa verið fyrir flug til og frá Keflavíkurflugvelli, og hafa haft Reykjavíkurflugvöll sem skráðan varaflugvöll. 

Gildi varaflugvallar er ekki bara það eitt að hann hafi verið notaður, heldur það, að hægt er að skrá hann inn í flugáætlun loftfara og spara til dæmis með því eldsneyti. 

Af kynnum mínum við fjölda flugstjóra sem hafa flogið um áratuga skeið um Keflavíkurflugvöll veit ég hins vegar, að gildi Reykjavíkurflugvallar hefur verið afar þýðingarmikið sem varaflugvallar, sem hægt var að treysta á og var tiltækur þegar áætlunin var gerð. 

Ómar Ragnarsson, 7.11.2017 kl. 16:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband