17.11.2017 | 08:55
Táknræn ljósmynd?
Náttúrufræðingar hljóta að vera mikilvægur þjóðfélagshópur í landi, þar sem ósnortin og einstæð náttúra er helsta aðdráttaraflið fyrir 80% af þeim rúmum tveimur milljónum ferðamanna, sem koma árlega til landsins og eru orðnir helstu burðarásar efnahagsuppsveiflunnar hér.
Myndin, sem fylgir fréttinni er táknræn fyrir ástand mála varðandi þetta mesta verðmæti Íslands, náttúruna, og búið er að setja fram alls á annað hundrað fyrirætlanir um virkjanir um allt land, hálendið meðtalið.
Landslaginu, sem sést á myndinni hefur nefnilega verið tortímt og er nú að sökkva hratt en örugglega í aur og drullu í hinu 57 ferkílómetra Hálslóni sem myndað var til að þjóna Kárahnjúkavirkjun og gefa erlendum eigendum álvers á Reyðarfirði tekjuskattlausan milljarða arð á hverju ári.
Stefni að því að setja hér inn þrjár aðrar myndir teknar frá sama sjónarhorni og mynd RAX var tekin, en aðeins innar í dalnum.
Önnur er loftmynd eftir að landinu var tortímt, þar sem horft er yfir aðeins víðara sjónsvið við aðstæður, sem þarna ríkja á mestu góðviðrisdögunum fyrri part sumars er hlýr sunan hnjúkaþeyr stendur af Vatnajökli í bjartviðrinu.
Hinar mynirnar eru annars vegar mynd af bátnum Örkinni niðri við gljúfrið, áður en dalnum var sökkt, sem nú er sokkið í aurinn, en báturinn hafði verið fluttur þangað á snjó í apríl.
Hin er tekin á svipuðum slóðum um vorið áður en dalnum var sökkt.
Því miður hefur drjúgur hluti starfa náttúrufræðinga farið í að skoða náttúruna vegna mats á umhverfisáhrifum virkjana, þar sem náttúrperlum er fórnað fyrir stóriðjuna.
Þeir hafa oft verið undir mikilli pressu frá fjársterkum virkjanaaðilum og valdaöflum, sem krefjast "réttra" niðurstaða.
Ef ekki má eiga von á brottrekstri, samanber það þegar Ragnhildur Sigurðardóttir var rekin í úr starfi sínu við rannsóknir á Þjórsárverasvæðinu hér um árið fyrir það að hafa ekki skilað að öllu leyti niðurstöðum, sem voru ráðamönnum Landsvirkjunar þóknanlegar.
Sá brottrekstur hafði fælingaráhrif varðandi það hvað biði íslenskra náttúrufræðinga ef þeir mökkuðu ekki rétt.
Neðsta myndin er tekin aðeins innar í dalnum sumarið 2006, við Stapana og Rauðagljúfur fyrir drekkingu dalsins
![]() |
Viðræðurnar að mjakast af stað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.