23.11.2017 | 10:43
Og þetta vilja andstæðingar nýrrar stjórnarskrár í raun halda í.
Enn og aftur, í þetta skipti varðandi Landsdóm, kemur upp mál, þar sem lögfesting nýrrar stjórnarskrár hefði breytt miklu, en stundum kemur slíkt fyrir og þykir fréttnæmt vikulega eða jafnvel enn oftar.
Enda hefur verið reynt að kasta tölu á umbætur af þessu tagi, og má finna slíkt á 105 stöðum.
Eitt af því sem mér og fleirum þáverandi laganemum fyrir rúmri hálfri öld fannst furðulegt og asnalegt í stjórnarskránni, sem Danakonungur lét Dani semja fyrir Íslendinga 1874 og er í meginatriðum óbreytt enn, eru ákvæðin um Landsdóm, sem enn standa óhögguð.
Í raun kveða lögin um Landsdóm á um það að alþingismönnum sé gert skylt, ef fara á eftir lögunum, að taka afstöðu þess hvort þeir eigi að ákæra vinnufélaga sína og oft nána vini, jafnvel sessunauta eða samstarfsmenn í nefndum, um saknæmt athæfi.
Það er einfaldlega ekki hægt að ætlast til þess af þingmönnum að fást við þetta.
Þar er einfaldlega um vanhæfi að ræða.
Við samningu nýrrar stjórnarskrár hjá stjórnlagaráði var ákveðið að fella greinarnar um Landsdóm niður en skerpa í staðinn á nauðsynlegu aðhaldi dómsvaldsins og ákæruvalds þess hvað varðaði skyldur opinberra starfsmanna.
Alltaf þegar upp kemur umræða um bagaleg ákvæði eða skort á ákvæðum í núverandi stjórnarskrá, sem í raun er í meginatriðum orðin 168 ára gömul, er rætt um að það þurfi að lagfæra þessa vankanta.
En ekkert gerist. Og aðgerðarleysi og tregða gagnvart umbótum jafngildir gjörningi.
Ríkið sýknað í landsdómsmáli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Og vegna þess að í núverandi stjórnarskrá má finna ákvæði sem sumir telja að mætti laga þá er best að skipta henni út fyrir aðra sem er í öllum meginatriðum gölluð og ónothæf, en heimasmíðuð af áhugamönnum með lágmarks þekkingu. Já, við höfum heyrt það áður.
Hábeinn (IP-tala skráð) 23.11.2017 kl. 11:27
Undirritaður veit ekki betur en að Landsdómur sé enn við lýði í Danmörku og þar hafa menn verið sakfelldir.
Þorsteinn Briem, 23.11.2017 kl. 11:28
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, var sakfelldur af Landsdómi, til að mynda hæstaréttardómurum, fyrir brot á stjórnarskránni.
Og Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, ætti að sjálfsögðu ekki að þurfa að segja lögfræðingnum Bjarna Benediktssyni að breyta þurfi stjórnarskránni til að hægt sé að leggja niður Landsdóm.
"Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, telur rétt að "setja strax af stað vinnu við að breyta lögunum.""
"14. gr. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál."
Stjórnarskrá Íslands
Lög um Landsdóm nr. 3/1963
Lög um ráðherraábyrgð nr. 4/1963
Steini Briem, 30.6.2013
Þorsteinn Briem, 23.11.2017 kl. 11:34
Ráðherrar fara með æðstu miðstjórn innan stjórnsýslunnar og fara í reynd með það framkvæmdavald sem forseta Íslands er formlega veitt í stjórnarskránni.
Þeir bera ábyrgð á öllum stjórnsýsluathöfnum í þeirra eigin ráðuneytum samkvæmt stjórnarskránni og lögum um ráðherraábyrgð nr. 4/1963.
Ríkisstjórnin tekur hins vegar sameiginlegar ákvarðanir á ráðherrafundum.
Lög um ráðherraábyrgð nr. 4/1963:
"5. gr. Sé um að ræða embættisathöfn í ríkisráði eða á ráðherrafundi, sbr. 16. og 17. gr. stjórnarskrárinnar, bera allir viðstaddir ráðherrar, sem með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt hafa stuðlað að þeirri athöfn, ábyrgð á henni."
Forseti Íslands sækir vald sitt beint til þjóðarinnar en samkvæmt stjórnarskránni er hann ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum og lætur ráðherra framkvæma vald sitt.
Samkvæmt þingræðisreglunni getur meirihluti þingmanna hvenær sem er lýst vantrausti á ríkisstjórnina eða einstaka ráðherra.
Hafi slík vantrauststillaga verið samþykkt er viðkomandi ráðherra, eða ráðherrum, skylt að biðjast lausnar og þá veitir forseti Íslands þeim lausn frá embætti.
Alþingi getur með þingsályktun kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra og Landsdómur dæmir um þau mál.
Steini Briem, 10.12.2008
Þorsteinn Briem, 23.11.2017 kl. 11:36
skiptir aldur einhverju máli í þessu sambandi. hvort ný stjórnarskrá sé skari í þessu sambandi veit ég ekki hvort alþingismenn sáu að dæma félaga sína í þessu tilfelli. efast ég um þar sem þetta var tekið uppúr skýrslu. að mestu nema utanríkisráðherra Ingibjörg sólrún. sem mátti ekki gera því það var í mótsögn við skýrsluna. þó hún sem formaður flokksins var eflaust með í ráðum. mætti jafnvel færa rök fyrir því að samfylkíngin mætti sleppa en skýrsla á að ráða
kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 23.11.2017 kl. 11:39
Steini Briem, 12.4.2010:
"Landsdómur verður kallaður saman í fyrsta sinn.
Ákærðir verða Geir H. Haarde sem þáverandi forsætisráðherra, Árni M. Mathiesen sem fjármálaráðherra og Björgvin G. Sigurðsson sem viðskipta- og bankamálaráðherra.
Í Landsdómi sitja fimm hæstaréttardómarar, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, prófessor í stjórnskipunarrétti við lagadeild Háskóla Íslands og átta einstaklingar sem Alþingi kýs."
Kosning Alþingis í Landsdóm 11. maí 2005:
"Kosning átta manna í landsdóm og jafnmargra varamanna til sex ára, skv. 2. gr. laga nr. 3 19. febrúar 1963, um landsdóm.
Aðalmenn: Linda Rós Michaelsdóttir kennari, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Sigrún Magnúsdóttir fyrrv. borgarfulltrúi, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl., Fannar Jónasson viðskiptafræðingur, Hlöðver Kjartansson lögmaður, Dögg Pálsdóttir hrl., Brynhildur Flóvenz lögfræðingur."
Þorsteinn Briem, 23.11.2017 kl. 11:53
Pólitísk réttarhöld á aldrei að líða. Mistök voru gerð af stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á þessum tíma en það breytir engu. Sökudólgurinn er gallað stjórnkerfi þar sem ómenntaðir alþingismenn eru gerðir að ráðherrum í stað þess að rá fólk sem hefur þekkingu á þessum störfum.
Jósef Smári Ásmundsson, 23.11.2017 kl. 12:01
Ómar, hvaða grein gildandi stjórnarskrár fjallar um Landsdóm? Til öryggis, áður en ég skrifaði þessa athugasemd, las ég yfir stjórnarskránna okkar og það var sem mig minnti að ekkert er fjallað um Landsdóm í því plaggi.
Hvernig hefði ný stjórnarskrá þá haft eitthvað um þetta mál að segja?
Lög um Landsdóm komu upphaflega frá kóngi, voru síðan löguð nokkrum áratugum síðar. Þessi lög er einfaldlega hægt að afnema með vilja Alþingis. Þau eru tímaskekkja. Þegar síðan, veturinn 2009, þessi lög voru virkjuð, í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins, var það svartur blettur á Alþingi, blettur sem seint mun afmást.
Að tengja þetta mál við ævintýrið um nýja stjórnarskrá, sem hófst reyndar nokkru eftir að þessi lög voru virkjuð, er í besta falli barnalegt!
Gunnar Heiðarsson, 23.11.2017 kl. 12:23
Ég held að flestir eða allir sem ekki vilja nýju stjórnarskránna hans Ómars séu þeirrar skoðunar að landsdómslöginn séu tímaskekkja.
OG já, þeir kunna líka flestir þá gömlu sem augljóslega á ekki við um alla höfund þeirrar nýju.
Guðmundur Jónsson, 23.11.2017 kl. 13:19
30.8.2010:
"Jónatan Þórmundsson lagaprófessor segir við Pressuna að í sambærilegum málum erlendis hafi dómar í flestum tilfellum verið vægir.
Þannig hafi Erik Ninn-Hansen hlotið fjögurra mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm þegar Landsdómur í Danmörku komst að þeirri niðurstöðu að hann hafði misbeitt valdi sínu í svokölluðu Tamílamáli.
Það var árið 1995 og var það í fyrsta skipti í 85 ár sem Landsdómur í Danmörku var kallaður til."
Fara ráðherrar fyrir Landsdóm? Ólíklegt að fangelsi bíði þó sektardómur verði kveðinn upp
"Landsdómur í Danmörku (d. rigsret) er skipaður allt að 30 dómendum, fimmtán dómendum Hæstaréttar og fimmtán dómendum sem kjörnir eru af þjóðþinginu.
Í Tamílamálinu sátu í honum tuttugu dómendur (UfR 1995:416)"
Ráðherraábyrgð - BA ritgerð til prófs í lögfræði í febrúar 2009, bls. 17
Þorsteinn Briem, 23.11.2017 kl. 13:57
"Heimasmíðuð af áhugamönnum", - samt grundvölluð á 800 blaðsíðna verki nefndar, sem nokkrir af færustu kunnáttumönnum í stjórnlagafræðum voru fengnir til að vinna árin 2010-2011.
Og hefur fengið góða umsögn hjá erlendum háskólasérfræðingum.
Ómar Ragnarsson, 23.11.2017 kl. 13:58
Geir H. Haarde var einfaldlega sakfelldur í þessu máli sem forsætisráðherra.
Hann var hins vegar ekki sakfelldur af Alþingi, enda fer Alþingi ekki með dómsvaldið.
Og fleiri en hann voru ákærðir í þessu máli.
Þorsteinn Briem, 23.11.2017 kl. 14:15
Svokölluð "ný stjórnarskrá" hefði aldrei getað haft afturvirk áhrif á það mál sem hér er tilefni frétta. Vilji menn breyta lögum um landsdóm er ekkert því til fyrirstöðu og til þess þarf ekki "nýja stjórnarskrá". Svo er það umhugsunarefni ef höfundar tillögu að "nýrri stjórnarskrá" hafa viljað afnema ráðherraábyrgð og innleiða ábyrgðarleysi ráðherra, eins og einn þeirra virðist halda fram hér að ofan. Væri það í alvöru skynsamlegt?
Gildandi stjórnarskrá segir eftirfarandi um ráðherraábyrgð:
14. gr. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.
Greinum þetta nú aðeins nánar:
1. Ráðherraábyrgð er ákveðin nánar með lögum. Ekki í stjórnarskránni.
2. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Sú heimild girðir þó ekki fyrir annað fyrirkomulag ef menn vilja breyta því.
3. Landsdómur dæmir þau mál sem Alþingi ákveður að kæra. Það girðir þó ekki fyrir að hægt sé að fela einhverjum öðrum en Alþingi ákæruvald vegna ráðherraábyrgðar og þá þyrfti Landsdómur ekki að dæma slík mál.
Vilji menn breyta þessu fyrirkomulagi er semsagt ekkert sem hindrar það og ekki er nauðsynlegt að breyta stjórnarskrá til þess. Umræða um íslenska stjórnskipan yrði þeim mun markvissari og gagnlegri ef æðstuprestar kirkju hinnar "nýju stjórnarskrár" myndu láta af þeim leiðinda ósið að predika hana sem upphaf og endi alls sem hugsanlega mætti betur fara.
Svo væri líka góð byrjun að læra núgildandi stjórnarskrá og byrja að fara eftir henni áður en farið er að hræra mikið í henni. Í öllu ferlinu sem býr að baki hugmyndum um "nýja stjórnarskrá" hafa nefninlega aldrei verið borin kennsl á þau ákvæði sem þykja ekki nógu góð í núgildandi stjórnarskrá eða hvers vegna þau megi ekki halda áfram gildi sínu. Greiningin á viðfangsefninu var ófullnægjandi að þessu leyti og útkoman eftir því. Vissulega kann að vera ýmislegt sem megi betur fara en það væri þá lágmarkskrafa að menn gerðu grein því hvað það er og hvers vegna, áður en ráðist er í breytingar. Jafnframt sé kannað hvort það sem þarf að breyta útheimti yfir höfuð "nýja stjórnarskrá" eða hvort ekki sé nóg að gera breytingar á almennum lögum.
Hér varð allsherjar fjármálahrun. Sumir ruku þá til og vildu semja "nýja stjórnarskrá" til að hindra að slíkt gæti endurtekið sig. Útkoman varð plagg sem inniheldur ekkert um fjármálakerfið og ekki heldur neitt um fyrirkomulag peningamála, ekki einn stafkrók. Fyrrverandi fulltrúar í stjórnlagaráði hafa meira að segja greint frá því að slíkar hugmyndir hafi verið teknar til umræðu í lokuðum hópi sem aðeins hluti fulltrúanna tók þátt í og þar hafi verið ákveðið að slá þær út af borðinu. Sú ákvörðun var ekki tekin fyrir opnum tjöldum heldur í bakherbergi af fámennri klíku. Þjóðin hefur því aldrei fengið að segja skoðun sína á því hvort hún vilji ákvæði í stjórnarskrá sem koma böndum á fjármálakerfið og meðferð peningavalds.
Hefðu höfundar tillögu um "nýja stjórnarskrá" sett fram raunverulegar tillögur um að taka á því vandamáli sem var tilefni verkefnisins, þá væri allt annað uppi á tengingnum, en það gerðu þeir því miður ekki.
Guðmundur Ásgeirsson, 23.11.2017 kl. 14:26
"hafa viljað afnema ráðherraábyrgð og innleiða ábyrgðarleysi ráðherra, eins og einn þeirra virðist halda fram hér að ofan" Kem ekki auga á þetta hjá neinum hér að ofan, Guðmundur. Geturðu bent mér á klausuna?
Jósef Smári Ásmundsson, 23.11.2017 kl. 15:42
Þetta kemur fram í pistlinum hér að ofan:
"Við samningu nýrrar stjórnarskrár hjá stjórnlagaráði var ákveðið að fella greinarnar um Landsdóm niður ..."
Guðmundur Ásgeirsson, 23.11.2017 kl. 16:12
Það er ekkert í stjórnarskránni um Landsdóminn sem slíkan, hvort eða hvernig hann skal skipaður, né vinnureglur.
Hins vegar kemur orðið Landsdómur fyrir í tveim greinum stjórnarskrárinnar, þeirri sem þú nefnir Guðmundur, um hvernig skuli dæmt í ráðherraábyrgð og síðan í annarri grein sem varnar forseta að gefa upp sakir sem Landsdómur kveður.
Ráðherraábyrgð er auðvelt að halda, þó annað dómsvald dæmi. Eðlilegast að þar komi Hæstiréttur að máli, æðsti dómstóll landsins.
Landsdóm á skilyrðislaust að afnema, enda í aðli sínu pólitískur dómstóll.
Til þess þarf einungis samþykkt Alþingis.
Gunnar Heiðarsson, 23.11.2017 kl. 16:55
Gunnar minn Hreiðarsson, lestu stjórnarskrána betur. Það er gert ráð fyrir Landsdómi í 14. greininni: "Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisstörf þeirra og Landsdómur dæmir um þau mál."
Skýrari getur þetta ekki verið og stjórnarskrárbundið.
Það sem ég er að gagnrýna og hef gert í 55 ár er það form, að Alþingi verði að kæra ráðherra, sem í ljós kom að var alveg afleitt fyrirkomulag.
Ómar Ragnarsson, 23.11.2017 kl. 21:56
Eins og ég benti á í fyrri athugasemd veitir 14. gr. stjórnarskrárinnar Alþingi heimild til að kæra ráðherra fyrir embættisstörf til Landsdóms (heimildin er veitt með orðinu "getur" en ekki "skal"). Þetta orðalag girðir því ekki fyrir að Alþingi geti með almennum lögum, t.d. með breytingu á lögum um ráðherraábyrgð og lögum um Landsdóm, ákveðið að fela einhverjum öðrum ákæruvald í slíkum málum t.d. embættismanni eða óháðri nefnd.
Eins og ég benti líka á kveður stjórnarskráin aðeins á um að Landsdómur skuli dæma þau mál sem Alþingi kærir, en hún segir ekkert um það hvernig Landsdómur skuli skipaður eða hvernig hann eigi að starfa, heldur er það nánar skilgreint í almennum lögum sem Alþingi getur breytt hvenær sem er.
Enn fremur segir ákvæðið einungis að Landsdómur skuli dæma þau mál sem Alþingi kærir enn ekkert um hvaða dómstóll skuli dæma mál sem einhver annar kærir, til dæmis ef fyrrnefndum lögum yrði breytt þannig að einhver annar en Alþingi fari með ákæruvald í slíkum málum. Þannig virðist t.d. alls ekki útilokað að hægt væri að fela saksóknara ákæruvaldið og almennum dómstólum að fjalla um slík mál, eða einhverjum sérstökum saksóknara og sérdómstól. Landsdómur er reyndar sérdómstóll og ef vilji er til að breyta honum þá lægi beinast við gera það með breytingu á lögum um Landsdóm.
Ekkert af þessu sem hér hefur verið nefnt í dæmaskyni þarfnast nýrrar stjórnarskrár, heldur aðeins breytinga á almennum lögum.
Guðmundur Ásgeirsson, 24.11.2017 kl. 00:23
14.gr alþíngi gétur kært alþíngismenn fyrir embætisverk þeira. landsdómur dæmur þau mál. tilvitnun líkur svo ferlið er á hreinu og formið líka. skoðum hinn nýju 49, gr þar sem ekki má dæma þíngmenn vegna orða þeira nema með leifi alþíngis
kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 24.11.2017 kl. 07:28
Hvernig kemur Stjórnarskrá á Íslandi (gömul eða ný) í veg fyrir að Seðlabankinn á Íslandi og svokallað Fjármálaeftirlit á Íslandi endurtaki ekki ránið?
Valdamikil klíka háttsettra lögmanna og klíkubræðra skipar svo með yfirburðaráðandi skoðanakannana valdi fyrir um, hvernig niðurstöður kosninga (skoðanakannanir MMR/Gallup) eru keyptar af risafyrirtækjum og siðlausum klíkum samfélagsins.
Til dæmis Lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna og Landspítalinn hátækni-ó-menning sjá um niðurstöður kosninga næst? Vélmenna iðnaðurinn hagnaðar-hugsjóna-drifni og ómannlegi.
Ingimundur Friðriksson Seðlabankastjóri, (jafn valdamikill seðlabankastjóri og Davíð Oddson), fór í "stutt" veikindaleyfi 9. október 2008, ef ég man rétt. Síðast þegar af honum fréttist var hann kominn í vinnu hjá Seðlabankanum í Noregi? Og norskur Seðlabankastjóri var sendur til Íslands í einhverskonar "AFS"-skiptinema-glæpa-Seðlabanka rugli.
Ekki man ég hvað Rússneski handrukkara mafíuforinginn heitir, sem sá um að hóta Seðlabankagenginu og tilheyrandi teymum Fjármálaeftirlitsins og Fjölmiðlaglæpaplans-nefndinni.
Vissulega var Landsdómur um margt upplýsandi, þótt handrukkarastjórinn frá Rússlandi og Alister Darling Bretaveldis hafi því miður getað komið sér hjá því að mæta til yfirheyrslu. Hvers vegna?
Stjórnarskráin?
Gangi Geir H. Haarde og hans fjölskyldu sem best. Og gangi öllum öðrum sem best að glíma við handrukkaraforstjórana og heimsbankastjórana, sem alltaf sleppa við yfirheyrslur og afleiðingar glæpa sinna í samfélögum heimsins.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 24.11.2017 kl. 10:45
Þetta er 14. greinin í heild sér, Ómar og aftur kemur orðið landsdómur fyrir í þessari grein:
Annars vegar er sagt til um hvernig skuli farið með ráðherraábyrgð og hins vegar bann forseta við sakaruppgjöf þeirra sem dæmdir hafa verið í landsdómi. Að öðru leiti er hvergi minnst á þennan dóm í stjórnarskránni. Um þetta ritaði ég í athugasemd #16, hér fyrir ofan.
Engin grein er um tilurð landsdóm, verkefni hans né vinnulag. Þar sem önnur dómsstig eru vel tíunduð í stjórnarskránni, skildi maður ætla að landsdómur ætti að vera skilgreindur þar, hafi menn ætlað að binda þann dóm við stjórnarskránna!
Gunnar Heiðarsson, 24.11.2017 kl. 18:02
Ég kæri mig kollóttan...skv. 14. grein!
Þjóðólfur í Frekjuskarði (IP-tala skráð) 25.11.2017 kl. 07:40
Sæll Ómar.
Lýðurinn heimtaði blóð
eða a.m.k hengingu sem bragð væri að
og það voru ráð og atkvæði þingmanna sjálfra
á þessum tíma að sá væri Geir Haarde.
Hefur ekkert að gera með þetta sullumbull og
simsalabimm sem menn af kerskni og í
háðungarskyni kölluðu nýja stjórnarskrá.
Allt kolólögt rugl og þvættingur!
Húsari. (IP-tala skráð) 25.11.2017 kl. 10:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.