23.11.2017 | 20:50
Ég varð fyrir líkri árás hér um árið. Greyið var "vímaður."
Það vekur athygli þegar bíll af gerðinni NSU Prinz árgerð 1958, sem ég á, er skoðuð, að það vantar rúðuna í hægri hurð bílsins. Það ætti að sjást á meðfylgjandi mynd.
Ástæðan er sú, að óður maður, kýldi með krepptum hnefa í gegnum rúðuna þegar ég sat hinum megin í bílnum, svo að glerbrot og blóð dreifust frammi í bílnum og öskraði augnabliki áður: "Ég ætla að drepa þig, helvítið þitt!"
Aðdragandinn að þessari fólskulegu árás var sá að ég var á leið með þennan örsmáa bíl frá bílasýningu í Öskju vestur í Útvarpshús, þar sem hann var á þeim tíma geymdur á bak við súlu í kjallaranum.
Þetta var síðla kvölds um vor, og bensíngjöfin hafði bilað á bílnum, svo að ekki var hægt að aka honum nema á um 15 kílómetra hraða í vesturátt upp hallann á Vesturlandsveginum austan við gatnamót Höfðabakka.
Ég ók bílnum alveg úti í hægri kanti og vegna smæðar hans tók hann afar lítið pláss og var að engu leyti til trafala fyrir umferðina sem var mjög lítil.
Framhjá mér til vesturs var ekið nokkurra ára gömlum japönskum bíl, brúnum að lit.
Skyndilega var honum svipt til hægri út í kant, stöðvaður þar og út úr honum snaraðist grannleitur maður og hljóp aftur fyrir bílinn í áttina framan að mínum bíl.
Þegar hann var kominn það nálægt að ég sá framan í hann, brá mér í brún; hann var eldrauður í framan af æsingi og eins og augun í honum stæðu á stilkum, þegar hann hóf snaróður af tryllingi hnefann ógnandi á loft beint fyrir framan bílinn á móts við vinstra framhornið og öskraði svo hátt, að ég heyrði það inn í bílinn, enda var ég með litlu vindskeiðina fremst á glugganum opna: "Ég ætla að drepa þig, helvítið þitt!"
Nú kom sér vel að stýrið á þessum bíl var það sneggsta og léttasta í flotanum, því að mér tókst að snarbeygja til vinstri svo að maðurinn kom að hægra framhorni bílsins í stað þess vinstra þar sem hann virtist ætla að kýla mig í gegnum gluggann.
Í stað þess að kýla mig beint í andlitið í gegnum gluggann bílstjóramegin, þar sem ég sat, sló hann í gegnum hægri rúðuna, svo að hún brotnaði í þúsund mola.
Glerbrotin og blóðslettur dreifðust yfir til mín. Það sýnir hve maðurinn var dýróður og með ákveðinn brotavilja, að hann skyldi gera þetta.
Að mínu viti er ekki hægt að líta á svona árás né svipaða árás á lítið barn sem greint er frá í fréttum í kvöld með léttúðaraugum.
Því miður var atvikið í mínu tilfelli þess eðlis, og olli slíku sjokki, að það eina sem ég man, er atvikið sjálft og hinn hroðalegi svipur á árásarmanninum, en ég tók ekki eftir gerð bílsins, sem hann kom út úr, en var með afar venjulegt útlit eldri bíla.
Ég ók aðeins eins hratt og ég gat miðað við ástand míns bíls vestur í Útvarpshús og kom honum þar fyrir.
Eftir á að hyggja sýnist mér að hvort eð er hefði skipt litlu þótt ég kallaði á lögreglu miðað við þau viðbrögð, sem árásin á barnið veldur.
Ég á dálítið erfitt með að sætta mig við það að afgreiða það eitthvað á þessa lund: "Greyið var vímaður."
Þetta voru ákaflega vímaðir menn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hef aldrei verið laminn og engu verið stolið af mér, Ómar Ragnarsson.
Þú ert hins vegar sífellt að lenda í alls kyns vandræðum og ert mesti hrakfallabálkur landsins, miðað við þær sögur sem þú segir hér af sjálfum þér.
Íslenskir menn hrella þig á erlendum veitingastöðum og í millilandaflugvélum, stolið er af þér myndavélum, fartölvum, bensíni, dekkjum og bílum, lögreglan handtekur þig í Gálgahrauni og fyrir að stela þínum eigin bíl, þú lendir í umferðarslysum og flugslysum, og menn ráðast á þig í umferðinni, svo eitthvað sé nefnt.
Nær daglegar fréttir eru til að mynda á mbl.is af mönnum sem stöðvaðir hafa verið af lögreglunni ölvaðir og dópaðir í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu.
Og fangelsi landsins eru yfirfull af alls kyns afbrotamönnum.
Mönnum er yfirleitt sleppt eftir yfirheyrslur vegna afbrota sem þeir hafa framið og eru dæmdir síðar vegna þeirra en þó gegnir stundum öðru máli um síbrotamenn ef talið er mjög líklegt að þeir brjóti strax aftur af sér.
Þorsteinn Briem, 23.11.2017 kl. 21:46
Pressphotos.biz
Þorsteinn Briem, 23.11.2017 kl. 21:57
Ég hef reyndar aldrei verið laminn frekar en þú, Steini minn. Það mistókst í það skipti sem ég er að lýsa. Ég hef líka aðeins einu sinni slasast í umferðarslysi en ekki í mörgum umferðarslysum eins og þú segir.
Og upptalning á því sem stolið hefur verið af mér, svo sem bensíni og dekkjum á við einn bílþjófnað, þar sem fylgdu með bílnum dekk og bensín.
Ómar Ragnarsson, 23.11.2017 kl. 23:11
Sæll.
Þessir menn eiga að sitja inni og sá sem barnið lamdi á að sitja inni í einhver ár enda algerlega óásættanlegt að veitast að svona ungu barni og senda þarf afar skýr skilaboð varðandi þetta.
Það er hins vegar hætt við að kerfið klikki hér.
Helgi (IP-tala skráð) 24.11.2017 kl. 05:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.