27.11.2017 | 10:52
"Kampavínsstjórnin"? Varla. Og þó?
Margs konar venjur og siðir hafa skapast í kringum svonefnd freyðivín. Í akstursíþróttum og jafnvel fleiri íþróttum tíðkast að sigurvegarar hristi kampavínsflösku eða flöskur eftir atvikum og láti hið freyðandi vín sprautast úr flöskunum yfir sig og aðra.
Hægt er að líta á slíka hefð gagnrýnisaugum með tilliti til "áfengisbölsins" en einnig þannig, að eftir langan og strangan aðdraganda, sem krefst 100% einbeitingar og algers bindindis, sé í lagi að slappa aðeins af.
Ég er bindindismaður og þegar við Jón bróðir vorum settir í þá aðstöðu að fylgja hefðinni, gerðum við það með því að nota appelsínfernur í staðinn og hella safanum yfir hausana á okkur.
Allt var það meinlaust og skemmtilegt, en þó með smá undirtóni.
Við brúðkaup og fleiri slíkar athafnir er stundum skálað í kampavíni; við sjósetningu skipa er freyðvínflaska í bandi oft látin brotna á stefninu og þannig mætti lengi telja.
Yfirleitt eru tilefnin þau að verið er að fagna árangri sem markar tímamót eins og fyrstu siglingu að ferð, ellegar þá að fagnað er afrakstri af mikilli og vandasamri vinnu eða þjálfun og hugsanlega hefur eitthvað slíkt verið í hugum þeirra sem sýndust skála í freyðvíni í vinnulok bak við gluggatjöld í Ráðherrabústaðnum í gærkvöldi.
Það er spurning um smekk og stemningu hvernig fólk fagnar loknu verki sem markað geti upphaf á myndun markverðrar ríkisstjórnar og þannig má líta á þennan litla atburð í gærkvöldi sem hefur jafnvel kallað það fram, að ef úr ríkisstjórnarsamstarfinu verði eftir stranga törn, fái hún viðurnefnið "Kampavínsstjórnin", samanber "Viðeyjarstjórnin" og "Þingvallastjórnin" á sínum tíma.
Og það má líta á heitið kampavínsstjórn jákvæðum augum hvað varðar það, að aðstandendur hennar líta greinilega á þessa stjórn, stefnu hennar og verk þeim augum að hún muni verða tímamótastjórn þarfra verka.
Vill engu svara um freyðivín | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mörlendinga ferleg fýsn,
færist nú í auka,
þetta eru bölvuð býsn,
að bjálfum víni gauka.
Þorsteinn Briem, 27.11.2017 kl. 12:44
En hins vegar gott dæmi um dónaskap að beina myndavél að rifu á annars lokuðum gluggatjödlum (reyndar dónaskapur líka að beina myndavélinni inn um gluggann, en sérstaklega þegar dregið hefur verið fyrir). Svo ekki sé talað um að gera það sem fékkst úr þeirri myndatöku að fréttaefni.
ls (IP-tala skráð) 27.11.2017 kl. 13:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.