12.12.2017 | 17:29
Misskilningur og fordómar varðandi hjólaferðir að vetrarlagi.
Þegar mér barst í hendur fyrir tilviljun rafreiðhjól fyrir tæpum þremur árum var það splunkunýtt rafreiðhjól sem ég tók upp í sölu á illseljanlegum bíl, og tók ég hjólið á þeim forsendum að geta selt það, af því að það var einstaklega vel úr garði gert.
Þar að auki stóð í þeirri trú að búseta austast í Grafarvogshverfi gerði hjólið ónothæft, það væri allt of oft of kalt og vont veður og of oft ófært.
Ég vildi ekki selja hjólið nema prófa það, en það dróst, ég setti það ekki rétt í rafsamband, og í ofanálag virtist ljóst, að það hafði staðið of lengi óhreyft áður en ég fékk það.
Síðan auglýsti einhver allmörg ný rafreiðhjól á hálfvirði, hugsanlega vegna kyrrstöðu þeirra, og þar með var hjólið mitt orðið verðlaust!
Á þeim tíma sem ég var að koma hjólinu í nothæft horf með viðgerð á rafhlöðunni, kom hins vegar í ljós að langflestar mótbárurnar gegn notkun þess höfðu byggst á misskilningi eða fordómum.
Hjólið sparar til dæmis því meiri orkukostnað sem leiðirnar eru lengri, það er hægt að setja undir það vetrardekk og þar með er hálku- og snævarhindrun úr sögunni.
Svipaðir fordómar hurfu þegar ég bætti léttu Honda PCX 125 cc vespuhjóli við, og í tvö ár hefur reynslan verið sú að hjólin hafa verið nothæf í hverri einustu viku árið um kring í allt að 7 stiga frosti og jafnvel farnar ferðir austur fyrir fjall í frosti og vetrarfærð.
Fór til dæmis á Hondunni austur á Sólheima á litlu jólin þar í fyrra og rakleiðis frá Sólheimum vestur í Háskólabíó til að koma þar fram á jólatónleikum Baggalúts.
Það rifjaðist upp fyrir mér, að á aldrinum 9-19 ára hafði ég verið á ferð á reiðhjóli allan veturinn og í flestum veðrum, og voru þó engir sérstakir hjólastígar þá.
Í ferðum á hjólum, einkum á reiðhjólum, er náttúruupplifuninin öll önnur en á bíl.
Það var til dæmis ógleymanlegt að fara frá Akureyri á hjólinu Náttfara upp Þelamörk og Öxnadal í hitteðfyrra og heyra jafnvel tíst í nýfæddum ungum í hreiðrunum við veginn.
Hjólar hringinn í vetrarfæri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Stundum fer maður að trúa því sem þú skrifarjen, en gastu hjólað allan hringinn á þessu reiðhjóli þarna, án þess að hlaða? að það hlóð sig upp í undanbrekkum?
Eyjólfur Jónsson, 12.12.2017 kl. 19:27
Sé að rafhjól geta verið hentug í bæjarsnatt þá það er sumar.
En bíll verður notaður í mína næstu langferð, þar sem ég treysti hvorki svona hjóli eða minni frú á bögglaberanum í 800km.ferð og með 40kg. Töskur um áramót og svo aftur í endaðan janúar.
Leyndarmál þessara tækja eru ýmis en fáir til svara aðrir en sölumenn.
Hrólfur Þ Hraundal, 12.12.2017 kl. 19:55
Ég er að skrifa um tvö hjól, rafreiðhjól og Honda PCX 125cc vespuhjól, sem nær þjóðvegahraða og fór hringvegarhringinn á rúmum sólarhring og Vestfjarðahringinn í viðbót, alls 2000 kílómetra á rúmum þremur sólarhingum, enda haldnar 22 kynningar á safnplötu og þrennir hljómleikar.
Ég fór á rafreiðhjólinu Sörla frá Akureyri til Reykjavíkur um Hvalfjörð, 430 kílómetra leið, á einum sólarhring og 17 klukkstundum, fór 189 km á einni hleðslu ttl Stóru-Giljár þar sem ég svaf í fimm tíma og hlóð hjólið, en setti líka í samband stuttlega í Staðarskála, Olísskálanum í Borgarnesi og að Bjarteyjsarsandi á meðan ég mataðist á þessum stöðum skrifaði bloggpistla go facebook og birti ljósmyndir.
Fór einnig í eina könnunarferð frá Akureyri upp á Ösnadalsheiði á mínu hjóli, Náttfara, og einnig eina ferð til Hvolsvallar og tvær til Hveragerðis.
Á einu ári fór ég 2400 kílómetra samtals á rafreiðhjólum og 9000 á vespuhjólinu, þar af 600 kílómeta úti á þjóðvegum.
Ómar Ragnarsson, 13.12.2017 kl. 01:20
Ég get staðfest a.m.k. að hluta til það sem Ómar skrifar. Þegar ég var innan við tvítugt átti ég 50 cc hjól sem ég notaði árið um kring í öllum veðrum. Þetta var í innsveitum Eyjafjarðar og snjóruðningur og hálkuvarnir voru langt frá því á pari við það sem nú þekkist. Þetta gekk nú samt bærilega allt saman. Rafmagnið er smátt og smátt að taka við af sprengihreyflinum og er það vel.
Á hinn bóginn sé ég ekki að öll stærri bifhjól verði notuð árið um kring. Það er þó ekki útilokað. Torfæru-, enduro- og crossoverhjól er sennilega auðvelt að nota ef undir þeim eru negld dekk. Reiserar og hippar eru sennilega meiri áskorun. Sjálfur á ég hippa og hef einu sinni þurft að bjarga mér heim þegar skyndilega fór að snjóa í miðri hjólaferð í apríl. Það var verulega varasamt. Dekk með öðru og grófara mynstri hefðu þó mögulega breytt miklu, enda var það reynsla mín af "skellinöðruárunum".
Ég ferðaðist eitt sinn 900 km á einum degi innanlands á mótorhjóli. Það var vel gerlegt, þó það sé ekki skynsamlegt að aka svo lengi á einum degi.
Margir líta mótorhjól, vespur og önnur tveggja hjóla farartæki hornauga í umferðinni. Þetta eru hins vegar hinir ágætustu fararskjótar. Þau slíta gatnakerfinu minna, taka minna pláss en bílar og flytja ágætlega á milli staða þann 1,2 menn sem jafnan eru í hverjum fólksbíl sem ferðast um gatnakerfið. Útblástur er minni og svifryk sömuleiðis. Í fljótu bragði er ekki margt sem mælir gegn þeim.
Hreiðar Eiríksson (IP-tala skráð) 13.12.2017 kl. 08:28
Ég tek það fram að ca 85% minnkun persónulegs kolefnisspors míns er ekki hærra en þetta, vegna þess að það er í sumum ferðum mínum ekki hægt að framkvæma þær nema á bíl, knúnum jarðefnaeldsneyti. En miðað við verkefni mín og það, að stundum förum við konan mín saman í ferðir, er einfaldlega ekki mögulegt að komast í hærri tölu en 85%.
Lengsta vélhjólsferð mín á innan við sólarhring var frá Reykjavík um Akureyri, Egilsstaði og Fjarðaleið til Hornafjarðar um 900 kílómetrar, en lengsta leiðin fram og til baka milli morguns og kvölds var i september í fyrra, frá Reykjavík til Siglufjarðar og til baka suður, 800 kílómetrar.
Ég mæli ekki með lengri dagleið en það.
Menn átta sig ekki á því hér á landi að létt og lipur hjól skapa hvert um sig pláss fyrir aukabíl með bílstjóra um borð.
Ekki þarf annað en að fylgjast með umferð í borgum eins og Róm til að sjá það.
Og við Lyon í Frakklandi í sumar vorum við hjónin föst í umferðarteppu í klukkustund. Á þeim tíma taldi ég 72 bifhjól sem fóru þar í gegn án þess að tefja fyrir einum einasta bíl, á sumum hjólunum tveir um borð.
Ef þetta bifhjólafólk hefði verið á bílum, hefði teppan orðið 72 bílum stærri.
Ómar Ragnarsson, 13.12.2017 kl. 22:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.